2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sjálfbær lífsstíll

Stöðugar fréttir af loftslagsbreytingum og öðrum skaðlegum umhverfisáhrif af okkar völdum á jörðina hafa leitt til þess að margir velta fyrir sér lífsstílnum. Og að breyta honum. Margir eru að stíga skerf í áttina að sjálfbærari lífsstíl.

Að velja sjálfbærari lífsstíl þýðir að það þarf að breyta lifnaðarháttum. T.d. að draga úr þörfinni fyrir notkun náttúruauðlinda, velja að kaupa ekki vörur sem framleiddar eru með ósjálfbærum hætti eða breyta umgengni í okkar daglega lífi t.d. að flokka rusl, sóa ekki mat og svo framvegis.

Það er í sjálfu sér ekki langt síðan ég fór að huga að þessu í mínu eigin lífi. Skoða neyslumynstur, matinn, ferðamáta og svo framvegis. Persónulega hefur mér reynst best að fara hægt í sakirnar og setja eigin reglur. Breytingar hafa mjakast áfram samfara aukinni meðvitund í mínu lífi, sum skref stór eins og að losa mig við um 70% af fötum og öðrum eigum – hafandi verið efnisleg með afbrigðum – einkum þegar kom að ýmiss konar neyslu, svo sem fatainnkaupum og bílanotkun.

Smátt og smátt hef ég breytt um kúrs í átt að meðvitaðra lífi. Ég er líklega rétt að hefja ferðina enda er ég enn með sjampó í plastbrúsa, á leðurjakka og er ekki farin að setja ruslið á safnhaug né minn eigin úrgang eins og sumir lengra komnir gera.

AUGLÝSING


Í nútímasamfélagi erum við nokkuð aftengd uppruna okkar og náttúru. Til dæmis kjúklingurinn sem við borðum kemur á frauðbakka beint úr verslun, pakkaður í plast. Við sjáum ekki að kjúklingar eru framleiddir í verksmiðju eins og hver annar hlutur. Þeir eru hins vegar lifandi dýr. Við vitum þetta flest, en kjósum að líta fram hjá því. Að sama skapi sjáum við aldrei allt magnið af rusli sem heimilið losar t.d. á ári á einum stað. Það væri eflaust ágætis raunveruleikatenging á hrúga því öllu á einn stað. Því allt sem við kaupum endar einhvers staðar, hvort sem því er fargað eður ei.

Þegar maður fer draga aðeins frá gardínunum og kíkja inn í þessi hólf og langar til að gera betur er eðlilegt að hugsa: hvar og hvernig byrja ég að taka skerf að sjálfbærari lífsstíl? Það er auðvelt að finnast þetta yfirþyrmandi verkefni og láta hendur fallast en sjálfbærari lífstíll þýðir ekki að hætta lifa við lúxus hvers konar. Svo þarf að skila réttlætingu og afsökunum um tímaleysi, taka ákvörðun um að lifa með umhverfisvænni hætti og taka meðvitaðar ákvarðanir.

Það er mikilvægast að hafa gaman af þessari áskorun t.d. er hægt að koma sér upp stjörnukerfi – eins og á leikskólanum. T.d. er hægt að fá stjörnu fyrir kjötlausan dag, bíllausan dag, rusllausan dag og svo framvegis. Listinn er í raun endalaus og persónubundið hvað tekur á og hvað ekki, en að prófa sig áfram er spennandi áskorun.

Hér eru nokkur atriði sem má vinna með og ég hef prófað:

  1. Minnka bílnotkun, draga úr skutli og nýta ferðirnar betur – hér eru ótal valmöguleikar, t.d. að sleppa bílnum stundum, eiga bara einn bíl á fjölskyldu, nýta ferðirnar betur í búðina, nota almenningssamgöngur og hjólið, taka strætó með börnum sínum og kenna þeim að nota hann sem og ferðast með öðru fólki til vinnu eða í skólann.
  2. Draga úr óþarfa neyslu – að taka upp mínimalisma í hugsun og framkvæmd. Spyrja sig hvort maður þurfi það sem maður eru að kaupa, hvort að þessi gjöf sé skynsamleg kaup, draga úr óþarfa eyðslu, kaupa notuð húsgögn á bland eða fara í góða hirðinn og svo framvegis.
  3. Færri flugferðir.
  4. Nota sjálfbær hreinsiefni á heimilið.
  5. Minnka kjötát – t.d. má sleppa því suma daga og sleppa því að kaupa verksmiðjuframleitt kjöt.
  6. Rækta eigin mat t.d. að vera með garð, kryddjurtir eða salat. Nú má rækta mjög margt á svölunum.
  7. Sleppa matarsóun með að vera meðvituð í matarinnkaupum, elda það sem er til og skipuleggja innkaup með hliðsjón af því hvað er til.
  8. Muna eftir fjölnotapokunum í matvöruverslunum, ekki taka plastpoka fyrir grænmeti og forðast vörur pakkaðar í plast. Í mótmælaskyni má t.d. taka vörur úr óþarfa plastumbúðum og skilja þær eftir sem og mæta með eigin ílát.

Að nálgast þetta verkefni út frá ást, að elska og bera meiri virðingu fyrir jörðinni hefur reynst mér betur en að taka þetta út frá skömm. Þetta er ekkert endilega auðvelt enda staðalhegðun að vera sofandi neytandi í vestrænum samfélögum og mjög „upptekinn“.

Margir eru hins vegar að vakna og það er líka auðvelt að snúa af kúrs, reyna að kaupa sjálfbært og leggja sig fram við að sóa minna. Fyrir mér kom sá tímapunktur að mér fannst það ákveðið siðleysi gagnvart umhverfinu, í ljósi þeirra rannsókna sem liggja fyrir, að setja ekki ásetning í að reyna í það minnsta að gera betur. Við höfum jú valkost. Að sama skapi mæti samfélagið og hið opinbera styðja betur við samfélagið að verða alhliða sjálfbærri, leiðbeina og og ýta undir. Ég fagnaði því mjög þegar ég sá að Matís var að beina fólki í þá átt að mæta með eigin plastílát í búðir.

Hið opinbera hefur ótal valkosti tí að beina okkur yfir í sjálfbæran lífsstíl, það má gera með ívilnunum hvers konar fyrir lífræna og sjálfbæra fæðu, fyrir samgöngumála, það má gera með reglusetningu á sviði viðskipta og markaða og svo má lengi telja.

Að endingu – mér finnst sjúklega töff orðið að vera umhverfisvæn týpa, sem kýs að vera á hjóli og nota almenningssamgöngur þegar ég get, vel að borða ekki kjöt, vel að nota bíl minna, vel að kaupa minna dót. Ég er stolt af því að minnka vistspor mitt og á sama tíma gera betur við budduna og heilsuna mína. Og þó að leddaranum verði ekki skilað strax – mun ég halda áfram að taka skref í áttina að meðvitaðra, sjálfbærara lífi.

Lestu meira

Annað áhugavert efni