• Orðrómur

Paradísin Reykjarfjörður: Þar sem krían stundar snertilendingu

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Reykjarfjörður nyrðri á Ströndum kúrir undir Drangajökli og er sannkölluð paradís. Þarna voru forðum stórbýli og nóg að bíta og brenna. Mikið undirlendi skýrir góða afkomu í þá daga sem þjóðin lifði á sauðfé og fiskveiðum. Byggðin er fyrir löngu komin í eyði að vetrarlagi. En á sumrin lifnar allt við. Þá koma afkomendur Reykjarfjarðarbænda til að hlúa að eigum sínum og njóta þess að dvelja á stað sem á fáa sína líka í náttúrufegurð.

Þarna er líka þessi fína útisundlaug sem yljað hefur mörgum þreyttum ferðalanginum. Það er upplifun að vera í lauginni á sumarkvöldi. Krían deilir þessum lúxus með manninum. Algengt er að kría með síli í goggi komi fljúgandi niður að vatnsfletinum og dýfi sílinu eldsnöggt í laugina með snertilendingu og hækki síðan flugið að nýju. Óljóst er með tilgang kríunnar með þessu athæfi en kannski er þetta spurning um að borða upphitað. Laugin og klefarnir eru einstaklega snyrtileg og öllu vel viðhaldið.

Á Geirhólma.

Reykjarfjörður er nokkurn veginn miðsvæðis á milli Hornbjargsvita og Norðurfjarðar sem eru endapunktar á vinsælli gönguleið. Ferðafélag Íslands rekur gistþjónustu á báðum þeim stöðum. Leiðin er allt að 100 kílómetra löng og gott fyrir göngumenn að skipta henni í tvo megináfanga og stoppa í Reykjarfirði til að hlaða batteríin og ná andanum. Þar er hægt að fá gistingu og eiga stund milli stríða.

Gönguleiðirnar sunnan úr Norðurfirði liggja um undurfagrar slóðir. Leiðin liggur um Ingólfsfjörð, yfir Brekkur, og í Ófeigsfjörð. Þar býr Pétur Guðmundsson að sumri til í húsi sem hann byggði úr rekaviði. Pétur er manna fróðastur um svæðisið og þá ekki síst sögu Fjalla-Eyvindar og Höllu sem dvöldu víða á þessu svæði, sem stundum var kallað norðan við hníf og gaffal. Í Ófeigsfirði þarf að fara yfir Húsá sem er létt að vaða. En svo má aka þá leið ef mönnum sýnist. Frá Húsá að Hvalá eru rúmur fjórir kílómetrar á vegi sem getur verið skaðlegur litlum og kviðsíðum bílum. Við Hvalá endar vegurinn. Göngubrú er yfir það fallega vatnsfall. Svo liggur leiðin með sjónum um Eyvindarfjörð. Þar er Eyvindarjarðará með göngubrú. Þegar komið er út með Eyvindarfirði er gengið út Engjanes og með Engjahlíð. Á vegi göngumannsins verður Gathamar sem nauðsynlegt er að máta sig við. Svo opnast Drangavík sem sumir fullyrða að við góðar veðuraðstæður sé einn fegursti staður á jarðríki. Gönguleiðin liggur um hlaðið á gamla Drangavíkurbænum sem nú er hruninn. Tófa skýst fyrir fætur göngumannsins. Gamli mannabústaðurinn er orðinn að greni. Þar sem áður var grátur og hlátur er nú aðeins gagg í tófu. Fyrir botni Drangavíkur er tilvalið að tjalda og taka ákvörðun um það hvort gengið verður fyrir Drangaskörð eða yfir Drangaháls og um Kattadal, áleiðis að Dröngum.

Séð af Fossadalsheiði og yfir Reykjarfjörð.

Leiðin frá Dröngum liggur yfir Meyjará sem rennur ljúflega til sjávar en getur í rigningartíð breyst í skaðræðisfljót. Það fékk gönguhópur að reyna fyrir örfáum árum þegar hann kom gangandi úr Reykjarfirði og átti trúss sunnan við Meyjará. Þar var harðfylgi bræðra sem réði því að ekki fór illa og það tókst að bjarga fólkinu sem var orðið kalt og hrakið. Næsta vað er fyrir botni Bjarnarfjarðar þar sem komast þarf yfir Bjarnarfjarðará. Best er að fara yfir ósinn á fjöru en áin er venjulega væð við góðar ástæður. Stysta leið úr Bjarnarfirði er að fara um Fossadalsheiði, sem er að vísu löng og tilbreytingarlítil.  Í björtu má sjá Miðmundarhorn og enn norðar sjálf Hrolleifsborg, sem rís upp úr Drangajökli. Eftir að heiðinni sleppir opnast Reykjarförður í allri sinni dýrð. Sundlaugin bíður göngumannsins en fyrst þarf að vaða Reykjarfjarðará sem líkt og systur hennar getur á skömmum tíma orðið beinlínis háskaleg. Þá er gott að vera glöggur á vað.

Systkinin Erla Jóhannesdóttir og Þröstur Jóhannesson í Reykjarfirði.
Mynd Reynir Traustason

Sumarfólkið í Reykjarfirði selur gistingu í gamla bænum. Systkinin Erla Jóhannesdóttir og Þröstur Jóhannesson eru hafsjór af fróðleik um liðna tíma. Þau telja ekki eftir sér að fræða göngufólkið. Í firðinum er ekkert netsamband og farsímar ná ekki merki. Þá er maður manns gaman. En svo er krían þarna í miklum ham, þúsundum saman. Það getur verið sárt að fá flugbeittan gogg í hvirfilinn. Því eru flestir með prik og höfuðfat í slysavarnaskyni.

- Auglýsing -

Þar sem fólk lætur sig fljóta í lauginni í Reykjarvirði blasir ægifögur Hrolleifsborg við. Sunnan við fjarðarmynnið er svo Geirólfsgnúpur útnesið fagra. Að norðanverðu er Þarálátursnes. Það er lágt og léttgengt. Í Þaralátursfirði norðanverðum er náttúruundrið Kanna, klettadrangur í fjöruborði, sem svo sannarlega gleður augað. Hún sést vel frá Þaralátursnesi en það er nokkurra klukkustunda verkefni að komast að henni landleiðina og þarf að sæta sjávarföllum.

Reykjarfjörður.
Mynd: Guðrún Gunnsteinsdóttir

Önnur skemmtileg gönguleið frá Reykjarfirði er að fara á Geirhólma. Þá liggur leiðin yfir Reykjafjarðará og að vanda þarf að huga vel að vaði. Ef hópar eru að ganga þá er ákveðið öryggi í því að það gangi þrír saman í einu yfir ánna og læsi saman örmum. Þegar áin hefur verið þveruð liggur leiðin um fjöru fyrir Sigluvíkurnúp og þaðan inn Sigluvíkurdal eftir gömlum slóða. Uppi á hálsinum er þverbeygt til austurs og gengið á Geirhólma. Útsýnið þaðan er frábært þegar heiðskýrt er. Kálfatindur á Hornbjargi blasir við í norðri rétt eins og Kálfatindar í Norðurfirði. Sannkölluð veisla fyrir auga og heila. Á bakaleiðinni er ekki úr vegi að skjótast niður í Skjaldabjarnarvík og kíkja á leiði Hallavarðs Hallsonar sem er vel hirt. Hallvarður var sagður einrænn og forn í skapi. Algengt er að fólk heiti á Hallvarð. Gangan af hálsinum og að leiði hans er að vísu rúmlega 4 kílómetra krókur en vel þess virði ef aðstæður eru góðar.

- Auglýsing -

Á heimleiðinni liggur leiðin aftur yfir ánna. Sundlaugin bíður göngumóðra með öllum sínum yl. Krían sveimar yfir og stöku fugl, með síli í göggi, steypir sér niður að vatninu, snertilendir og tekur flugið aftur upp í himinblámann. Í fjarskanum stendur Hrolleifsborg vörð um gesti og gangandi. Reykjarfjörður skartar sínu fegursta og himnesk ró rammar inn tilveruna.

 

 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -