Reykingar mjög heilla rafta |

Reykingar mjög heilla rafta

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Höfundur / Anna Kristjánsdóttir

Með stolti get ég sagt að ég reyki ekki, en samt ekki mjög fordómafull gagnvart reykingamönnum sem þó sýna mér þá tillitssemi. Flestir fara út á svalir til að reykja í stað þess að reykja inni hjá mér. Slíkt kæmi vel á vondan því ég var stórreykingamanneskja í 30 ár en hætti fyrir tæpum tveimur áratugum síðan, nánar tiltekið 6. ágúst árið 2000 klukkan 15:00 á 25 ára afmæli dóttur minnar.

Af hverju hætti ég klukkan 15:00? Svarið við því er einfalt. Ég hafði mánuði áður gert mér áætlun um að hætta þennan dag klukkan 12:00, en þegar kom að stundinni átti ég enn hálfan pakka af sígarettum og ég gat bara ekki hugsað mér að hætta að reykja með öll þessi verðmæti í höndunum. Því kláraði ég pakkann og hætti svo að reykja.

Af hverju rifja ég þetta upp hér? Um daginn flutti vinkona mín inn til mín og hún reykir. Hún sýnir mér þó þá tillitssemi að fara út á svalir til að fá sér smók en fær sér enga sígarettu að afloknum ástarleikjum sambúðarinnar. Með öðrum orðum, þá er hún ekki jafnslæm og ég var þegar ég var upp á mitt besta eða versta eftir því hvernig á það er litið.

Þó koma gamlar reykminningar upp í hugann og ég stend mig að því að horfa löngunaraugum á rauðan Marlboro í hillunni þegar ég kaupi Benson&Hedges handa sambýliskonunni, en eins og gefur að skilja á sígarettutegundinni er hún ekki íslensk.

Í dag hugsa ég með hryllingi til áratuganna sem ég reykti og hvernig ég reyndi að eyðileggja heilsuna með reykingum. Ég rifja upp tíma sem ég var blönk og þurfti að velja á milli þess að kaupa sígarettur eða mat og að sjálfsögðu valdi ég sígaretturnar framyfir enda var ég grindhoruð öll árin sem ég reykti. Ég rifja upp samverustundir sem fólki sem valdi sígarettuna framyfir heilsuna og tapaði, fyrst heilsunni og síðan lífinu.

Vorið 2000 fann ég að ég nálgaðist þennan mikilvæga endapunkt heilsunnar, reykingahóstann og þyngsli fyrir brjósti. Þá kom ætluð frænka mín inn í líf mitt, bandarísk kona af íslenskum ættum. Linda var barnabarnabarn Helga Helgasonar trésmiðs og tónskálds með meiru (Öxar við ána?). Ég hafði kynnst henni á spjallrásum internetsins í árdaga þess, en hún kom til Íslands snemmsumars ársins 2000 og persónuleg kynni af konu sem var illa haldin af lungnaþembu urðu til þess að ég ákvað að hætta reykja og stóð við það. Sjálf lést Linda árið 2006 langt fyrir aldur fram, yndisleg manneskja sem féll fyrir sígarettunni.

Síðan þetta var hefi ég margsinnis farið á Esjuna, Fimmvörðuháls, Laugaveginn, Selvogsgötuna, flest fjöll á suðvesturhorni Íslands. Þetta hefur ávallt verið erfitt. Um leið og ég slaka á verða ferðirnar enn erfiðari. Ég finn að ég var búin að skemma lungun varanlega, en um leið geri ég mér grein fyrir því að hefði ég ekki hætt að reykja sumarið 2000, væri ég ekki á lífi í dag.

Lífið er yndislegt, takk sé Lindu Lyon.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira