2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Maður er manns gaman“

Einmanaleiki, einkum aldraðs fólks, er orðið vandamál í samfélagi okkar og karlar eru mun verr staddir en konur. Félagsleg tengsl þeirra eru veikari en kvenna og þeir eiga erfiðara með að halda samböndum gangandi.

Í Hávamálum er mikilvægi vináttunnar undirstrikað í orðunum sem eru yfirskrift þessa pistils. Að auki er þar að finna góð ráð um hvernig rækta eigi vináttuna. Gefa vini sínum gjafir, heimsækja hann oft en einnig leyfa honum að eiga frí frá þér af og til. Vináttan er eitt æðsta form mannlegra samskipta að mati höfundar Hávamála og í samskiptum við aðra finnur hann sjálfan sig. Hreinskilni, traust og tryggð eru grunnstoðir sambandsins. Á tímum rafrænna samskipta er hollt að rifja af og til upp hversu magnað er að eiga innihaldsríkar samræður við aðra manneskju, finna fyrir nánd og skilningi. Hávamál vara fólk líka eindregið við því að binda enda á vináttu og vera fyrri til að slíta slíkum böndum. Þar er hvatt til umburðarlyndis en einnig að rækta samskiptin á jafnaðargrundvelli. Það að hughreysta, gefa öðrum góð ráð og taka þátt í sorgum þeirra og gleði er nefnilega vísust leið til þroska og sjálfskilnings.

Einmanaleiki, einkum aldraðs fólks, er orðið vandamál í samfélagi okkar og karlar eru mun verr staddir en konur. Félagsleg tengsl þeirra eru veikari en kvenna og þeir eiga iðulega færri vini. Margar konur lifa mjög gefandi félagslífi langt fram á elliár og það jafnvel þótt makinn sé fallinn frá. Þær hafa lag á að laða til sín fólk, viðhalda tengslum og skapa ný. Þetta er þeim kennt frá barnæsku. Karlar eiga erfiðara með að eiga frumkvæði að alls konar samkomum og samverustundum, sérstaklega sú kynslóð er nú er komin á efri ár. Enginn er svo einrænn eða sjálfum sér nægur að hann þarfnist ekki samvista við aðra af og til. Í nýlegri umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmál kom það fram að ein grimmilegasta refsing sem hægt er að beita nokkra manneskju er einmitt að einangra hana dögum saman í klefa án samneytis eða möguleika til afþreyingar. Sú leið er vísust til að brjóta hana gersamlega niður. Þess vegna er sorglegt að vita að enginn lítur til margra aldraðra einstaklinga og þeir eiga engan að. „Hrörnar þöll, sú er stendr þorpi á. Hlýr-at henni börkr né barr. Svá er maðr, sá er manngi ann. Hvat skal hann lengi lifa? Já, líf þess er enga ástvini á er tómlegt og lítt eftirsóknarvert. Við skiljum þetta öll en höfum enn ekki borið gæfu til að skapa þannig umgjörð um líf okkar að vináttan og umhyggjan fyrir öðrum sé þar í fyrirrúmi. Fæst ungt fólk hefur tíma til að rækta vináttu við jafningja sína hvað þá við aldraða ættingja en stundum snýst þetta um að gefa sér tíma. Hinn spakvitri höfundur Hávamála orðar þetta betur en ég gæti nokkru sinni. „En til góðs vinar liggja gagnvegir, þótt hann sé firr farinn.“

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni