2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tími fyrir mannúð og miskunn

Upp er komin skringileg staða þar sem framtíð varnarlausra barna og fjölskyldna þeirra virðist velta á því hvernig dómsmálaráðherra svaf þá nóttina. Á því hvort morgunverðurinn rann ljúflega ofan í hann, hvort skrifborðsstóllinn í ráðuneytinu var rétt stilltur og ofnarnir í takt við veðurspána. Til að hindra útlendingayfirvöld í að senda börn og ungmenni aftur í ömurleikann sem þau flúðu þarf að efna til mótmæla og undirskriftasafnana og fá fjölmiðla til að vekja athygli á málinu. Það er síðan undir geðþótta ráðherra hvað verður. Mikið veltur á því hvernig hann er stemmdur í hvert sinn.

Þetta ástand er óþolandi. Fyrir hvert það barn sem almenningi hefur tekist að bjarga með hneyskslan og vanþóknun eru eitt eða tvö eða þrjú sem eru send burt án þess að við verðum nokkurn tímann vör við það. Alþjóðlegar stofnanir, hjálparsamtök og erlendir miðlar hafa lýst því hvað bíður þeirra; líf á götunni, óvissa um skólavist og atvinnu til handa foreldrunum, fordómar og útlendingahatur. En þetta metur Útlendingastofnun nógu gott; í copy/ paste-niðurstöðum er vitnað til laga og reglna sem eru í engum takti við raunveruleikann. Stofnunin vísar í yfirlýsingar stjórnvalda í Grikklandi, orð án aðgerða, og velur „staðreyndir“ eftir hentugleika. Það hlýtur að vera hverjum ljóst sem kynnir sér ákvarðanir Útlendingastofnunar að markmiðið er ekki að sýna mannúð, heldur að leita allra leiða til að vísa fólki burt.

Hvenær ætlið þið að hysja upp um ykkur og ákveða að nú sé nóg komið? Hvað eruð þið hrædd við?

Það þarf einbeittan brotavilja til að leiða hjá sér allar þær upplýsingar og viðvaranir sem liggja fyrir um að Grikkland sé alls enginn staður til að senda börn. Þar mótmæla bæði flóttamenn og heimamenn aðstæðum sem eru ömurlegar fyrir alla hlutaðeigandi. Um 40 þúsund manns búa nú í búðum sem reistar voru fyrir fimm þúsund manns. Fólk sefur í forinni undir berum himni, hefur engan stað til að ganga örna sinna og þarf að hafa sig allt við til að afla sér matar og annarra nauðsynja. Hvort þú færð læknisaðstoð fer eftir því nákvæmlega hvar þú ert staðsettur og hversu illa þú ert haldinn. Kallað er eftir því að búðirnar verði tæmdar, fólk flutt burt af eyjunum. En kerfið á meginlandinu er þegar sprungið. Allir virðast sammála um að aðrar þjóðir verði að gera meira en viljinn er ekki til staðar. Ekki heldur á Íslandi, þar sem rjóminn flæðir, ef marka má sjálfumglaða pólitíkusana.

Hvenær ætlið þið að hysja upp um ykkur og ákveða að nú sé nóg komið? Hvað eruð þið hrædd við? Fordæmisgildið? Að opna flóðgáttina? Hér er nóg af öllu fyrir þessi börn og miklu fleiri. Meirihluti ykkar hefur barist hatrammlega gegn auknu Evrópusamstarfi; það er svo gríðarlega mikilvægt að halda í sjálfstæðið. En til hvers að berjast fyrir sjálfstæði og sjálfræði ef maður ætlar ekki að nýta það? Nú er tímabært að grafa djúpt eftir mannúðinni og hætta að senda börnin til baka. Valdið liggur hjá ykkur. Ef sá tími kemur að við megum ekki við því að taka við fleirum, þá beitum við sama sjálfræðinu til að segja hingað og ekki lengra. Og þá getum við að minnsta kosti horft til baka, sagt að við höfum gert það sem við gátum, og átt góðan nætursvefn.

Lestu meira

Annað áhugavert efni