Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sæbarðir sjómenn að baki Vigdísi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er níræð í dag. Vigdís er á meðal mikilvægustu einstaklinga í sögu Íslands. Hún er eina konan sem hefur gegnt embætti forseta Íslands og gerði það með glæsibrag svo eftir var tekið víða um heim. Þá var hún einstætt foreldri sem einhverjum þótti skringilegt varðandi þjóðhöfðingja sem þyrfti á stuðningi maka að halda. Hún lagði mikið að mörkum til þess að nálgast jafnrétti kynjanna. Hún ruddi brautina fyrir aðrar konur til áhrifa.

Einn stærsti áhrifavaldurinn varðandi framboð hennar var að áhöfnin á vestfirska togaranum Guðbjarti ÍS sendi henni skeyti með áskorun um að hún tæki slaginn. Grjótharðir og sæbarðir karlar lögðu upp aðförina að því gróna karlaveldi sem forsetaembættið var í þá daga. Vigdís tók slaginn og eftirleikinn þekkir þjóðin. Hún markaði sín spor og var sameiningartálkn þjóðar sinnar á sorgartímum jafnt og þegar jafnvægi og hamingja sveif yfir vötnum. Mörgum er í minni þegar snjóflóðin féllu á Súðavík og seinna á Flateyri með þeim afleiðingum að tugir fórust. Þá var Vigdís til staðar og sýndi samhug á raunastundum. Hún mætti í langflestar jarðarfarir fórnarlamba flóðanna. Þar sannaðist enn og aftur hve stórt sameiningartákn hún var þjóð sinni.

„Grjótharðir og sæbarðir karlar lögðu upp aðförina að því gróna karlaveldi sem forsetaembættið var.“

Vigdís hefur þann hæfileika að ná til fólks í blíðu sem stríðu. En hún er ekki skaplaus og hún átti það til að hvessa sig ef þurfti. Hún var skörungur í mörgu tilliti. Það óð enginn yfir hana.

Ungur nemandi átti sér þann draum að komast í starfskynningu til forseta Íslands og hafði samband við forsetaritara. Vigdís tók honum opnum örmum og hann fékk að vera í nálægð við hana í einn dag. Sjálfur átti ég erindi við hana vegna bókar um vinkonu hennar, Sonju Zorrilla sem hafði átt sumarbústað á Þingvöllum. Vigdís hafði keypt bústaðinn og taldi ekki eftir sér að fara í ökuferð á Þingvöll og fylla upp í sögu heimskonunnar með óborganlegum frásögnum. Þá skrifaði hún formála að bókinni.

Forsetatíð Vigdísar spannaði 16 ár. Það var í ýmsu tilliti góður tími í sögu þjóðarinnar. Auðvitað gekk á ýmsu á þessum tíma og ekki var allt óumdeilt í embættisverkum Vigdísar. Þrýst var á hana að hafna undirskrift laga og vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar má nefna EES-samninginn og lög sem sett voru á flugfreyjur í verkfalli. Hún afgreiddi mál eftir bestu samvisku og í samræmi við embættisskyldur sínar. En heilt yfir var ferillinn afar farsæll og sporin sem Vigdís markaði í jafnréttisbaráttunni munu verða sá minnisvarði sem heldur nafni hennar á lofti.

Níræð Vigdís er í fullu fjöri. Megi hún vera sem lengst á meðal okkar. Hún lýsir upp tilveru okkar og er sómi þjóðar sinnar. Til hamingju Vigdís og takk fyrir allt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -