2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Umhverfismál eru ekki hlaðborð

Undanfarna mánuði hafa talsmenn sjókvíaeldis á laxi við Ísland státað sig reglulega af lágu kolefnisfótspori framleiðslu sinnar. Á sama tíma láta þeir hins vegar alveg vera að minnast á að sjókvíaeldið er ekki aðeins veruleg ógn við umhverfi og lífríki Íslands heldur er velferð eldisdýranna ömurleg í þessum iðnaði.

Mögulega fara sjókvíaeldisfyrirtækin eftir ráðgjöf almannatengla í þessari spunamennsku, töluverður fjöldi þeirra er í vinnu fyrir þennan stóra iðnað, þau leita að minnsta kosti ekki ráða hjá umhverfisverndarsamtökum. Umhverfismál eru nefnilega ekki hlaðborð þar sem þú getur bara valið það sem hentar þér best og horft fram hjá rest.

Ónefndur ungur umhverfisverndarsinni rammaði þetta vel inn í spjalli við mig fyrr í vetur þegar hann sagði, „við þurfum að horfa á umhverfismál eins og steinbrú, ef við tökum einn stein í burtu þá hrynur brúin.“

Eins og skólp frá 1.136.000 manns

AUGLÝSING


Skoðum þá aðeins steinana sem vantar í málflutning talsmanna sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Sjókvíaeldi á laxi byggir í grunninn á frumstæðri tækni sem hefur ekkert breyst frá því farið var að ala fisk í sjó. Sjókví er nú sem fyrr netpoki sem hangir í fljótandi grind. Í hverri kví eru allt að 200 þúsund fiskar og ein sjókvíaeldisstöð samanstendur yfirleitt af nokkrum kvíum. Þannig er feikilegum fjölda fiska haldið á sama stað í langan tíma. Fyrir neðan kvíarnar hleðst upp gríðarlegt magn af úrgangi enda streymir hann viðstöðulaust gegnum netmöskvanna.

Samkvæmt upplýsingum sem mátti finna á vefsíðu Landssambands fiskeldisstöðva rennur frá hverju tonni í laxeldi úrgangur sem er á við „klóakrennsli frá 8 manns“. Þessar upplýsingar eru reyndar ekki lengur aðgengilegar á síðu Landssambandsins. Þær hurfu þaðan þegar bent var á hversu svakaleg mengunin er. Voru þetta þó afar varfærnar tölur, eins og við var að búast frá svona hagsmunagæslusamtökum. Samkvæmt Umhverfisstofnun Noregs er mengunin frá hverju tonni tvöfalt meiri. Það þýðir að ef ráðist verður í allt það 71 þúsund tonna eldi sem burðarþols- og áhættumat Hafrannsóknastofnunar heimilar við landið, mun árlega streyma mengun frá því sem jafnast á við eina milljón, eitt hundrað þrjátíu og sex þúsund manns! Það er meira en þrefaldur fjöldi íbúa Íslands.

Þessi mengun er samsett úr úrgangi frá fiskunum og fóðurleifum en líka af skordýraeitri og lyfjafóðri sem er hellt beint opinn sjó kvíanna í baráttunni við laxalús (skætt sníkjudýr sem lifir á laxinum). Þennan eiturefnahernað sagði framkvæmdastjóri eins af stóru sjókvíaeldisfyrirtækjunum vera „eðlilegan þátt í laxabúskap“ í samtali við fréttastofu RÚV.

Það er vægast sagt öfugsnúið að á sama tíma og sveitarfélög um allt land eyða tugum milljarða við að bæta frárennslismál sín fái að viðgangast að þessi mengandi starfsemi láti allt frárennsli vaða beint í sjóinn örstutt frá strandlengjunni.

30 milljón norskir eldislaxar gegn 50 þúsund villtum íslenskum

Og þá að næsta steini sem vantar: Ógninni við lífríki Íslands. Ef verður af 71.000 tonna laxeldi í sjókvíum munu að minnsta kosti 30 milljón frjóir eldislaxar verða í kvíum við Ísland. Til að setja þá tölu í samhengi er talið að hrygningarstofn íslenska villta laxastofnsins sé um 50 þúsund fiskar.

Samkvæmt tölfræði frá Noregi má gera ráð fyrir að einn fiskur sleppi úr hverju tonni í eldi. Sé miðað við það hlutfall munu á hverju ári sleppa 71 þúsund eldislaxar í hafið við Ísland. Það er hrikaleg tala en engu að síður mjög varfærin, því þetta er bara 0,2 prósent af þeim fiski sem á að geyma í kvíunum.

Hluti af þessum sleppifiski mun óhjákvæmilega leita upp íslenskar ár og á endanum tímgast með villta íslenska laxinum. Og hvað er slæmt við það? kann einhver að spyrja. Jú, eldislaxinn er af norskum stofni sem hefur verið ræktaður kynslóðum saman sem hraðvaxta húsdýr. Rannsóknir í Noregi sýna að þegar eiginleikar eldisfisksins blandast villtum stofnum minnkar geta þeirra til að komast af í náttúrunni og afkoma stofnsins dregst saman. Til dæmis minnkar ratvísin og þyngd blendinganna getur komið í veg fyrir að þeir nái að stökkva upp flúðir og fossa til að komast á hrygningarstaði ánna.

Vísindamenn benda á að hættan sé enn meiri hér því eldisstofninn er norskur að uppruna. í Noregi er lagt blátt bann við notkun á laxastofnum frá öðrum löndum í fiskeldi. Ár er nú liðið frá því síðast var látið reyna á það bann en þá ítrekaði norska umhverfisráðuneytið að ekki kæmi til greina að flytja inn skosk-norsk laxahrogn.

„(Villti stofninn í Noregi) hefur nú þegar orðið fyrir neikvæðum áhrifum frá norskum eldislaxi sem hefur sloppið úr eldi. Erfðablöndun við framandi gen munu auka þessi neikvæðu áhrif,“ sagði Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs, þegar bannið var staðfest í fyrra.

Um 20 prósent eldisdýranna lifa ekki af vistina í sjókvíunum

Í ársbyrjun 2018 sagði Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, það vera brýnasta verkefni norsks laxeldis að stemma stigu við gríðarlegum laxadauða í iðnaðinum. Árið áður höfðu 53 milljónir fiska drepist áður en hægt var að koma þeim í vinnslu. Sama magn hafði drepist 2016 og ráðherranum var ofboðið. Sjókvíaeldisfyritækin lofuðu bót og betrun. Í febrúar á þessu ári sendi Norska dýralæknastofnunin frá sér svarta skýrslu um stöðu heilbrigðismála í fiskeldi þar sem kemur fram að ekkert gengur að ná tökum á þessum gríðarlegu fiskidauða.

Það er kaldranalegt til þess að hugsa að sjókvíaeldisfyrirtækin geri beinlínis ráð fyrir í rekstrarplönum sínum að 20 prósent eldisdýranna lifi lekki af þann aðbúnað sem þeim er boðið upp á. Ekki nokkur manneskja sem stundar prótínframleiðslu á landi myndi sætta sig við við slíka búskaparhætti.

Góðu heilli fer sá hópur mjög hratt vaxandi sem gerir kröfu um að matvara sé framleidd í sem mestri sátt við umhverfi sitt og með mannúðlegum hætti. Sjókvíaeldi á laxi á stórum skala er harðneskjulegur iðnaðarbúskapur. Hafið það bak við eyrað í næstu búðarferð.

Mynd / Skjáskot úr Undir yfirborðinu, heimildarmynd Þorsteins Joð, sem var sýnd á RÚV í fyrra. 

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni