2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skipulagt í þaula

Ég elska brúðkaup og hef blessunarlega verið viðstödd mörg í gegnum tíðina. Þau hafa verið jafnólík og þau voru mörg; ásatrúarbrúðkaup á Þingvöllum, innilegt brúðkaup á frönsku sveitasetri, skoskt brúðkaup með tölvuleikjaívafi, að ógleymdu fjölmenningarlega brúðkaupinu í London þar sem afródansveit var meðal skemmtiatriða, bara svo eitthvað sé nefnt. Öll áttu þau þó það sameiginlegt að vera algjörlega ógleymanleg á sinn hátt.

Ég bý svo vel að eiga góða vini víða um heim og er þar af leiðandi boðið í brúðkaup út um allar trissur. Ýmsir í kringum mig hafa verið hissa á öllum brúðkaupstengdu ferðalögunum mínum. Ég lít einfaldlega svo á þegar manni er boðið í brúðkaup beri manni skylda að reyna að mæta. Brúðhjón bjóða almennt ekki fólki sem þeim er sama um eða vilja ekki að mæti, þau reyna yfirleitt frekar að takmarka gestalistann eftir bestu getu. Það er því ákveðinn heiður fólginn í því að vera boðið og hann beri að virða.

Ég hef einnig verið þess heiðurs aðnjótandi að vera virkur þátttakandi í brúðkaupum vina minna, yfirleitt sem förðunarfræðingur en einnig sem brúðarmeyja og veislustjóri. Mér hefur þótt það mjög skemmtilegt og gott að geta létt örlítið undir með brúðhjónunum. Ég hvet því öll tilvonandi brúðhjón til þess að vera óhrædd að biðja sína nánustu um að fara með eitthvað hlutverk, þau munu bara taka því fagnandi.

Undanfarnar vikur hef ég staðið í ströngu við skipulagningu þessa brúðarblaðs sem er jafnframt mitt síðasta tölublað Vikunnar að sinni.

AUGLÝSING


Þrátt fyrir að það hafi oft verið frekar stressandi þá veit ég að það jafnast ekkert á við það að skipuleggja brúðkaup. Ég hef samt reynt að tileinka mér þá góðu reglu að skipuleggja allt eftir bestu getu en vita það að þetta mun aldrei verða fullkomið – mestu skiptir að njóta augnabliksins.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni