Miðvikudagur 27. mars, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Ráðherrann og blóraböggullinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þorvaldur Gylfason prófessor nýtur virðingar og trausts langt út fyrir landsteinana. Af þeirri ástæðu bauðst honum staða ritstjóra við norræna tímaritið Nordic Economic Policy Review. Ráðningin var frágengin þegar það kom babb í bátinn. Fjölþjóðleg stjórn útgáfunnar reyndist ekki einhuga. Íslenska fjármálaráðuneytið mótmælti ráðningunni á þeim röngu forsendum að Þorvaldur hefði pólitíska vigt sem fyrrverandi formaður stjórnmálahreyfingar.

Fjármálaráðuneytið svaraði fyrirspurn vefritsins Kjarnans á þann veg að stuðst hafi verið við rangar upplýsingar á Wikipedia-síðu þar sem segir að Þorvaldur hafi verið formaður Lýðræðisvaktarinnar. Hið rétta er að hann hætti í stjórn flokksins í október árið 2013. Það var Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur fjármálaráðherra, sem sendi hinar fölsku upplýsingar til nefndarinnar og brá þannig fæti fyrir prófessorinn íslenska. Fullyrt er að Ólafur Heiðar, lágt settur starfsmaður ráðuneytisins, hafi ekki haft samráð við sjálfstæðismanninn Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra eða aðra í yfirstjórn ráðuneytisins með það sem gæti verið mannréttindabrot. Líklegt er að starfsmaðurinn eigi að verða blóraböggull til að hlífa ráðherra sínum við að verða stimplaður af þeirri svívirðu sem átti sér stað. Ráðherrann tjáði sig um málið á Facebook og ítrekar að hann hafi ekki verið upplýstur um málið eða hafður með í ráðum en segist samt bera á því fulla ábyrgð.

„Af þessu tilefni minni ég á að starfsmenn ráðuneyta starfa í umboði og á ábyrgð ráðherra. Þótt ekki séu öll samskipti borin undir mig ber ég á þeim ábyrgð og í þessu tilviki endurspeglast vilji minn um að tilnefna hvorki né samþykkja Þorvald Gylfason til þessara starfa …,“ segir Bjarni og ítrekar andstöðu sína við að Þorvaldur fái starfið sem feli í sér að skýra sameiginlega sýn Norðurlandaþjóðanna á efnahagsmálum svæðisins. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn hugmyndafræðinga Sjálfstæðisflokksins, hæðist að málinu á Facebook-síðu sinni og telur Þorvald ekki eiga erindi í stöðuna. Málið er sem sagt hápólitískt.

„Mun Katrín Jakobsdóttur forsætisráðherra láta framgöngu samstarfsráðherra síns óátalda?“

Hannes Hólmsteinn er mun umdeildari prófessor en Þorvaldur er á sínu sviði. Ef litið er yfir feril fræðimannsins Þorvaldar Gylfasonar staldra menn við einlægan áhuga hans á að efla lýðræði með breytingum á stjórnarskrá. Hans helsta pólitíska þátttaka var með Lýðræðisvaktinni sem stofnuð var til að fylgja eftir samþykktum stjórnlagaþings, sem Þorvaldur sat, um nýja stjórnarskrá.

Fáir efast um vit hans á efnahagsmálum og getu til þess að túlka stefnu ríkja í þeim málaflokki. Ónákvæmnin af Wikipedia sem fjármálaráðuneytið beitti í andstöðu sinni við prófessorinn eru til marks um að núverandi stjórnvöld svífast einskis til að berja niður andstæðinga sína. Framganga fjármálaráðherra og undirsáta hans hlýtur að vera samstarfsflokkum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn alvarlegt íhugunarefni. Ríkisstjórnin er skipuð öflum frá ysta vinstri um miðju og til hægri. Mun Katrín Jakobsdóttur forsætisráðherra láta framgöngu samstarfsráðherra síns óátalda?

Um áratugaskeið hefur það loðað við flokkinn að hafa skipað lágt metna og getulitla gæðinga sína til opinberra starfa. Skipan dómara hefur verið sérstakt áhugamál flokksins. Þar hafa vinir og frændur komið við sögu. Guðmundur Andri Thorsson, alþingismaður Samfylkingar, hefur krafist þess að fjármálaráðherra mæti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og svari fyrir ritstjóramálið. Það er full ástæða til þess að Alþingi fari yfir málið og veiti, ef efni standa til, ráðherra þá lexíu sem hann á skilið. Sá tími hlýtur að renna upp að við tökum fyrir þá pólitísku spillingu sem opinberast í þessu máli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -