2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stökkbreytt þjónusta í rafrænum heimi

Hin mannlega hönd og samskipi við starfsfólk almennt minnkar stöðugt með hverju árinu. Það má þó spyrja sig hvort þjónusta og gæði sé á undanhaldi í stöðugt vaxandi rafrænum heimi.

Á undanförnum árum hefur bankaútibúum sem dæmi stöðugt fækkað. Í fyrra lokaði Arion banki útibúi sínu í Mosfellsbæ og er nú svo komið að þar er enginn bankinn lengur með starfsemi í sveitarfélagi sem er með nærri 11 þúsund íbúa.

Má spyrja sig hvers virði bankar meta tryggð viðskiptavina við sig þegar útibúum fækkar ár frá ári með tilkomu fleirri rafrænna lausna á netinu eða í appi í gegnum síma. Jafnvel er ekki veitt mannleg þjónusta þegar fólk tekur íbúðalán þrátt fyrir að það sé að skuldbinda sig til allt að 40 ára sem er margfalt lengri skuldbinding en ending flestra íslenskra hjónabanda. Og minnkar þá ekki einnig hvati fólks til að halda tryggð við sama banka?

Þannig virðist vera lítill metnaður hjá íslenskum bönkum að aðgreina sig frá hverjum öðrum. Enginn af hinum almennu bönkum leggur áherslu á að bjóða úrvalsþjónustu sem viðskiptavinir væru sjálfsagt tilbúnir að borga fyrir með aðeins hærri vöxtum og þjónustugjöldum.

AUGLÝSING


Og snúum okkur þá að matvörubúðum og bensínstöðvum. Hver hefur ekki farið brosandi frá hinni ofurjákvæðu Fransiscu Mwansa sem flutti til Íslands frá Sambiu og afgreiddi á kassanum á Bónus líkt og það væri hennar mesta himnagjöf í lífinu og þar með viðskiptavina hennar líka.

Nú eru íslenskar matvöruverslanir sumar hverjar farnar að bjóða viðskiptavinum sínum að afgreiða sig sjálfir með að stimpla vörum ofan í poka. Líklega mun þetta ekki fara að virka almennilega fyrr en búðirnar bjóða viðskiptavinum einhvern afslátt fyrir að gera þetta sjálfir. En búðir eins og Hagkaup og Fjarðakaup munu áfram geta aðgreint sig fyrir að bjóða betri þjónustu, úrval og gæði gegn aðeins hærra verði.

Spennandi verður að sjá hver þróunin verður hjá Högum og Festar á næstu árum en eins og kunnugt er sameinaðist Hagar og Olís og síðan Festar og N1. Kom þetta í kjölfar innkomu Costco á íslenskan markað. Nýlega sagði Mannlíf frá því að sjálfur Jón Ásgeir Jóhannesson ætlaði sér stóra hluti á þessum markaði á næstu árum. Áhugavert væri að sjá hvaða framtíðarsýn hann hefur.

Líklega hefur þróunin verið einna hröðust í ferðaþjónustu. Í gamla daga fór fólk á ferðaskrifstofur og fékk hugmyndir um mögulegar ferðir út fyrir landsteinanna. Núna skipuleggja líklega langflestir sínar ferðir sjálfir með hjálp leitarsíðna eins og Dohop og Booking. Þá þekkja fáir betur Airbnb en Íslendingar. Tripadvisor hjálpar síðan fólki að velja veitingastaði.

En bankar, matvöruverslanir, bensínstöðvar og fyrirtæki í ferðaþjónustu eru allt aðilar sem gefa sig út fyrir að selja þjónustu. Og spurningin í byrjun var hvort þjónusta og gæði séu á undanhaldi í hinum rafræna heimi. Því er áhugavert að bera þessar greinar saman við þá sem sinna opinberri þjónustu.

Fátt er meira streituvaldandi en að bíða í röð hjá sýslumanninum. Hvort sem það snýst um þinglýsingu á nýju fasteigninni þinni eða umsókn um nýtt vegabréf fyrir komandi sólarlandaferð til Tenerife. Svo má nefna stofnanir eins og Þjóðskrá þegar fólk þarf að skipta um lögheimili. Líklega fagna flestir fljótari þjónustu slíkra stofnana með aukningu á rafrænum umsóknum.

Þróunin mætti líklega vera hraðari í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Má hér nefna að Háskóli Íslands er kominn ótrúlega stutt varðandi framboð á fjarnámi. Og hvers vegna geta td. háskólanemendur ekki fengið að taka áfanga í mismunandi háskólum. Þannig mætti sjá fyrir sér að kennarar fengju einkunn með svipuðum hætti og tíðkast á Airbnb og Tripadvisor. Þannig gætu háskólarnir mótað sér meiri sérstöðu eftir styrkleikum sínum.

Og svo getum við að lokum spurt okkur hvenær við segjum þetta gott af stöðugri fækkun starfsmanna í hinum ýmsu greinum. Mun Þjóðkirkjan sem dæmi á endanum verða mannlaus. Kannski gæti Tinder bara séð um að gifta fólk. Vélmenni afgreiða okkur með lyf í apótekinu. Verða læknar og sálfræðingar óþarfir með tilkomu nýrra lausna á sviði gervigreindar? Dómarar í íþróttum. Gætu þeir orðið óþarfir. Áleitnar spurningar sem fáir treysta sér til að svara.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni