2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Lúxusvandamál í miðbæ Reykjavíkur

Á tímum mikillar uppsveiflu í efnahagslífi og ferðamennsku er offramboð af dýrum lúxusíbúðum og fjöldinn allur af tómu verslunar- og þjónustuplássi við eftirsóttustu götur borgarinnar. Hvað skyldu borgaryfirvöld í New York hafa verið að hugsa að leyfa þessu að gerast?

Já, það er víðar en í Reykjavík sem þróunin á fasteignamarkaði er snúin. Sama á reyndar við um enn fleiri borgir þar sem hefur verið mikill uppgangur á undanförnum árum. Fasteigna- og leiguverð hefur rokið upp, bæði á íbúðar- og verslunarhúsnæði, og markaðurinn hefur brugðist við með framkvæmdum af miklum móð.

Sum staðar hefur leigan hækkað svo svakalega að fasteignaeigendur hafa beinlínis gereytt verslun þar sem áður voru vinsælustu þjónustupláss borga. Þetta á til dæmis við um Bleecker stræti í New York (sjá til dæmis þessa grein á vef NY Times).  Um tíma voru flestir af frægustu tískuhönnuðum heims með verslanir við þessa notalegu götu í West Village þar sem Carrie Bradshaw og vinkonur í Sex in the City léku sér. Núna er Bleecker sagt vera eins og „draugabær“ eða „gata í ryðbeltinu“.  Tískuhönnuðurnir lokuðu hver á fætur öðrum og eftir stóðu tóm rými og svo stjarnfræðilega hátt leiguverð að verslunareigendurnir sem þjónuðu hverfinu áður en gullæðið gekk í garð hafa ekki efni á að snúa til baka í plássin.

Gatan hefur þó aðeins verið að hjara við á undanförnum mánuðum. Það er smám saman að renna upp fyrir leigusölunum að þeir verða að lækka leiguna til að fá rekstur í plássin sín.

Sársaukafullar sveiflur

AUGLÝSING


Í Reykjavík er og hefur verið fordæmalaus uppbygging í gangi frá um það bil Höfðatorgi til austurs og vestur að Slipp. Fjölmargar vel útbúnar nýjar íbúðir eru komnar til sölu á þessu svæði. Á götuhæð er svo í boði vandað verslunar- og þjónusturými. Fyrirséð er að svona fínum fermetrum á eftir að fjölga verulega á næstu mánuðum. Og nú er spurt: Hvar eru ódýrari og minni íbúðirnar sem mest þörf er á? Svarið er tiltölulega einfalt. Frjáls markaður hegðar sér ekki alltaf skynsamlega þegar til skamms tíma er litið. Styrkleiki hans felst hins vegar í því að finna sér jafnvægi þegar fram líða stundir.

En sveiflurnar geta verið sársaukafullar. Þetta hafa til dæmis kaupendur að sinni fyrstu íbúð mátt reyna á sínu skinni á undanförnum árum mikilla hækkanna á fasteignamarkaði. Sama má segja um ýmsa sem gráðugir leigusalar og byggingafélög hafa flæmt úr rekstri í miðbænum. Nú eru að renna upp breyttir tímar. Pendúllinn er að sveiflast af hlið leigusala og byggingafélaga yfir til þeirra sem kunna að hafa áhuga á að fá húsnæði á viðunandi kjörum fyrir rekstur í miðbænum. Sama mun gerast með óseldu fínu íbúðirnar. Erfitt eða ómögulegt verður fyrir félögin sem eiga þær að láta þær standa tómar mánuðum saman.

Of vinsæll

Við sjáum að þetta er nú þegar orðið vandamál. Á vef Viðskiptablaðsins birtist í vikunni viðtal við arkitekt sem kom að byggingu 38 lúxusíbúða við Tryggvagötu. Þar kemur fram að ári eftir að framkvæmdum lauk er enn um helmingur þeirra óseldur. Arkitektinn segir að ekki sé hægt að lækka verð íbúðanna því þá sé það komið undir byggingarkostnað þeirra. Í sömu frétt er haft eftir Ásgeiri Jónssyni, deildarforseta Hagfræðideildar Háskóla Íslands, að það kæmi honum ekki á óvart að verð á lúxusíbúðum gæti lækkað frekar enda virðist sá markaður vera mettur.

Kemur Ásgeir þar að kjarna málsins. Verðhugmyndir þeirra sem byggja lúxusíbúðir mega sín lítils gegn lögmálum markaðarins um framboð og eftirspurn. Því er mjög líklegt að verðið muni lækka. Mögulega í meðförum lánastofnanna sem gætu þurft að leysa þessi félög til sín. Það verður svo vonandi til þess að fleiri hafi efni á þessum íbúðum í miðbænum sem aftur slakar á samkeppni um íbúðir í næsta verðflokki fyrir neðan og svo koll af kolli.

Þessi þróun er farin af stað í miðbænum bæði með íbúðar- og verslunarhúsnæði. Óumflýjanlega munu fylgja átök um tómar nýjar íbúðir og auð verslunarpláss en þá er nauðsynlegt að hafa á bakvið eyrað að ástæðan fyrir ástandinu er að svo margir vilja búa í miðbænum og stunda þar rekstur, að verð á húsnæði er þar hæst á öllu landinu. Þetta er svokallað lúxusvandamál.

Væntanlega munu byggingafélögin ekki uppskera eins og þau vonuðust til. Nýju fermetrarnir munu þó fyllast með tíð og tíma og eftir mun standa reisulegri og sterkari miðbær. Hver verða örlög Smáralindar er svo allt annað mál.

Lestu meira

Annað áhugavert efni