2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skilnaður við íslensku krónuna

Engum dylst að íslenska krónan er óstöðugur gjaldmiðill. Engum sem hefur fylgst náið með íslensku efnahagslífi eða verið þátttakandi í því um nokkurt skeið. Þessi vetur hefur verið enn einn vitnisburðurinn um það. Krónan unnir sér best í höftum virðist vera. Þar á hún sín blómaskeið.

Eitt af stærstu verkefnum stjórnmálamanna á Íslandi, væru þeir að falast eftir stöðugleika og vinna í þágu almannahagsmuna, væri að koma gjaldmiðlamálum þjóðarinnar í betra horf. Það virðast flestir vita orðið að krónan virkar ekki, en við höngum í þessu sambandi. Fáir virðist ætla að gera neitt í því – fáir vilja leggja sig fram við að minnsta kosti reyna, allra síst ríkisstjórnin.

Þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið stóðu sem hæðst var ljóst að einna mestur ávinningur fyrir íslenskt samfélag væri að komast í annað gjaldmiðlaumhverfi, sem einkenndist ekki af kollsteypum og óstöðugleika. Hvort gjaldmiðilinn hefði nafnið evra eða íslensk króna er í rauninni aukaatriði. En við hefðum mögulega fengið að halda í nafnið og seðilinn áfram heitið íslenska krónan, hefðum við haft tök á því að komast inn í ERM II – einskonar fordyr evrunnar – að uppfylltum ákveðnum efnahagslegum skilyrðum Maastricht sem hefðu að öllum líkindum náðst fram nokkrum misserum seinna.

Danir eru með danska krónu en eru bundir við evruna, svo dæmi sé tekið. Danir eru því de facto með evru. Á þessum tíma gaf Seðlabanki Íslands út langa skýrslu um valkosti í gjaldmiðlamálum. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að tveir valkostir væru raunhæfir og framkvæmanlegir: króna eða upptaka evru með inngöngu í Evrópusambandið. Margs konar fróðleik er að finna um gjaldmiðilinn í þessari skýrslu t.d. að íslenska krónan er örmynt og engar smáþjóðir eru með sína eigin mynt á floti. Þegar þessi skýrsla var skrifuð var Ísland enn í aðildarviðræðum.

Spurning er hvort að það hafi skapast skilyrði til að skoða aðrar lausnir í dag. Ég er þess fullviss að einskiptiskostnaðurinn við skiptin er minni en að hanga í handónýtu gjaldmiðlaumhverfi. Þá er ekkert að því að fá fleiri álit en eitt á gjaldmiðlamálum, svokallað „second opinion“ . T.d. frá óháðum erlendum sérfræðingum í samstarfi við íslenska gæti verið ein lausn, þeir fengju heimild til að vera skapandi og hugsa út fyrir kassann.

AUGLÝSING


Hingað til hafa aðeins tveir flokkar sett þetta mál á oddinn, Samfylkingin hefur talað fyrir nýjum gjaldmiðil með inngöngu í Evrópusambandið. Þá var sérstakur stjórnmálaflokkur, Viðreisn, stofnaður til að styðja við inngöngu Evrópusambandið meðal annars vegna stöðu gjaldmiðilsins. Sú áhersla breytist svo í myntráð síðar. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn hefur í landsfundarsamþykkt talið að huga þurfi að gjaldmiðlamálum. Mótrök gegn nýrri mynt hafa iðulega verið að við þurfum „ábyrga“ efnahagsstjórn, en ýmislegt bendir til þess að það skipti ekki eins miklu máli enda hefur hún verið talsvert ábyrg frá hruni. Þá er það rétt að í litlu hagkerfi er eðlilegt að það sé einhver óstöðugleiki, en krónan gerir það allt verra.

Þessi umræða verður hins vegar seint leidd af fólki sem á talsvert fjármagn, það getur jafnvel haft hag á því að hafa ástandið svona. Þessa umræðu þarf að leiða af almenningi. Þeir sem hafa mestan hag af því að koma gjaldmiðamálum þjóðarinnar í betra horf erum við, almennt launafólk. Við þurfum því að leiða þá umræðu og þá liggur verkalýðshreyfingin beinast við. Þetta benti forstjóri Marel á um daginn. Ég sakna þess mikið að þetta sé ekki á dagskrá kjaraviðræðna núna.

Ýmis fyrirtæki hér á landi líða fyrir þessa óstöðugu mynt, enda starfskilyrði agaleg fyrir innflutningsfyrirtæki eða þau sem eiga í talsverðum gjaldeyrisviðskiptum upp á óvissuþáttinn, nema mögulega fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, sem selja vöru í erlendri mynt en borga laun í krónu. Fyrir sjávarútveg kann að vera fínt að hafa krónuna veika, sem er ekki í hag almennings. Í þessu umhverfi er líka möguleiki að græða á gjaldeyrismörkuðum ef maður á fjármuni til að spila með og ætlar að nota innan íslensk hagkerfis. Maður kaupir krónu þegar hún er veik og getur fengið hluti á t.d. 20% afslætti vegna gjaldeyrisflökts. Umræðan um þetta á heima í kjarasamningsviðræðum enda deginum ljósara að allt sem er innflutt á Íslandi t.d. mikið af matvöru hækkar þegar krónan veikist.

Hún á heima þar vegna þess að þetta hefur áhrif á vextina á húsnæðislánunum okkar og afborganir – almennt stærsti kostnaður heimila. Við borgum meira fyrir húsnæði en flestir í Evrópu, jafnvel allt að þrisvar sinnum meira. Krónan mengar allt kerfið og veldur ójafnvægi. Hún hefur t.d. haft neikvæð áhrif á áhuga erlendra fjárfesta á að kaupa íslenska banka, eins og kom fram í máli  Ásgeirs Jónssonar í desember. Ísland er núna tiltölulega lítið og óstöðugt hagkerfi með gjaldmiðli sem sætir miklum pólitískum inngripum. Reglulega er gengisfall sem leiðir til verðbólguöldu. Á þessu tapar enginn meira en venjulegt launafólk á Íslandi. Við þurfum að skilja við íslensku krónuna – og róa í átt að betra umhverfi í þágu almannahagsmuna.

Lestu meira

Annað áhugavert efni