2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Þarf ég að vita eitthvað um legusár?

Höfundur / Hulda Margrét Valgarðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri þrýstingssáravarna á Landspítala.

Legusár tengjast, í hugum flestra, öldruðum rúmliggjandi einstaklingum. En það eru ekki bara aldraðir einstaklingar á stofnunum sem fá legusár. Ungir einstaklingar fá legusár, meira að segja ungbörn geta fengið legusár. Aukin þekking á eðli legusára hefur orðið til þess að þau eru nú kölluð þrýstingssár. Í dag er alþjóðlegur dagur þrýstingssáravarna 2019. Í tilefni af því er ástæða til að vekja athygli á þeim þjáningum sem þau valda og mikilvægi forvarna.

 

Þrýstingssár eru vefjaskemmd í húð og undirliggjandi vefjum. Þau myndast vegna þrýstings, oftast yfir útstæðum beinum, svo sem á hælum, spjaldhrygg, rófubeini, rasskinnum, mjöðmum og víðar. Hjálpartæki, aðskotahlutir eða fatnaður geta einnig valdið þrýstingssárum. Þrýstingssár eru allt frá því að vera roðablettur á yfirborði húðar að því að vera umfangsmikil vefjaskemmd sem nær inn að vöðvum og beinum. Sárin myndast á örskömmum tíma en eru lengi að gróa. Orsök þrýstingssára er þrýstingur. Veigamesti áhættuþátturinn er hins vegar skert hreyfigeta.

Dæmi um einstaklinga sem eru í áhættu með að fá þrýstingssár eru aldraðir með mjaðma- eða lærbrot, bráðveikir, t.d. gjörgæslusjúklingar og einstaklingar með langvinna sjúkdóma. Annar stór áhættuhópur eru einstaklingar sem þurfa að nota hjólastól, t.d. mænuskaðaðir með skerta hreyfigetu og skyntilfinningu. Allir sem þurfa aðstoð við að hreyfa sig í rúmi eða í stól eru í hættu á að fá þrýstingssár.

AUGLÝSING


Þrýstingssár eru ekki bara inni á stofnunum heldur líka úti í samfélaginu. Þau eru sársaukafull, þjakandi og kostnaðarsöm. Kostnaður við eitt þrýstingssár getur hlaupið á milljónum króna. Þau tefja meðferð og bataferli og lífsgæði einstaklinga sem fá þrýstingssár eru verulega skert. Auk þjáningarinnar hindra þau þátttöku í daglegu lífi svo sem við nám eða störf.

Góðu fréttirnar eru þær að með árvekni og fyrirbyggjandi aðgerðum er í flestum tilfellum hægt að koma í veg fyrir myndun þrýstingssára. Þeir sem eru í áhættu þurfa sjálfir eða með aðstoð að skoða ástand húðarinnar daglega, hagræða sér eða skipta um stellingar í rúmi eða stól oft á dag. Passa að dýna í rúmi eða sessa í stól sé í samræmi við þarfir, húð sé hrein og þurr og mikilvægt er að leggja áherslu á staðgóða næringu. Fyrirbygging þrýstingssára er mun ódýrari en viðgerð og það að koma í veg fyrir þær þjáningar sem sárunum fylgir verður ekki metið til fjár.

Þrýstingssáravarnir varða öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum og þar er ábyrgð fagfólks mikil.  Þekking og árvekni einstaklinga í áhættu og aðstandenda þeirra skiptir einnig sköpum. Því er mikilvægt að við tökum höndum saman og kynnum okkur málið. Hver veit nema þú eða einhver nákominn þér sé í hættu á að fá þrýstingssár. Ræddu málin við hjúkrunarfræðing eða aðra fagaðila til að fá aðstoð og ráðgjöf.

Láttu þig málið varða.

Lestu meira

Annað áhugavert efni