Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Listin að ljúga

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðsend skoðun
Eftir / Björn Leví Gunnarsson

Ein uppáhalds greinin mín í stjórnarskránni er 48. greinin. Þar segir að „alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að þessi grein er í ákveðnu uppáhaldi. Til að byrja með vegna þess að hún setur ákveðnar væntingar um kjörna fulltrúa. Kjörinn fulltrúi þarf ekki að vera menntaður upp fyrir haus eða hokinn af reynslu. Kjörinn fulltrúi þarf einungis að fylgja sannfæringu sinni.

Hvers vegna skiptir það máli? Vegna þess að það er lífsins ómögulegt að vera sérfræðingur í öllu. Þess vegna er það svo mikilvægur hluti af ferli þingmála að fá umsagnir um þingmál. Ekki bara umsagnir sérfræðinga og sértækra hagsmunaaðila, heldur umsagnir frá öllum. Þingmenn vega svo og meta umsagnir. Skoða álitaefni og mótsagnir og taka svo ákvörðun út frá sannfæringu sinni um afdrif mála.

Það hefur gerst, oftar en einu sinni, að logið sé í umsögnum. Eitt nýjasta dæmið var þegar Samorka sagði í máli Pírata um kæruheimild samtaka að kæruleið yrði að vera annað hvort til stjórnsýslu eða dómstóla, ekki hvort tveggja. Þetta var bláköld lygi og hvort sem hún var vegna vanþekkingar eða ekki þá kom umsagnarferlið að minnsta kosti upp um lygina, sem var mjög gott. Í kjölfarið spurði ég hvort það væri ekki einhverjar afleiðingar við að ljúga að þinginu. Svarið var einfalt, nei.

En það eru ekki bara umsagnaraðilar sem ljúga. Stjórnmálamenn gera það líka. Oft, meira að segja. Algengasta lygin er þessi tæknilega. Einhvers konar útúrsnúningur eða eitthvað sem er erfitt að festa hönd á á einn veg eða annan.  Stjórnmálamenn ljúga, ekki allir og ekki alltaf. Þess vegna finnst mér 48. gr. stjórnarskrárinnar mjög áhugaverð því hvers vegna ættum við að vilja kjörna fulltrúa sem hafa þá sannfæringu að það sé bara allt í lagi að ljúga vísvitandi að okkur?

Auðvitað viljum við það ekki en við búum hins vegar á tímum vantrausts þar sem öllum stjórnmálamönnum er vantreyst. Ef ég segi til dæmis að Bjarni sé að ljúga þá breytir það engu um skoðanir þeirra sem eru með Bjarna í liði. Ég er pólitískur andstæðingur og það er hægt að hunsa allt sem ég segi og taka mark á öllu sem Bjarni segir, óháð öllu öðru. Jafnvel þó það sé hægt að sýna fram á lygina með óháðum heimildum.

- Auglýsing -

En hvað er til ráða, án þess að sverfa að málfrelsi? Til að byrja með verðum við að vita af vandamálinu, að liðsfélagar okkar geta líka logið. Við verðum að gera upp við okkur hvort það sé í lagi því ef við ákveðum að það sé í lagi þá verður afleiðing sú að allir fara að ljúga og þú þarft að velja þér lið eftir því hver lýgur minnst eða best eða eitthvað. Það er ekkert val, að mínu mati. Það er brjálæði.

Höfundur er þingmaður Pírata.

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -