Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Þjóðarsál okkar til sölu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslendingar eru örlátir þar sem kemur að sameiginlegum eigum þjóðarinnar. Fyrir margt löngu voru fiskistofnar á Íslandsmiðum einkavæddir. Sameiginleg auðlind komst í eigu skilgreindra aðila. Það jákvæða við einkavæðinguna var að fiskistofnunum var ekki komið í eigu útlendinga. Lög banna hreinlega erlenda eignaraðild að óveiddum fiski. Þetta á sér rætur í því að Íslendingar þurftu að berjast af hörku til að koma útlendingum af fiskimiðunum. Hörðust voru átökin við Breta sem veiddu fisk nánast upp í kálgörðum Íslendinga. Við sigruðum í landhelgistríðunum og nýttum þessa auðlind okkar sjálf.

En við erum ekki jafn sterk fyrir annars staðar. Fiskeldi við strendur Íslands er að mestu í eigu útlendinga. Vestfirskir firðir eru löðrandi í úrgangi frá þessum norsku fyrirtækjum. Gróðinn af fiskeldinu fer þráðbeint úr landi. Auðvitað má ekki gleyma því að norsku fiskeldisrisarnir leggja til störf og ákveðna velmegun í þorpum sem áður voru við hungurmörk eftir að fiskveiðikvótinn færðist annað. Það breytir ekki því að Norðmenn eru komnir upp í íslenska kálgarða. Við höfum gefið eftir forræði okkar á þeirri auðlind sem hrein íslensk náttúra er. Við leyfum að erlend þjóð græði á þeim sóðaskap sem þarna viðgengst.

Hluti af þjóðareigninni þarf að vera friðhelgur

Annað dæmi um yfirtöku útlendinga á Íslandi er að finna í bókaútgáfu. Sænskt auðfyrirtæki, Storytel, hefur rétt á útgáfu á fjölmörgum á íslenskum bókum á Netinu. Íslensk skáldverk, ævisögur og sagnfræðibækur eru komnar í eigu Svía. Gróðinn af því að leigja út bækurnar rennur til Svíþjóðar. Þá má ekki gleyma því að íslenska ríkið niðurgreiðir útgáfustarfsemi Storytel, rétt eins og aðra bókaútgáfu innanlands. Um 100 milljónir króna renna árlega úr ríkissjóði í skúffu útgáfurisans í Svíþjóð. Litlu mátti muna að  Storytel eignaðist stærstu bókaútgáfu landsins og næði þannig sterkum tökum á þeim menningararfi þjóðarinnar sem snýr að bókmenntum. Áratugum saman börðumst við fyrir því að fá handritin heim frá Danmörku. Þá vissum við að saga og sál þjóðar liggur í bókmenntunum. Sambærilegur þjóðararfur var kominn í eigu gömlu nýlendukúgaranna okkar. Nútíminn er í raun sá að við höfum hent „handritum“ okkar úr landi. Sál þjóðarinnar er til sölu.

Útlendingar hafa um langt skeið ásælst og eignast jarðir með þeim hlunnindum sem fylgja. Þjóðin stakk við fótum þegar Kínverjinn Huang Nubo ætlaði að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Þau áform voru stöðvuð, nánast með handafli. En það maldar enginn í móinn þegar Bretinn Jim Ratcliffe kaupir upp jarðir og nær undir sig laxveiðiám og öðrum perlum Íslands. Við erum sátt við uppkaup Bretans en förum gegn Kínverjanum.

Það má ekki skilja þessi skrif sem andúð á útlendingum. Við eigum að sýna frjálslyndi í því sem snýr að erlendum fjárfestingum, rétt eins og við viljum fá að fjárfesta erlendis. En mörkin þurfa að vera skýr og ramminn að liggja fyrir. Hluti af þjóðareigninni þarf að vera friðhelgur gagnvart utanaðkomandi aðilum, hvort sem um er að ræða Kínverja, Svía eða Breta. Þar má nefna menningararfinn, landið okkar, orkuna, fiskimiðin og sjávarauðlindina. Varðstaðan um sjálfstæði okkar felst í því að skilgreina og varðveita það sem við eigum sameiginlega. Sumt má einfaldlega ekki vera til sölu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -