2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Okkar brýnasta verkefni

Skoðun

Eftir / Sigurð Inga Jóhannsson

Brýnasta verkefni stjórnmálanna næstu mánuði og ár er að koma húsnæðismarkaði í það form að ungu fólki verði auðveldara að kaupa eigið heimili og að húsnæðiskostnaður almennings lækki. Í því fælust mestu kjarabætur fyrir Íslendinga við þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu í dag. Það er hins vegar ekki einfalt mál og líta verður til margra þátta í því sambandi.

Fyrir síðustu kosningar lögðum við í Framsókn mikla áherslu á það sem við kölluðum svissnesku leiðina og byggði að hluta á þeirri góðu reynslu sem við höfum haft af því að nýta séreignarsparnað til að greiða niður húsnæðislán og einnig á þeirri reynslu Svisslendinga sem heimila fólki að nýta lífeyrisgreiðslur til kaupa á fyrstu íbúð. Þetta er í takti við þá áherslu Framsóknar í gegnum tíðina að aðstoða fólk við að eignast eigið húsnæði. Að þessari leið er unnið á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Af hverju eigið húsnæði? Það hefur sýnt sig að Íslendingar vilja eignast eigið húsnæði frekar en að vera á leigumarkaði. Nýleg könnun Íbúðalánasjóðs sýnir að 92% þeirra sem eru á leigumarkaði vilja ekki vera þar. Margt kemur til sögunnar og er ein ástæðan eflaust að leigumarkaður á Íslandi er mjög frumstæður þegar miðað er við lönd eins og Danmörku og Þýskaland.

AUGLÝSING


Svissneska leiðin sem áður var minnst á getur ekki staðið ein og sér heldur verður fleira að koma til svo við náum böndum á húsnæðiskostnað: Auka verður framboð ódýrra lóða og við verðum að byggja meira. Við erum enn að fást við afleiðingar hrunsins þegar kemur að byggingu íbúðarhúsnæðis. Við höfum spýtt verulega í lófana en við erum of lengi að ná upp þeim krafti sem við þurfum í byggingu húsnæðis. Ungt fólk vill flytja að heiman frá foreldrum sínum og í eigið húsnæði og ég hugsa að flestir foreldrar yrðu því fegnir að þurfa ekki að læsa svefnherbergisdyrunum.

Svigrúmið til að byggja ódýrar íbúðir er þó takmarkað meðan lóðaverð og alls kyns gjöld tengd húsbyggingum eru í hæstu hæðum í höfuðborginni. Borgin á vissulega heiður skilinn fyrir fjölda félagslegra íbúða en í stefnu borgarinnar síðustu ár er allt kapp lagt á rándýra þéttingu byggðar þar sem lóðaverð er í hæstu hæðum og svigrúm einstaklinga til að byggja sjálfir er ekkert. Borgaryfirvöld hafa því að einhverju leyti vísað millistéttinni á dyr.

Að mínu mati þurfum við að skoða alvarlega áhrif Airbnb á húsnæðismarkaðinn en talið er að meira en 1.500 íbúðir og herbergi séu til leigu allan ársins hring. Stór hluti af skráningum á Airbnb eru í Reykjavík og þá sérstaklega miðsvæðis. Skoða ætti að auka kvaðir á þá sem leigja út til ferðamanna og hækka sektir svo þær væru sambærilegar því sem þekkist til dæmis í Barcelona en þar eru þeir sem eru uppvísir að skammtímaleigu til ferðamanna í gegnum Airbnb án tilskilinna leyfa sektaðir um ríflega sex milljónir króna. Það myndi muna verulega um ef stór hluti þeirra íbúða sem eru til skammtímaútleigu til ferðamanna myndu losna og lækka þrýstinginn á húsnæðismarkaðinn.

Við værum að bregðast ef við skoðuðum ekki alla möguleika til að auðvelda fólki að koma sér þaki yfir höfuðið.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni