2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sum kynferðisbrot fyrnast aldrei

Umfjöllun um kynferðisbrot hefur tröllriðið samfélaginu undanfarið, þar sem stofnaðar hafa verið síður á Facebook og öðrum miðlum sem greina frá meintum einstaklinga sem hafa verið áberandi í fortíð eða nútíð í samfélaginu. Á sama tíma og þessum pistli er á engan hátt ætlað að taka nokkra afstöðu til þess, hvort einhverjir af þeim aðilum sem mest hefur verið fjallað um hafi gerst sekir um nokkurn skapaðan hlut, langar mig að reyna að varpa smá ljósi á það hvaða reglur gilda um fyrningu kynferðisbrota.

Á meðal alvarlegustu kynferðisbrotanna er klárlega nauðgun og liggur allt að 16 ára fangelsisrefsing við slíku broti. Gerist einhver sekur um nauðgun í dag, verður fórnarlambið að kæra brotið til lögreglu eigi síðar en árið 2034 svo það fyrnist ekki. Sé fórnarlambið hins vegar yngra en 18 ára, byrjar þessi tími þó ekki að líða fyrr en á 18 ára afmælisdegi þess.

Hér ber þó að reka ákveðin varnagla. Árið 2007 breytti Alþingi lögum um fyrningarfrest kynferðisbrota gegn börnum, m.a. að frumkvæði Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Eftir breytinguna fyrnast ekki brot þegar börnum er nauðgað (lagaákvæðin tala um „samræði eða önnurkynferðismök“) eða þau verða fyrir sifjaspellsbrotum.

Í svari innanríkisráðherra á Alþingi um þær reglur sem gilda um fyrningu kynferðisbrota, frá árinu 2015, voru fyrningarreglurnar flokkaðar niður með eftirfarandi hætti:

AUGLÝSING


Brot sem ekki fyrnast ef brot er framið gagnvart barni yngra en 18 ára:

 1. Nauðgun (194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 – hér eftir hgl.).
 2. Samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja (1. mgr. 200. gr. hgl.).
 3. Samræði eða önnur kynferðismök við kjörbarn, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn o.fl. (1. mgr. 201. gr. hgl.).
 4. Samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára (1. mgr. 202. gr. hgl.).

Fyrningarfrestur telst frá þeim degi er brotaþoli nær 18 ára aldri:

 1. Samræði eða önnur kynferðismök umsjónarmanns eða starfsmanns á tilteknum stofnunum við vistmann (197. gr. hgl.).
 2. Samræði eða önnur kynferðismök sem náð er fram með misneytingu (198. gr. hgl.).
 3. Kynferðisleg áreitni (199. gr. hgl.).
 4. Önnur kynferðisleg áreitni gagnvart barni sínu eða öðrum niðja (2. mgr. 200. gr. hgl.).
 5. Samræði eða önnur kynferðismök milli systkina (3. mgr. 200. gr. hgl.).
 6. Önnur kynferðisleg áreitni gagnvart kjörbarni, stjúpbarni, fósturbarni, sambúðarbarni o.fl. (2. mgr. 201. gr. hgl.).
 7. Önnur kynferðisleg áreitni gagnvart barni yngra en 15 ára (2. mgr. 202. gr. hgl.).
 8. Tæling (3. mgr. 202. gr. hgl.).
 9. Að nýta sér netið eða aðra fjarskiptatækni til að mæla sér mót við barn yngra en 15 ára í því skyni að hafa við barnið samræði eða önnur kynferðismök eða til að áreita það kynferðislega (4. mgr. 202. gr. hgl.).
 10. Að hafa atvinnu eða viðurværi af vændi annarra (3. mgr. 206. gr. hgl.).
 11. Að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis (6. mgr. 206. gr. hgl.).
 12. Nektarsýningar barna (1. mgr. 210. gr. b. hgl.).
 13. Limlesting á kynfærum kvenna (218. gr. a. hgl.).
 14. Mansal (1. mgr. 227. gr. a. hgl.).

Ástæða þess að það gilda aðrar reglur um fyrningarfrest brota gegn börnum en fullorðnum ættu að vera hverjum manni skýrar, en í grunninn er hugmyndin sú að tryggja að brot fyrnist ekki áður en börn ná þeim þroska að átta sig á því, að brotið hafi verið gegn þeim. Þá er líka horft til þess, að í sumum tilvikum getur það reynst vandkvæðum bundið fyrir börn að kæra þá sem brutu gegn þeim, s.s. í þeim tilvikum þegar um er að ræða nákomna aðila.

Hægt er að færa rök fyrir því, að það sé óskynsamlegt í refsiréttarlegu tilliti að sum brot fyrnist aldrei – að brotamenn eigi t.d. ekki að þurfa að sæta því að svara til saka árum eða áratugum eftir að brotum lauk. Andsvarið er hins vegar það, að kynferðisbrot gegn börnum er sérstaks eðlis og afleiðingar þeirra eru í senn mjög alvarlegar og langvarandi fyrir fórnarlömbin.

Í niðurstöðum vandaðrar MA-ritgerðar Svölu Ísfeld Ólafsdóttur frá árinu 2009, segir um breytingu á fyrningarreglum vegna kynferðisbrota gegn börnum:

„Eftir stendur að þó að með því að gera alvarleg kynferðisbrot gegn börnum ófyrnanleg hefur löggjafinn tekið þá afstöðu að þessi brot séu svo alvarleg vegna langvarandi afleiðinga þeirra að þau skuli lúta sömu fyrningarreglum og alvarlegustu glæpir sem varðað geta ævilöngu fangelsi.“

Ég held að við getum flest kvittað upp á þessa afstöðu löggjafans.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni