• Orðrómur

Netmyrkrið á Dröngum: Andi Eiríks Rauða og rætur Leifs heppna

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Það er mögnuð upplifun að staldra við í Signýjargötuskarði. Sólin varpar geislum sínum niður á hóp Ferðafélags Íslands sem er kominn úr botni Drangavíkur á leið að Dröngum.  Fjaran undir Drangaskörðum er grýtt og síbreytileg þanng að erfitt er að finna taktinn við að stikla fjöruna. Fyrr um morguninn hafði Jón Geir, skipstjóri hjá Strandferðum, siglt með okkur úr Norðurfirði og inn á Drangavík þar sem hópurinn var ferjaður í land á gúmmbáti.

Gengið um Martröð

Við ákváðum fyrir nokkrum árum að gönguleiðin með sunnanverðum Dröngunum bæri nafnið Martröð með vísan þessu að hún liggur með sjónum og ekki síður það að hún er torfarin. En himnesk fegurðin við Drangana fær fólk til að gleyma erfiðleikunum. Margir halda því fram að þessir steindrangar sem liggja frá Skarðafjallinu og í sjó fram séu fegursta náttúrusmíð á Íslandi. Það er ekki fjarri lagi. En þetta er það náttúrundur sem fæstir ná að heimsækja. Það þarf að hafa nokkuð fyrir því að komast í snertingu við steintröllin.

Veðrið á Ströndum er síbreytilegt. Stundum er svartaþoka en næsta kastið er glampandi sól. Dagana fyrir ferðina er uppi sú stóra spurning hvernig veðrið yrði. Þetta er í þriðja sinn sem Ferðafélag Íslands leggur upp í ferð um Drangaskörð. Í fyrri tvö skiptin var glampandi sól og líkurnar miklar um að við hittum á þoku. En það var öðru nær. Þegar við lentum í Drangavík var þokan að mestu horfin og sólin braust fram. Klukkan var 11. Við höfðum miðað við að það var fjara um þrjúleytið. Drangarnir biðu okkar baðaðir sólskini. Svo hófst gangan um Martröð. Í góða veðrinu var gangan létt og fólk tiplaði á fjörugrjótinu. Á fjörurnar hafði rekið lóðarbelgi, plastbrúsa og nokkuð var um skófatnað. Okkur miðaði hægt eða örugglega um fljúgandi hált fjörugrjótið.

Gengið fyrir forvaðann við Signýjargötu.
Mynd: Reynir Traustason.

Til að komast um Signýjargötuskarð þarf að fara fyrir forvaða. Ekki er hægt að ganga þar fyrir nema á fjöru eða hálfföllnu. Það bærðust áhyggjur með fararstjórunum. Var nógu mikið fallið út til að við kæmust þurrum fótum fyrir forvaðann. Við höfðum samt þann möguleika að fara um Kálfsskarð en það var ekki fyrir alla að klöngrast þá leið sem er brattari en Signýjargatan. Tímasetningin var fullkomin. Við náðum að stikla fyrir nefið og við okkur blasti Signýjargötuskarð.  Gatan upp skásker hlíðina, meinleysisleg að sjá. Hækkunin er innan við 50 metrar. Fyrr en varir er hópurinn kominn í skarðið. Himneskt útsýni er að báða vegu. Í norðri blasir Geirólfsgnúpur við. Handan hans er Reykjafjörður. Vestar má sjá Miðmundarhorn. Í fjarska má sjá Kálfatind í Hornbjargi. Að sunnaverðu sjást svo Kálfatindar við Norðurfjörð. Svo er það Reykjaneshyrnan, eitt mest myndaðasta fjall á svæðinu.

Sá grænklæddi og hundur hans

Í skarðinu rifjast upp draugasögur. Þar er að sögn á sveimi grænklæddur maður sem er ekki þessa heims. Þá hafa margir vitnað til þess að hafa séð hund á svæðinu. Sá eltir gjarnan ferðalanga sem verða hans ekki sjálfir varir. Aftur á móti hafa margir vitnað til þess að hafa séð hundinn fylgja í humátt á eftir mönnum. Ekki verður efast um tilvist hans.

Útsýnið úr Signýjargötuskarði. Kálfatindar við Norðurfjörð og Reykjaneshyrna gægist þar framundan.
Mynd: Reynir Traustason.
- Auglýsing -

Göltur er fremst á skörðunum og upp af honum er Litlitindur. Þá tekur við Signýjargötuskarð. Ofan við skarðið er tvískiptur Kálfskarðstindur en ofan hans er Kálfskarð. Kálfskarð var sjaldan farið og þá einkum á vetrum þegar svell voru í Signýjargötu. Þá tekur Stóritindur við, hann er tvískiptur. Ofan hans er Mjóaskarð. Þá er Stóraskarðstindur og Stóraskarð. Næst Skarðafjallinu er nafnlaus tindur og efst er Efstaskarð. Þessar upplýsingar eru frá Hauki Jóhannessyni, jarðfræðingi og fyrrverandi forseta Ferðafélags Íslands. Hann segir að vafalítið hafiverið nafn á efsta tindinum en þaðað líkindum glatað. Deilt er um hvort drangarnir séu fimm eða sjö. Af örnefnum þeim sem heimamenn hafa notað er ljóst að þar í sveit hafa þeir verið taldir fimm.

Inn í netmyrkrið

Hópurinn teygar í sig sólskinið og ferskt strandaloftið. Fyrr en varir er liðin klukkustund í makindum. Við kveðjum Signýjargötuskarð og höldum stað með norðanverðum dröngunum um grónar götur. Farsímarnir detta út og netmyrkrið tekur við. Við göngum framhjá Kálfsskarði. Að þessu sinni þurfum við ekki að brölta um flughált fjörugrjót nema í undantekningartilvikum. Ferðin að Dröngum gengur mun hraðar en að norðanverðu. Sólin hverfur á bak við Drangana en birtist svo í skörðunum. Í fjöruborðinu velta selir sér makindarlega og áhyggjulausir. Það er löngu liðin tíð að útrýmingarherdeild Hringormanefndar drepi þá í tilgangsleysi. Og selkjöt er ekki lengur á diski hvers manns, eins og í gamla daga.

Rassvík

Á göngunni er ekkert sem rýfur þögnina nema náttúruhljóðin og glamrið í göngustöfum ferðalanganna. Drangaskörðum sleppir og Skarðafjallið tekur við. Við þræðum göturnar og förum hratt yfir. Svo opnast Kattardalur og sólin tekur við af skugganum. Við göngum fyrir Strandvík, sem bert nafn sitt vegna þess að þar strandaði skúta á sínum tíma. Næsta vík heitir Rassvík og tengist sama strandi, en þegar skipið brotnaði í tvennt rak skutinn inn á næstu vík sem tók þar með nafn eftir afturendanum.

- Auglýsing -

Framundan er tignarlegt Bæjarfjallið sem gnæfir yfir Dröngum. Þeir sem ekki vilja fara fyrir Drangaskörð koma yfir hálsinn frá Drangavík og niður Kattardal þar sem Kattará liðast til sjávar. Við sjáum bæjarhúsin á Dröngum. Að þessu sinni liðast ekki reykur upp úr strompi gamla íbúðarhússins. Þessa ágústdaga er enginn á Dröngum nema krían og önnur dýr hinnar frjálsu náttúru. Á hlaðinu eru skurðgröfur og fjórhjól og bera framtakssemi eigendanna vitni. Drangar hafa aldrei verið í vegasambandi en innan jarðarinnar eru slóðar, allt að Meyjará. Vegurinn endar við göngubrúnna yfir Hvalá í Ófeigsfirði.

Drangar á Ströndum voru lengi vel taldar mikil kostajörð. Jörðin fór í eyði þegar hjónin Kristinn Hallur Jónsson og Anna Jakobína Guðjónsdóttir, tóku sig upp árið 1966 og fluttu búslóð, fólk og fénað að Melum í Trékyllisvík og seinna að Seljanesi við norðanverðan Ingólfsfjörð. Allar götur síðan hefur æðarvarp verið nytjað. Afkomendur Kristins og Önnu Jakobínu koma á hverju vori og nýta dúninn er frábær í sængur og hlífðarfatnað. Æðarvarpið er vaktað á vorin og fram á sumar. Helsti óvinurinn er refurinn og svö örninn. Í sumar gerði örn usla í æðarvarpi á svæðinu. Yfir 200 hreiður voru yfirgefin vegna illfyglisins og tjónið nær til næstu ára.

Slóðir Eiríks rauða

Drangar eru landnámsjörð. Þar nam Þorvaldur Ásvaldsson land. Hann kom frá Noregi. Deilt er um það hvort Eiríkur rauði, sonur hans, hafi fæðst á Dröngum eða í Noregi og komið með útlægum föður sínum frá Noregi. Alla vega átti Eiríkur heima á Dröngum þar til hann flutti í Dalasýslu með fjölskyldu sína. Þaðan hraktist hann ásamt fjölskyldu sinni og hélt eftir krókaleiðum til Suður-Grænlands, árið 985, ásamt Þjóðhildi, konu sinni, og syninum Leif heppna sem sagður er hafa fundið Ameríku. Við erum sem sagt á Dröngum þar sem rætur Leifs heppna er að finna.

Ofviðrið heyr á Dröngum

Það er seiðmögnuð tilfinning að vera á þessum sagnaslóðum þar sem sagan er við hvert fótmál. Drangamenn hafa byggt upp þjónustu við göngufólk. Þar er tjaldsvæði og salerni. Einnig er hægt að fara þar í sturtu. Þetta er ekki gert í hagnaðarskyni, heldur til þess að fólk sé ekki að gera þarfir sínar um víðan völl, að sögn Elíasar Kristinssonar, sem stundar strandveiðar frá sínum gömlu heimaslóðum.

Ofan við bæinn eru flughamrar Bæjarfells. Ljóð Jóns Helgasonar, Áfangar, kemur upp í hugann.

Hljóðabunga við Hrollaugsborg
herðir á stríðum söngum,
meðan sinn ólma organleik
ofviðrið heyr á Dröngum.

Skotbyrgið þar sem menn sátu fyrir ref á árum áður.
Mynd: Reynir Traustason

Þar sem við erum í sól og blíðu, fjarri ofviðri, er erfitt að átta sig á því hvernig hörð vetrarveðrin geysa á þessu svæði. Eftir góðan nætursvefn vöknum við í svartaþoku en blíðu veðri. Það hefur lítið upp á sig að fara upp í hálendið eins og stefnt var að. Við höfðum ætlað að skoða fjallavötnin og ganga á Nónfell. Þess í stað var ákveðið að ganga norður með ströndinni að Meyjará. Við skoðum varðskúr þar sem setið var fyrir tófu. Þá göngum vuð framhjá svæði þar sem unnið var járn í jörðu. Elías á Dröngum hafði sýnt okkur gryfjurnar í síðustu ferð. Við göngum undir Hæstamúla, meðfram Vatnshöfðavatni. Hinum megin við Meyjardal er Meyjarmúli., Enginn kann skýringu á öllum þessum örnefnum sem kennd eru við meyjar.

Háskinn við Meyjará

Leiðin liggur fyrir Fauskavík og komum svo að Meyjará sem liðast sakleysisleg til sjávar. Það er rifjuð upp sagan frá því Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og hópur hans lenti í lífsháska fyrir nokkrum árum. Hópurinn var að koma gangandi úr Reykjafirði í slagviðri. Ferðin var trússuð en vandinn vart sá að tjöld og búnaður hópsins var sunnan við Meyjará. Þegar kom að ánni var hún orðin að beljandi fljóti. Fólk var orðið kalt og hrakið og ljóst að einhverjir voru í lífshættu. Þá varð úr að Steingrímur og Ragnar bróðir hans náðu að brjótast yfir vatnsfallið og ganga að Dröngum, um 4 kílómetra leið. Það varð þeim til happs að Sólveig Kristinsdóttir og Þórir Þórðarson læknir voru á staðnum og náðu að hringja með gervihnattasíma eftir hjálp. Fólkinu var bjargað á elleftur stundu og þeim komið í hlýtt hús á Dröngum þar sem hlúð var að þeim.

Drápsklifjar

Þjóðleið yfir í Ísafjarðardjúp liggur um Meyjardal og fyrir sporð Drangajökuls. Þarna fóru lestir af hestum með sannkallað drápsklyfjar af rekaviði sem Djúpmenn notuðu til að byggja hús. Dæmi eru um að hestur með fullum klyfjum beri beinin í jöklinum. Rekaviðurinn var sannkölluð búbót fyrir Strandamenn og auðlind sem stöðugt endurnýjaði sig. Í dag er hann fæstum til gagns, enda mun ódýrara að kaupa byggingarefni af Húsasmiðjunni, Bauhaus eða Bykó.

Náttúrulaugin við Dranga.
Mynd: Reynir Traustason.

Þegar göngudeginum lýkur er haldið í náttúrulaug í grenndinni. Hægt er að velja um manngerða laug sem tekur 8 manns eða náttúrulaug þar sem tveir komast með sæmilegu móti. Eftir erfiðan göngudag er frábært að sitja í lauginni, góna til himins, og láta líða úr sér þreytuna.

Síðdegis kemur bátur Strandferða að Dröngum og sækir hópinn. Við siglum sem leið liggur, meðfram Drangaskörðum, sömu leið og við gengum áður. Þegar báturinn  skríður út fyrir Gölt heyrist bjölluhljómur um allan bát. Símarnir detta inn, einn af öðrum. Nærandi netmyrkrið er að baki og argaþras nútímamannsins tekur við.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -