2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skólarapp

Ég er búinn að vera með lagið Skólarapp á heilanum í 25 ár. Ekki alla daga, auðvitað, stundum hverfur það í nokkrar vikur, en alltaf snýr lagið aftur eins og gamall vinur.

Nýlega var ég að syngja það fyrir son minn þegar ítölsk vinkona mín sem var í heimsókn spurði hvers vegna ég væri að syngja ítalskt lag frá tíunda áratugnum. Ég benti henni kurteislega á að þetta væri íslenski hittarinn Skólarapp með Þorvaldi Davíð og Söru Dís. Þegar hún sýndi mér þá ítalska lagið á YouTube, augljóslega eldra, hrundi heimsmynd mín.

Hrundi hún í annað sinn, réttara sagt, því hún hrundi auðvitað fyrst, eins og hjá svo mörgum öðrum, þegar ég komst að því að íslensk jólalög frá níunda áratugnum væru í raun gamlir ítalskir poppslagarar með íslenskum jólatexta. Ítalska vinkona mín er enn þá að hlæja að þessu.

En að komast að því að Skólarapp væri líka stolið frá Ítölum var stór biti að kyngja. Það er auðvitað hægt að lesa djúpt í þetta ef maður vill, barnæska mín var byggð á lygi, kokteilsósan á Jarlinum var ekki íslensk uppgötvun og besta jólalag allra tíma – Ég hlakka svo til – er í raun hið ítalska Dopo la tempesta.

AUGLÝSING


Á meðan ég hlustaði á þessi lög æsku minnar með tárin í augunum, Skólarapp (Scuola Rap), Ef ég nenni (Cosi Celeste), Svona eru jólin (Quanto ti amo), Þú komst með jólin til mín (Chi voglio sei tu), rann hins vegar svolítið upp fyrir mér. Ég sá ljósið. Kokteilsósa er alveg jafngóð þótt hún sé útlensk. Ef ég nenni er alveg jafnskrítið jólalag þótt það sé upprunalega ítalskt. Það skiptir nefnilega ekki máli hvaðan hlutirnir koma. Það eina sem skiptir máli er hvernig þeir láta manni líða.

Og svo er íslenska Skólarapp líka svo miklu betra en það ítalska.

Eftir / Óttar M. Norðfjörð

Lestu meira

Annað áhugavert efni