Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Sóttkví í Kaupmannahöfn 1970 náði til Vífilsstaða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Guðrúnu Nielsen listakonu. 

Vegna mikillar sóttkvíar-umræðu í þjóðfélaginu hvarflar hugurinn til Kaupmannahafnar haustið 1970  þegar ég vann á Skodsborg Badesanatorium og var skikkuð í 14 daga sóttkví á farsóttarsjúkrahúsi  Kaupmannahafnarumdæmis – Blegdamshospitalet ein af 589 manns sett í sóttkví vegna eins bólusóttar smits.

 

Aðalinngangur Blegdam sjúkrahússins með blómstrandi magnólitrjám 1967

Í minningunni er ég komin á áfangastað stend ber í röð í herbergi fullu af nöktum konum með  fataböggul minn í fanginu og bíð eftir að röðin komi að mér. Við áttum engra annara kosta völ en að  sæta sóttkví til varnar því að smit bærist út, þannig var það einfaldlega. Þetta er mér minnisstæðast frá  þessum tíma og svo hermennirnir sem vöktuðu svæðið.  

Lasinn Norðmaður

Samkvæmt umfjöllunum dagblaða þess tíma bæði hér heima, í Danmörku og Noregi var það seinni hluta  dags 26.ágúst að ungur Norðmaður kom í heimsókn til kærustu sinnar á heilsuhæli Aðventista á  Skodsborg Badesanatorium við Strandveginn norður af Kaupmannahöfn. Hafði honum og fleira fólki  verið boðið í stúdentapartí á staðnum. Hann mætti þar hálflasinn þá nýkominn til landsins frá Afganistan  þar sem hann hafði smitast af bólusótt en náð bata. Þar hafði hann verið meðhöndlaður og útskrifast,  hitalaus og frískur áður en hann ferðaðist heim til Danmerkur í gegnum Damaskus í Sýrlandi. Á  Skodsborg braust svo sjúkdómurinn aftur út hjá honum að kvöldi 27. ágúst og var hann þá settur í  stranga einangrun, kominn með mikinn hita og útbrot. Þann 31. ágúst er hann síðan fluttur á  Blegdamshospitalet í einangrun, greindur með bólusótt.  

11 Íslendingar

Samkvæmt upplýsingum úr grunni Danska hjúkrunarfræði-safnsins segir að bólusótt sé mjög smitandi og  þarf aðeins lítið magn af smitefni til að fólk smitist. Því var hafin öflug vinna við smitrakningu til að ná til  allra þeirra sem sjúklingurinn hafði haft snertingu eða tengsl við. Þetta var risavaxið dæmi, því hann  hafði verið í sambandi við fullt af fólki á mörgum mismunandi stöðum. Sá hópur reyndist vera 589  manns. Endanlegur fjöldi útsettra frá Skodsborg Badesanatorium sem sættu sóttkví á  Blegdamshospitalet voru 120 þar af sjö íslendingar en að auki voru fjórar stúlkur nýfarnar heim til Íslands  þar sem þær fóru í sóttkví á Vífilstaðaspítala í 14 daga. Þar sem heilsuhælið var einnig  sjúkraþjálfunarskóli og vinnustaður margra ungmenna frá öllum Norðurlöndunum sem margir hverjir  fóru til síns heima í lok sumars er hugsanlegt að auk Danmerkur og Íslands hafi smitrakning einnig náð til  hinna Norðurlandanna án þess að það sé athugað hér. Íslendingarnir voru 23 sem unnu þarna þetta  sumar en heilsuhælið hýsti einnig gesti víðs vegar að. Aðalbyggingarnar þar sem gestirnir héldu mest til  voru fjær ströndinni en vistarverur starfsfólks þar sem smitið kom upp, mest megnis strandarmegin þar  sem við íslendingarnir dreifðumst á nokkrar byggingar ásamt öðrum norðurlandabúum. Gestir Skodsborg  Badesanatorium höfðu ekkert samneyti haft við Norðmanninn en voru samt sem áður bólusettir eins og  við hin og þurftu einnig að sæta 14 daga sóttkví en ekki á farsóttarsjúkrahúsi. Þeir íslensku gestir sem  voru á Skodsborg á þessum tíma fengu ekki að koma heim til Íslands fyrr en að sóttkví lokinni segir í  Tímanum.  

- Auglýsing -

Pláguguðinn

Á Skodsborg var okkur smalað saman í rútur sem biðu okkar við Strandveginn og keyrðu svo sem leið lá  frá Skodsborg og inn til Kaupmannahafnar á Blegdamshospitalet á Nörrebro þar sem hermenn og  hjúkrunarfólk tók á móti okkur.

Tjaldbúðirnar sem reistar voru til að hýsa þá fjölmörgu sem höfðu verið í sambandi við bólusóttarsjúklinginn..jpg

Aðkoma á farsóttarsjúkrahúsið er óljós í minningunni en ég man vel eftir  aðalbyggingunni sem var úr múrsteini, gömul en tilkomumikil þar sem skúlptúr af gyðjunni Aþenu reis  hátt á þaki yfir bogahvelfingu inngangsins með spjót sitt þar sem hún ver börn sín gegn örvum  pláguguðsins. Inni á svæði spítalans voru fjölmargar lágreistari byggingar, há tré og grasfletir, ótal tjöld,  stikur og bönd í kringum allar vistarverur og formalín-fötur alsstaðar utandyra til sótthreinsunar. Einnig  héngu bannaður aðgangur skilti við öll tjöld og byggingar. Þetta er ekki allt skýrt sem bjartur dagur í  minningunni en ég var ekki óróleg vegna þessa, þetta var meir eins og smá ævintýr, auk þess fengum við  frí í vinnunni sem mér þótti ekki slæmt. 

Berar með fatavöndul

Hermenn og hjúkrunarfólki tók á móti okkur og var okkur rútu-félögum vísað inn í herbergi ekki mjög  stórt því þar inni var þröngt á þingi og var okkur sagt að afklæðast öllu og passa uppá fatnaðinn. Við  gerðum það sem okkur var sagt og fórum síðan í röð stóðum þarna berar, allar þessar stelpur hver með  sinn fata-vöndul, sem ég hélt dauðahaldi í. Þegar röðin kom að mér gaf ég upp nafn og svaraði þvi sem  spurt var um, poki var merktur mér og vöndlinum troðið ofaní og eins og allar hinar fékk ég  sjúkrahúsfatnað til að klæðast. Þetta er skýrt í minningunni vegna fáránleikans, einnig man ég hverju ég  klæddist þennan dag. Það voru brún tvíd-ullarjakkaföt, tvíhnepptur hálfsíður jakki með klaufum að aftan  og útvíðar buxur þessi föt hafði ég keypt í Karnabæ einni af fáum tískuverslunum Reykjavíkur þess tíma.  

- Auglýsing -

Tjöld og kamrar

Herlið og almannavarnir höfðu reist tjaldbúðir innan lóðamarka farsóttarsjúkrahússins til að geta hýst  alla og haldið fólki aðskildu í sóttkví, þetta var ógrynni tjalda þar sem hvert og eitt var girt af ásamt litlum  bláum timburkofum sem hýstu kamrana. Ég lenti á stofu inni í einni af byggingunum ásamt nokkrum  íslensku stelpnanna og Ítölsk eldri kona var þarna með okkur, henni hafði ég unnið með á Skodsborg og  þekkti vel. Aðrar í hópnum þekkti ég ekki en þær voru námsmenn frá háskóla í borginni. Á sjúkrastofunni  voru stór járnrúm með náttborð við hvert.

Samkvæmt dönskum gögnum vorum við þarna í 14 daga  sóttkví en einhverjir á svæðinu voru í 17 daga. Í upphafi sóttkvíar vorum við allar bólusettar, sú ítalska  varð lasin eftir sprautuna hún fékk háan hita og útbrot úr stungusárinu og var sinnt séstaklega af  hjúkrunarfólki en annars vorum við bara frískar allar hinar og flestar höfðum við íslensku stelpurnar verið  bólusettar heima bæði sem smábörn og svo aftur í barnaskóla mundi ég halda.  

Sögur frá Trieste

Fjöldi sóttvarnardaga var eitthvað sem við spáðum ekki mikið í á meðan við dvöldum þarna, tíminn bara  leið fyrirhafnalaust og eftir á að hyggja var þetta eðlilegt framhald á því sem á undan hafði gengið,  ströng sóttkví vegna smits. Ég held að okkur hafi verið færður matur inn á stofuna og fengum við að fara  út fyrir dyr og halda okkur á afmarkaða svæðinu, man ég eftir fallegum sólardögum þar með hermenn á  vappi í umhverfinu. Útvarp var á stofunni en ekki sjónvarp en maður er manns gaman og þetta var bara  spennandi í minningunni. Ítalska konan var í næsta rúmi við mig og kenndi mér ýmis orð á ítölsku og  sagði hún mér sögur frá heimabæ sínum, Trieste, á norður Ítalíu og sögur frá seinni heimstyrjöldinni þar  um slóðir sem gerði hana sorgmædda. Ég man hvað hún hét og fyrir forvitnissakir Googlaði ég hana og  fann út að hún var 72 ára gömul í sóttkvínni, fædd árið 1898 og hún lést 10 árum seinna í Vejle á  Jótlandi.  

Ferðin til baka á Skodsborg í lok sóttkvíar er óljós en ég man vel þegar við fengum fatapokana okkar  aftur. Öllu hafði verið skellt í þvott sennilega sett á suðu og fallegu jakkafötin mín voru ónýt öll krumpuð  og þæfð, en hrein. Þrátt fyrir sóttkvína fengum við launatap okkar bætt af stjórnvöldum samkvæmt  sóttvarnalögunum.  

Sóttkví á Vífilsstöðum

Í viðtali í Tímanum frá þessum tíma segir að fjórar af íslensku stúlkunum sem höfðu orðið útsettar fyrir  smiti á Skodsborg hafi farið heim til Íslands fyrir byrjun settrar sóttkvíar í Kaupmannahöfn. Náð hafi verið  í tvær þeirra á flugvöllinn við heimkomu og farið með þær beint á Vífilstaði í sóttkví en hinar tvær var  náð í heim. Önnur þeirra sagði mér nýverið að hún hafi verið send með flugi frá Höfn í Hornarfirði til  Reykjavíkur og færð í sóttkví á Vífilstaði, þar sem þær dvöldu í íbúðarhús á staðnum í 14 daga. Girt var í  kringum húsið meðan á sóttkví stóð og sat maður í stól fyrir utan, sagði hún til að passa uppá að sóttkví  væri haldin. Ein stúlknanna sá um matseld fyrir þær þennan tíma og var hún á launum og aðeins  yfirlæknir spítalans og hjúkrunarkona sinntu stúlkunum. Ekki fengu þær að hitta nokkurn mann þó að í  byrjun hafi fólk komið á gluggann sem var svo tekið fyrir, en hægt var að hafa samband við þær í gegnum  síma.  

Norðmaðurinn lést

Samkvæmt upplýsingum úr grunni Danska hjúkrunarfræði-safnsins segir að enginn þeirra 589 sem settir  voru í sóttkví veiktust en ungi Norðmaðurinn lést úr bólusótt 21.september 1970. Þeir læknar og  hjúkrunarfræðingar sem hjúkruðu honum höfðu öll verið bólusett fyrir bólusótt. Þau bjuggu í skálanum  þar sem hann lá og komust þess vegna ekki í snertingu við umheiminn, og komu fyrst þaðan út nokkrum vikum eftir andlát hans. Þeim var haldið í einangrun þar til fullvíst var að þeir þróuðu ekki með sér  bólusóttina. Þessi sóttvarnaraðgerð var sett á laggirnar með aðeins klukkutíma fyrirvara, en það skilaði  árangri. Síðan þá hafa ekki komið upp bólusóttir í Danmörku og frá 1976 er bólusetning við bólusótt ekki  lengur hluti af almennu bólusetningaráætluninni, vegna þess að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin metur  sjúkdóminn útrýmdan. Árið 1974 var Blegdamshospitalet lokað og kampusinn rifinn. Í dag er þar Panum  hákólakampus heilbrigðis- og læknavísindadeildar Kaupmannahafnarháskóla.  

Þessir fáu dagar sem við vörðum í sóttkvínni á Blegdamshospitalet voru árangursríkir, óvenjulegir og  bara notalegir að mínu mati og í raun gleðilegir miðað við þá miklu hræðilegu vá sem bólusótt var. Upp  kemur í hugann að ekki var nokkur maður með uppsteyt vegna frelsisskerðingar, bara sáttir held ég og  að allt umstangið sýndi alvarleikann en enginn smitaðist, veiktist eða dó öðruvísi en í þeim faraldri sem  núna er glímt við.  

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -