Laugardagur 18. mars, 2023
-0.2 C
Reykjavik

Slaufaðir karlmenn eru í góðum málum en kuldaskræfur ekki

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í góðum málum

Karlmenn sem hefur verið slaufað eru í góðum málum um þessar mundir. Á dögunum seldist upp á ferna tónleika Ingós veðurguðs í Háskólabíói, en fyrir tveimur árum hrökklaðist hann úr sviðsljósinu. Ástæðan var mýmargar ásakanir á hendur honum um kynferðisbrot og áreiti gagnvart ungum stúlkum. Veðurguðinn harðneitaði ásökununum og kærði jafnvel nokkra einstaklinga fyrir meiðyrði. En hann er sem sagt kominn aftur, sem ekki allir eru sáttir við, skiljanlega, en fréttir af góðri miðasölu á tónleika hans sanna að eftirspurnin er til staðar. Þá hefur Frosti Logason einnig snúið til baka eftir að hafa óskað eftir leyfi frá störfum á Stöð 2 eftir að fyrrverandi kærasta hans sakaði hann um andlegt ofbeldi. Gekkst hann við hluta af ásökununum og baðst afsökunar. Frosti fór svo á sjóinn en er nú kominn aftur með látum, en hann stofnaði hlaðvarpsrásina Brotkast þar sem hann heldur áfram með Harmageddon sem lengi vel var á útvarpsstöðinni X-ið. Þannig að já, slaufaðir menn eru í góðum málum og sanna kannski að slaufunarmenningin er hugarburður, eða hvað?

Í slæmum málum

Kuldaskræfur eru í slæmum málum nú um stundir. Kannski er ósanngjarnt að kalla okkur sem búum á þessu guðsvolaða landi og skjálfum á beinunum kuldaskræfur, því úti er bara skíthelvítis kalt. Það hefur til dæmis ekki verið kaldara í Reykjavík síðan Hvalfjarðargöngin voru opnuð og Buffalo-skór þóttu flottir. Sem sagt árið 1998. Kuldinn hefur svo verið enn meiri úti á landi, en á dögunum sýndu mælar undir 20 gráðum í mínus víða um land, sem þýðir mun meira þegar vindurinn blæs. Það er sem sagt sums staðar varla hundi út sigandi. Íslendingar eru með gleymnari þjóðum, eins og sést í kosningum, en það er nú önnur saga. Þetta á einnig við þegar kemur að veðrinu. Eftir nokkra hlýja daga í byrjun mars héldu margir að vorið væri komið, en það var gildra eins og langoftast í mars og apríl. Fram undan eru páskarnir og þá má búast við páskahretinu, en ár eftir ár verða þúsundir Íslendinga steinhissa á snjókomu um páska, enda búið að vera svo fínt veður nokkrum dögum áður. En staðreyndin er sú að þetta er það algengt að við höfum orð yfir þetta; páskahret. En við þurfum ekki að örvænta, þegar sumarið kemur loksins getum við farið að klæðast sumarjökkum í stað úlpna (það er sér fyrirbæri hér á landi).

Pistill þessi birtist í nýjasta helgarblaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -