Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Vitskert veröld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannkynið er ólíkindatól. Á örfáum mánuðum hefur tilvera stórs hluta fólks um víða veröld farið gjörsamlega á hvolf. Við trúðum því að farsóttir á borð við spænsku veikina og svarta dauða heyrðu fortíðinni til og nútímaþekking og tækni tryggði að engin slík plága gæti komið upp. Svo kom kófið og lamaði heimsbyggðina. Enn og aftur stóðum við andspænis vanmætti okkar til að hafa stjórn á daglegu lífi okkar. Sóttkví og innilokun varð hluti tilveru milljóna manna. Ferðalög milli landa voru útilokuð nema í undantekningartilvikum. Allt var breytt þá mánuði sem við vorum í kófinu.

Það er fleira en plágur sem plaga mannkynið. Við trúðum því kannski að heimsstyrjaldir væru að baki og leiðtogar nútímans hefðu til þess þroska að halda styrjöldum og átökum í lágmarki. Þriðja ríkið og öll sú óáran sem fylgdi því var smám saman hluti liðinnar tíðar sem enginn trúði að kæmi aftur. Við trúðum því að aldrei aftur kæmust slíkir vitfirringar til valda. Raunin er sú að við höfum ekkert lært. Heimsveldi leikur á reiðiskjálfi vegna leiðtoga sem er á mörkum þess að vera með fullu ráði. Í Bandaríkjunum loga eldar ófriðar og forsetinn hellir stöðugt bensíni á bálið. Rasismi veður uppi og nær til litla Íslands þar sem slík ómenni vaða uppi og mæra þá sem níðast á minnihlutahópum.

Samskipti Bandaríkjanna og Kína eru við frostmark. Forseti Bandaríkjanna hikar ekki við að stöðva fjárveitingar til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, á tímum þegar lífsnauðsynlegt er að stofnunin hafi sem mesta aflið. Við trúðum því að aldrei aftur yrði ástand eins og í seinni heimsstyrjöldinni þar sem viðurstyggileg eyðilegging og dráp milljóna manna átti sér stað. Nú blasir við raunveruleg hætta á því að heimsfriðurinn verði rofinn og átök af áður óþekktri stærðargráðu brjótist út. Við sem trúðum því að tilveran væri í tiltölulega föstum skorðum.

Íslendingar hafa ekki mikið um það að segja hvernig stórveldin haga sínum málum. Við getum aðeins stigið dans jafnvægis milli heimsveldanna og reynt að tryggja að þjóðin komist sem best af við verstu mögulegu aðstæður. Það gerum við með því halda stríðandi öflum fjarri og að stefna að sjálfbærni á sem flestum sviðum. Við hljótum að hafna öllu hernaðarbrölti heima fyrir. Herskipahöfn í Helguvík á ekki að koma til greina fremur en önnur endurkoma Bandaríkjamanna á Suðurnesjum. Okkar litla lóð á vogarskálarnar á að fara í það að hafna slíku brölti og stuðla sem mest og best að friði.

En við þurfum að huga að framleiðslu innanlands. Farsælast er að þjóðin verði sjálfri sér næg um sem flest sem snýr að matvælum. Óróleikinn í heiminum kann að verða að beinum stríðsátökum fyrr en varir. Þá lokast landið rétt eins og í kófinu. Þeir sem héldu að friður væri sjálfsagður í okkar heimshluta vaða í villu og svima.

Leiðtogar sem einskis svífast vaða uppi og skemma allt sem fyrir er. Þeir sem áður voru álitnir traustir bandamenn eru stórhættulegir. Orðheldni er ekki til og siðferði í stjórnmálum hverfandi. Við búum í vitskertri veröld þar sem ekkert er lengur öruggt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -