2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Þú ert rekinn!

Líklega dylst orðið engum að það eru samdráttartímar á íslenskum vinnumarkaði.

Arion banki sagði upp 100 manns eftir að hafa borið til baka að til stæði að segja upp 80, 20 manns hafði skömmu fyrr verið sagt upp hjá Íslandsbanka og nýlega var 87 flugmönnum sagt upp hjá Icelandair. Sérfræðingar á fjármálamarkaði telja að fleiri liggi í loftinu og þetta ár stefni í að verða stærsta hópuppsagnaár frá hruni.

Þegar þannig stendur á hefur jafnan fylgt að virðing og tillitssemi gagnvart vinnandi fólk fer minnkandi og er í sumum tilfellum algerlega fyrir borð borin. Kannski sést það einna best í aðgerðum stjórnar SÍBS á Reykjalundi. Stjórnarmenn fundu sig knúna til að losa sig við lykilstarfsmenn svo þeim var fyrirvaralaust sagt upp og fylgt út úr húsinu án þess að þeir fengju tækifæri til að tæma skrifborðin sín eða kveðja samstarfsfólk sitt. Óskiljanleg aðgerð í ljósi þess að stjórnin sendir frá sér yfirlýsingu og þakkar þessum sömu mönnum samstarfið og áratugalangt framlag til starfseminnar. Að auki er tekið skýrt fram að engum skugga sé varpað á það góða starf sem þeir hafi unnið. En komið er fram við þá eins og þeir hafi brotið alvarlega af sér. Hvernig þetta tvennt samræmist er öllu venjulegu fólki óskiljanlegt.

„Stjórnarmenn fundu sig knúna til að losa sig við lykilstarfsmenn svo þeim var fyrirvaralaust sagt upp og fylgt út úr húsinu án þess að þeir fengju tækifæri til að tæma skrifborðin sín eða kveðja samstarfsfólk sitt.“

Raunar hefur þetta viðgengist víða í fyrirtækjum í viðkvæmum samkeppnisrekstri til að tryggja að sá brottrekni geti ekki tekið með sér verðmætar upplýsingar og eins hefur stundum þótt nauðsynlegt að koma í veg fyrir að menn gætu sent út reiðipósta til hinna sem eftir sitja. Á stofnun eins og Reykjalundi er einhverju slíku varla fyrir að fara. Ef læknir tæki upp á að stela heilsufarsupplýsingum um skjólstæðinga stofnunarinnar og leka þeim ætti hann á hættu að missa starfsleyfið.

Nú er það svo á nútímavinnustöðum að hver og einn á sína starfsstöð. Óhjákvæmilega flækjast þangað hinir og þessir persónulegu munir í gegnum tíðina. Myndir af börnunum, naglaþjöl í skúffuna, handáburður, kex, hnetupoki eða dittin og dattinn, eins amma mín kallaði það. Að fá ekki að taka svoleiðis hluti með sér er fáránlegt, beinlínis illkvittnislegt. Ég þekki konu sem sagt var upp á stórri stofnun í hagræðingarskyni, að sagt var. Henni og sex öðrum var fylgt beint út. Enginn fékk leyfi til að fara aftur að skrifborðinu sínu en þeim var sagt að þau gætu nálgast dótið sitt í móttökunni. Það gekk ekki eftir. Þessi kona þurfti í sex vikur að hringja og skrifa til að fá dótið sitt aftur. Þegar þetta loks skilaði sér höfðu eigur hennar verið skemmdar og henni sýnd mjög kuldaleg framkoma. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum þar sem fólki er þakkað áralangt starf með algjörri lítilsvirðingu. Það er vandséð hverju það þjónar. Virðing og kurteisi kostar ekkert og er lágmarkskrafa bæði í uppsveiflu sem og á samdráttartímum.

AUGLÝSING


 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni