Mánudagur 9. september, 2024
3.3 C
Reykjavik

Sjálfbært samfélag – Af hverju ekki sænska hippakommúnu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir nokkrum árum sat ég á stórri skrifstofu –  of stressuð miðað við aldur – og fann að eldurinn innan í mér var að slokkna. Umhverfið fannst mér hvorki lifandi né skapandi – og býsna alvarlegt. Í kjölfarið fór ýmislegt af stað innan í mér en meðal annars átti ég samtal við vin minn– að ef ég væri sett á eyðieyju kynni ég ekki neitt. Búa til eld. Veiða til matar. Rækta garð. Byggja hús. Ef ég færi eitthvað áfram í Survivor var ljóst að það væri á eljunni og hjartanu einu saman – ekki á kunnáttunni. Fljótlega eftir þetta fór ég að skoða lifnaðarhætti samfélagsins, hver er drifkrafturinn og komst að raunum um flest er drifið af efnahagslegum forsendum. Peningar eru tæki en þeir eru ekki hugsjónin sjálf, hvers virði eru allir peningar heimsins ef innri vellíðan og friður eru ekki fyrir hendi?

Formaður stjórnmálaflokks lét þau orð falla fyrir nokkru að lausnin á loftslagsvandanum væri ekki að búa í sænskri hippakommúnu. Eftir að hafa tekið betur utan um hippann í hjartanu mínu fann ég mig á öndverðu meiði: af hverju ekki að búa í hippakommúnu? Ekki endilega áherslan á frjálsar ástir, eiturlyf og rokk og ról – en hipparnir höfðu klárlega margt til síns máls. Líkt og áherslu á kærleik, frið og samhyggju. Ekki á efnahagslegan vöxt og neyslu. Margs konar hugleiðingar vöknuðu í kjölfarið t.d. að ráð væri að styðja fleiri sjálfbær samlífsheimili og hverfi inn í borginni t.d. með skipulagi og/eða beinum fjárhagslegum ívilnunum.  Ekki bara þétta byggð – heldur búa þéttar í hjartanu. COVID veiran hefur svo stutt ennfrekar við þennan sannleik.

Hlýnandi jörð opinberar hægum skrefum að lifnaðarhættir okkar eru ekki sjálfbærir. Við tökum mun meira en við gefum frá jörðinni og virðum ekki hringrás náttúrunnar. Við í vestrænum löndum og nú raunar á fleiri svæðum í heiminum neytum of mikið í öllum skilningi – bæði hvað varðar mat og keyrslu – búum í of stórum húsum sem sumpart safna drasli. Þetta drasl er gjörsamlega óþarft og heldur orku okkar fastri frekar en að frelsa. Margar fjölskyldur eiga marga bíla. Matvöruverslanir eru líklega með jafn mikið af umbúðum og matvöru og svona má lengi telja. Þá er matarsóun með ólíkindum – um 40% er hent á meðan hluti heimsins sveltur. Sjálf hef ég stundað að fara í gáma og ná í mat hér á landi – einungis í tilraunaskyni – og það er með ólíkindum hversu miklu er hent sem er nýtanlegt. Á sama tíma má velta fyrir sér hamingjustiginu í öllum þessum allsnægtum. Mjög margir eru ofkeyrðir, með kvíða eða þunglyndi. Höfum við nýtt tæknina t.d. til að hægja á og vinna minna? Svarið er nei. Ótrúlegt en satt – þrátt fyrir þær sorgir sem COVID fylgja – hefur hún í för með sér tímann fyrir bróðurpart samfélagsins –  slökunina, pásuna – sem þarf til til að hugsa og sjá fyrir sér hvernig megi gera hlutina öðruvísi.

Þrátt fyrir að loftslagsvandinn verði ekki að öllu leyti leystur með kommúnulífi er það mjög athyglisverð spurning: Hvað þýðir að búa í kommúnu? Í fyrsta lagi býrðu í mun meira návígi við fólk og því meiri nánd. Líklegt er að fólk hafi ólíka þekkingu og styrkleika. Húsnæði nýtist betur og kostnaður minni á hvern einstakling. Samhyggja er efld enda þarf að taka mun meira tillit til fólks í slíku samlífi, tala þarf um það sem kemur upp og leysa. Sjálfbær kommúna felur ennfremur í sér að takmarka sorp og nýta allt vel, minnka neyslu og varðveita opin rými. Hér koma inn hugmyndir eins að rækta sjálf matvöru sem og að vera með t.d. hænur og önnur dýr. Í dag eru til mörg slík heimili út í heimi sem iðulega eru nefnd„ecovillage“– eins konar lífræn þorp þar sem horft er til þess að skapa samlíf sem krefst ekki mikilla samgangna, þar sem vinnurými eru heima, þjónusta í göngufæri og sjálfbærni þeirrar samfélagslegu einingar er mikil.  Sömu hugmynd má í raun færa yfir á hverfi.

Ég er spennt fyrir að búa í kommúnu – sjálfbærri kommúnu. Kommúnan er deilihagkerfið í einfaldri mynd. Mig langar að rækta grænmeti, vera með dýr –jafnvel landnámshænur– og það er mun auðveldara að gera slíkt í hóp en sem einstaklingar. Mig langar til að fara inn í samræðurnar sem kunna að vera óþægilegar enda annað fólk stærsti spegilinn – býr til heilun og tækifæri til að fara á dýptina sem er ómetanleg. Þá er hugmyndin um kjarnorkufjölskylduna – hjón með 2 börn – alls ekki veruleikinn sem við búum í í dag og um þriðungur samfélagsins búa sem einstaklingar. Við höfum gott af því að deila saman hlutum – að fara úr þessu aðgreiningarsamfélagi þar sem allir eiga eigin grill, eigin bíl og svo framvegis og finna lausnir til að deila þessu í auknu mæli.

Sjálfbær samfélög og einingar – hippakommúnur ef fólk vill orða það svo – er hugsanlega ekki fyrir alla, en það er frábær hugmynd sem er vel þess virði að skoða betur og byggja á. Slík hugmynd er alls ekki ný af nálinni. Homo sapiens bjó við þau skilyrði í árþúsundir en finna má milliveginn og nýta framþróun mannsins og tækni sem tól inn í slíkt samlíf en ekki kompássinn. Þar sem áherslan er að lifa í samræmi við hringrás náttúrunnar og í jafnvægi – en ekki á vöxt og söfnun.

- Auglýsing -

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -