Mánudagur 9. september, 2024
3.3 C
Reykjavik

Tvær stuttar og ein löng

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frá því að ég fæddist og þar til ég sleppti heimdraganum um 13 ára aldur var sennilega hringt þrisvar sinnum í mig prívat og persónulega. Síma„númerið“ á Ökrum, þar sem ég sleit barnsskónum frá fimm ára aldri, var tvær stuttar og ein löng (· · −) og ekki man ég til þess að við krakkarnir hlypum til þegar svo bar við að síminn hringdi, enda yfirgnæfandi líkur á að síminn væri ekki til okkar, eins og sagt er. Síðar var settur upp skífusími í sveitinni við mismikla ánægju fólks sem í henni bjó, enda gamli sveitarsíminn uppspretta upplýsinga og slúðurs. Einnig áttu menn til að halda línunni (þá var um að ræða raunverulega línu, sem nefnist símalína og ku vera til enn en er lítt sjáanleg) upptekinni á meðan þeir tefldu skák eða tvær á milli bæja.

Gamli sveitarsíminn var í raun Facebook síns tíma, á öllum bæjum sem tengdir voru símalínunni var vitað hvert væri verið að hringja þegar símtólið gaf frá sér hljóð.

Það sem enginn mátti komast á snoðir um var alls ekki rætt í símann, en aftur móti var hægt að koma, beint eða óbeint, skilaboðum og skoðunum á framfæri eins og hverjum hugnaðist.

Allt að einu. Unglingsárin komu og fóru hjá mér án þess að ég fyndi þörf fyrir að ganga með síma á mér, enda hefði símtól þess tíma orðið æði þungur baggi að bera og auk þess verið ótengdur.

Á mínum fullorðinsárum var einn sími á heimili mínu; skífusími (sem gat virkilega fengið mann til að funa upp ef maður setti fingur í rangt gat á skífunni þegar númer var „slegið inn“, síðar takkasími og að lokum þráðlaust símtól, sem lá í þar til gerðri laut á „móðurborðinu“ megnið af tilveru sinni.

Þegar ég var um þrítugt ruddi sér til rúms farsími, þá gat fólk sem hafði efni á hlaupið með símann út um allar koppagrundir, en sá böggull fylgdi skammrifi að „móðurborðið/rafhlaðan“ var á stærð við flugfreyjutösku og sennilega mun þyngri. Til að bæta gráu ofan á svart kostaði drjúgan skildinginn að hringja úr fyrirbærinu, en vissulega var um að ræða stöðutákn sem sýndi að burðardýrið átti mikið undir sér og var afar mikilvægt í samfélagi manna.

- Auglýsing -

Handhægir farsímar komu síðar á markaðinn, en ég þráaðist við enda búinn að fjárfesta í þessum líka fína símsvara sem sinnti símhringingum sem mér bárust á heimili mitt í minni fjarveru. Þess ber að geta að þá tíðkaðist alla jafna ekki að hringja í heimasíma fólks frá klukkan 8 til 18 á virkum dögum, enda yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi væri í vinnunni.

Fyrsti farsíminn minn var af Siemens-gerð, afar lítill, handhægur og lummó því einhver Nokia-tegund var þá málið. Siemens-síminn minn var svo lummó að sonur minn vildi ekki einu sinni fá hann gefins!

Í dag gengur fólk um með risastóra „síma“ og hver veit nema þau tæki verði brátt jafnfyrirferðarmikil og gömlu skífusímarnir. Þessi nýjustu tæki geta gert allt og hægt er að gera nánast allt með þeim, fólk er reyndar meira eða minna hætt að tala í þau.

- Auglýsing -

Síminn veit hvar maður er, heyrir það sem maður segir þótt hann eigi að vera „sofandi“ og sendir þær upplýsingar til einhvers helstirnis sem enginn veit hver á. Síðan dúndrar hann á mann efni, óumbeðinn, sem annaðhvort skal lesa eða horfa á. „Blöðin“ eru lesin, horft á fréttir og samfélagsmiðlar nýttir til hins ýtrasta; hvernig klósettpappír er best að nota?, hvert fer maður í klippingu? o.s.frv.

Ég nota snjallsímann minn til að tala í, reyndar eins lítið og ég get því mér leiðist að tala í síma. Ég á það til að „gleyma“ honum heima þegar ég bregð mér af bæ.

Tíðum þá sakna ég gamla sveitarsímans og vinalegu hringingarinnar · · −

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -