Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Múgurinn, Sölvi og tárvotu hræsnararnir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mál Sölva Tryggvasonar, sjónvarpsmanns og heilsufrömuðar, hefur vakið gríðarlega athygli og er í senn sorglegt og sláandi. Dögum saman geysaði fjölmiðlafár á samfélagsmiðlum vegna sögusagna um að hann hefði misþyrmt konu og verið tilkynntur til lögreglu. Þegar Mannlíf fjallaði um fárið í upphafi neitaði Sölvi að tjá sig. Svo sendi hann út tilkynningu um að konan sem um ræðir hefði hótað sér mannorðsmissi og sögusagnirnar væru lygar frá upphafi til enda.

Þá reis upp nokkur fjöldi fólks og lýsti yfir sakleysi Sölva. Hjörðin hljóp í hina áttina. Fræg er afdráttarlaus fyrirsögn Mörtu Maríu Jónasdóttur í Morgunblaðinu: Sölvi er saklaus. DV var á svipuðum slóðum, þrátt fyrir að vera stimplað af Ísafjarðarmálinu, og ýtti undir andúð á sendiboðunum. Fleiri fjölmiðlar fluttu einhliða fréttir um sakleysi Sölva og ofsóknir á hendur honum. Sölvi fylgdi málinu eftir með hlaðvarpsþætti þar sem lögmaður hans, Saga Ýrr Jónsdóttir, ræddi við hann um þá hroðalegu aðför sem stæði yfir. Sölvi grét nokkrum sinnum í þættinum vegna mannvonskunnar sem bitnaði nú á honum. Hann hnjóðaði í ástkonu sína sem hann sagðist hafa kært fyrir að hóta sér mannorðsmissi. Hann lýsti henni sem svikakvendi og furðaði sig á því að hún væri orðin vændiskona eins og sögur hermdu.

Hlaðvarpsþátturinn var með slíkum endemum að hans verður lengi minnst í sögu íslenskra fjölmiðla. Lögmaðurinn virðist teyma Sölva út í það foraðið að afneita öllu og saka fólk og fjölmiðil um að ljúga upp á sig. Hann undraði sig á því að frétt Mannlífs um sögusveiminn og ásakanarnir væri enn uppi og ritstjórn Mannlífs hefði ekki beðið sig afsökunar. Lögmaðurinn í spyrilssætinu tók undir allt og fjargviðraðist yfir fréttaflutningnum. Hvorugt nefndi að í frétt Mannlífs var Sölvi ekki nefndur og hann steig sjálfur fram. Kjarni fréttarinnar var sá að hópur fólks krafðist þess að þöggun um mál þjóðþekkts einstaklings yrði ekki látin viðgangast. Frammistaða beggja í þættinum ætti að kalla á skoðun siðanefnda blaðamanna annars vegar og lögmanna hins vegar.

Bylgja samúðar reis með Sölva

Eftir að þátturinn var sýndur hófst nýtt fár á samfélagsmiðlum. Að þessu sinni voru þeir háværastir sem trúðu hverju orði Sölva og Sögu og vildu refsa áhrifavaldinum sem reisti málið. Stöku öfgamenn á sviði tjáningar lögðu til að Mannlíf yrði sniðgengið fyrir að segja frá umræðunni. Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson grét með Sölva og Börkur Gunnarsson leikstjóri dáðist að honum fyrir að stíga fram af slíkri einlægni. Fjölmiðlamaðurinn Jón Axel Ólafsson á K 100 bað Sölva einlæglega afsökunar. Bylgja samúðar reis með Sölva og þeir sem stóðu fremst í fyrri bylgjunni og kröfðust þess að þöggun um mál hans linnti voru að þessu sinni fordæmdir. Vanstillingin varð algjör.

Ásakanir um ofbeldi og nauðgun

En svo dró til tíðinda í gær. Þrjár konur báru þungar sakir á Sölva, þar af ein sem er þekkt fyrir að hafa verið með starfsemi á sviði vændisþjónustu. Sú krefur Sölva um sannleikann eða að birt verði gögn sem leiða muni sekt hans í ljós. Ásakanirnar snúast um ofbeldi, nauðgun og andlega kúgun. Tvær kvennanna hafa krafist lögreglurannsóknar. Ekkert hefur heyrst frá lögmanninum Sögu eða skjólstæðingi hans eftir að þetta kom fram. Nú er staðan sú að vinir Sölva sem stigu fram fordæmdu þá sem veittust að æru hans eru þagnaðir og það er vel. Dómharkan sem réði málflutningi hefur vikið fyrir undrun og þögn.

Þjóðin hefur farið í gegnum mál sem hægt er að draga lærdóm af. Ísafjarðarmálið er eitt af þeim frægari. DV sagði frá rannsókn sem sneri að misnotkun á ungum piltum. Sá sem grunaður var um verknaðinn fyrirfór sér áður en blaðið kom út. Bylgja andúðar reis gegn blaðinu sem endaði með því að ritstjórarnir, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, hættu störfum og rekstur blaðsins var rjúkandi rúst. Hræsnisfullir fjölmiðlar beittu sér í fordæmalausri aðför gegn ritstjórninni. Niðurstaðan varð síðan sú að fórnarlömbunum í Ísafjarðarmálinu voru dæmdar hæstu mögulegar bætur af bótanefnd. Á þessu sama hefur örlað í Sölvamálinu. Hræsnarar á samfélagsmiðlum hafa, tárvotir, sumir hverjir, krafist þess að þeim yrði refsað sem opnuðu mál Sölva Tryggvasonar. Þeir hafa viljað aðför að sendiboðanum og refsingu, án dóms og laga. Drepum sendiboðann, eru skilaboðin.

Hlutverk fjölmiðla er þá að koma böndum á kjaftasögur

- Auglýsing -

Lúkasarmálið er annað mál þar sem einstaklingur var ofsóttur af múgnum fyrir að drepa hund með afar grimmilegum hætti. Dögum saman ríkti fjölmiðlafár og meintur hundamorðingi var nafngreindur. Svo fannst hundurinn Lúkas sprellifandi og málið allt hrundi. Fjölmiðlar voru ekki saklausir þá fremur en álitsgjafar á samfélagsmiðlum. Fleiri dæmi eru um sögusagnir sem verða að fjölmiðlafári og ekki er allt sem sýnist. Hlutverk fjölmiðla er þá að koma böndum á kjaftasögur og skikk á umræðuna.

Fyrir tíma samfélagsmiðla var landið undirlagt af sögum um að beinagrindur ungra drengja sem týndust nokkrum árum fyrr hefðu fundist í gámi í Bandaríkjunum. DV rannsakaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að það væri innistæðulaust. Í samráði við foreldra týndu drengjanna var sögð frétt um að þetta væru kjaftasögur. Í Kastljósi í gær var umræða um það hvernig væri hægt að fyrirbyggja að svonalagað gerðist. Einfalda svarið er að kjaftasögur fylgja samfélagi manna og lítið annað hægt að gera enn að róa sig, spara yfirlýsingar, og leita sannleikans.

Sölvamálið er ekki búið. Hann er uppvís að ósannsögli en hvorki sekur að lögum né saklaus fyrr en annað hvort sannast. Fólk gerði best í því að hætta að kveða upp dóma, reista á sögusveimi eða einhliða frásögnum. Nú ættu allir sem að málum koma að líta í eigin barm og hugsa hvernig hefði fremur átt að bregðast við. Sölvamálið þarf að ræða og fjalla um af yfirvegum og tillitssemi, bæði við meintan geranda og meint fórnarlömb. Að baki öllu þessu eru sorgarsögur af fólki sem gengur í gegnum raunir, ýmist af eigin völdum eða annarra. Aðgát skal höfð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -