2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Minn er dýrari en þinn

Fátækt er eitt alversta böl mannkynsins. Að tilvera manna snúist um það eitt að draga fram lífið og búi við sífelldan ótta og kvöl er óbærileg tilhugsun. Líka sú staðreynd að manneskjur missi heilsuna og eigi lítið eða ekkert val vegna þess að allar vökustundir þeirra snúast um að tryggja sér skjól og mat þann daginn. Á tyllidögum og þegar vel liggur á okkur hristum við höfuðið yfir óréttlæti og skömm samfélagsins sem býður einstaklingum slík kjör en minna fer fyrir aðgerðum til úrbóta. Þá sjaldan að við stöldrum við og spyrjum okkur hvernig samfélag vil ég byggja upp og móta er svarið aldrei þjóðfélag þar sem ég fórna talsverðum persónulegum hagsmunum til að öllum geti liðið vel. Um það eiga aðrir að sjá, ríkið eða hið opinbera í flestum tilfellum, og þá er svo þægilegt að setja tröllslegan haus á það skrímsli og gleyma að ríkið það er ég og þú. En nú er kominn tími til að spyrja hvað ætla ég að gera til að skapa meiri jöfnuð og betri lífskjör öllum til handa.

 

Nú standa yfir verkföll Eflingar og sitt sýnist hverjum um kjarabaráttu láglaunahópa innan þess stéttarfélags. Þar er beðið um leiðréttingu, lagfæringu á kjörum sem eru með öllu óásættanleg þegar tekið er mið af kostnaði við framfærslu. Margir hrista höfuð sitt yfir frekjunni í þessum kerlingum, en þær eru víst í meirihluta meðal þessara tekjulægstu, og segja þetta úr öllu samhengi við lífskjarasamningana og muni ekki verða til annars en ýta af stað skriðu kaupkrafna eða höfrungahlaupi meðal hinna í efri flokkum kauptaxtanna. Enn og aftur er minnt á töfraorðið menntun og manneskjur með tveggja, þriggja, fimm og sjö ára háskólanám verði nú undirseldar þeim ömurlegu örlögum að skúringakona sé svo og svo lágri prósentutölu frá þeirra launum. Engin virðing sé lengur borin fyrir menntun og alls ekki borgi sig að læra neitt. Er ekki eitthvað athugavert við þetta verðmætamat?

Menntun er og verður ávallt forréttindi ætluð þeim sem hafa tækifæri, hæfni og stuðning. Hún er kostnaðarsöm bæði fyrir nemendur og samfélagið. Af hverju skiptir það mestu um virðingu fyrir menntun fólks og starfi hve há upphæð er borguð fyrir að gegna því? Mikið er það lítilfjörleg manneskja sem eingöngu nýtur virðingar vegna tölunnar á launaseðlinum sínum.

AUGLÝSING


Undanfarið hefur Efling gefið okkur innsýn í líf þeirra sem nú standa í kjarabaráttu. Hve mikið þeir fá útborgað og hvað stendur eftir þegar allt hefur verið borgað. Það er skammarlega lítið. Og hafið þið séð konurnar í eldhúsinu sem mega ekki hirða afgangana af matnum sem þær elda? Frekar er matnum hent því vinnuveitandi þeirra hefur, að óreyndu, ákveðið að þær muni skammta skjólstæðingum sínum minna ef þær fái að vinna gegn slíkri matarsóun. Þvílík meinsemi og varla eftirsóknarverður yfirmaður sem svona hugsar. Í ljósi þessa er þá ekki kominn tími til að allir taki höndum saman, afsanni kenninguna um höfrungahlaupið og spyrji hverju vil ég fórna til að sjá sanngjarnara, jafnara og betra samfélag?

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni