2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ósýnileg í samfélaginu

Leiðari Stóra umskurðarmálið hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum enda um fátt eins mikið rætt undanfarnar vikur síðan lagt var fram á Alþingi frumvarp sem snýst m.a. um að banna óþarfa aðgerðir á kynfærum barna. Ólík sjónarmið hafa togast á í málinu, sérstaklega í umræðunni um hvort banna eigi umskurð drengja. Trúarleiðtogar segja það aðför að trúfrelsi á meðan meðbyr virðist vera með slíku banni, innan sem utan þings. Á samfélagsmiðlum hafa margir sagst stoltir yfir að búa í samfélagi sem fordæmir slík voðaverk og sumir gengið svo langt að kalla þetta framandi og villimannslega siði.

Í ljósi þessa skyndilega og mikla áhuga þjóðarinnar á málinu og að því er virðist almennu afstöðu gegn ótímabærum aðgerðum á kynfærum barna þá hefði maður nú haldið að landsmenn tækju sig til og mótmæltu í leiðinni aðgerðum sem eru framkvæmdar hérlendis á kynfærum annars hóps barna; intersex barna, þ.e. barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Aðgerða sem miða að því að laga kyneinkenni slíkra barna að samfélagslegum viðmiðum „um dæmigert útlit og form“ (gamla góða norminu) og geta ekki bara verið sársaukafullar, skaðlegar og óafturkræfar heldur leitt til langvarandi heilsubrests eins og fram hefur komið oftar en einu sinni í viðtölum við intersex fólk á Íslandi.

En nei, fáir hafa tjáð sig um það ógeðfellda mál og á nýlegri málstofu um málefni intersex fólks sem öllum þingmönnum var boðið á létu aðeins einn þingmaður af sextíu þremur og einn varaþingmaður sjá sig.

„Maður getur því eiginlega ekki annað en hrist hausinn og spurt sig hvernig megi vera að sami hópur fólks og „öskrar sig hásan“ á samfélagsmiðlum þegar minnst á er umskurð drengja, þegi að mestu þunnu hljóði þegar aðgerðir á þessum börnum ber á góma.“

Maður getur því eiginlega ekki annað en hrist hausinn og spurt sig hvernig megi vera að sami hópur fólks og „öskrar sig hásan“ á samfélagsmiðlum þegar minnst á er umskurð drengja, þegi að mestu þunnu hljóði þegar aðgerðir á þessum börnum ber á góma. Getur kannski verið að innst inni sé þessi hópur og jafnvel meginþorri þjóðar hlynntur slíkum aðgerðum en kjósi að hafa ekki hátt um það? Það yrði ekki í fyrsta sinn sem lögð er blessun yfir tilraunir til að betrumbæta fólk svo það falli betur að hinu samfélagslega viðurkennda normi. Við þekkjum nú slík dæmi úr mannkynssögunni og fæst falleg. Eða getur verið að sama fólki finnist kannski erfiðara að hrópa mannréttindabrot þegar það þarf að horfast í augu við þá óþægilegu staðreynd að það er sjálft hluti af þjóðfélaginu sem fremur þau og því ekki hægt að skella skuldinni á litla samfélagshópa með „villimannslega“ siði.

AUGLÝSING


Og hvað með blessuð stjórnvöld? Af hverju aðhafast þau ekkert þegar fyrir liggur að skurðaðgerðir á kynfærum intersex barna og önnur inngrip í líkamsstarfsemi þeirra geta haft fyrrgreindar afleiðingar. Hvers vegna sýna ekki fleiri þingmenn málinu áhuga en raun ber vitni? Ber að skilja það sem svo að bróðurparti þings finnist brýnna að tryggja réttindi sumra barna á Íslandi en annarra? Er það vikilega niðurstaðan?

Það er hægt að velta þessu furðulega aðgerðaleysi fyrir sér án þess að verða kannski nokkru nær um ástæðuna, bláköld staðreyndin er hins vegar sú að á Íslandi nýtur instersex fólk engra lagalegra réttinda. Það er ekki minnst á það í lögum. Það er ekki einu sinni til löggjöf um málefni þess þótt almenn umræða um brot á mannréttindum intersex fólks sé nú búin að standa yfir í ein fjögur ár. Þrátt fyrir að fyrrverandi ráðherrar hafi gefið fögur fyrirheit um að bæta stöðu þess og sömuleiðis flestir stjórnmálaflokkar í aðdraganda síðustu tveggja alþingiskosninga. Þar á meðal ríkisstjórnarflokkarnir þrír.

Þetta er því ekki bara sorglegt mál heldur til háborinnar skammar. Svartur blettur á samvisku yfirvalda sem með sama sinnuleysi og sofandahætti verður sífelllt erfiðara að má burt.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni