Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Skipstjórinn sem elskaði karfann sinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjaðrafokið vegna Samherja og RÚV er síst í rénum. Eigendur sjávarútvegsrisans hafa náð að beina kastljósinu frá mútumálinu í Namibíu og að eldgömlu máli sem snýst um innri verðlagningu félagsins á karfa og meinta lækkun í hafi. Tvö myndbönd hafa verið birt á Youtube í því skyni að upplýsa að fréttamaðurinn Helgi Seljan sé þrjótur og falsfréttamaður. Leigumaðurinn Þorbjörn Þórðarson, fyrrverandi fréttamaður, er kallaður á dekk ásamt fyrrverandi lögreglumanni með skrautlega fortíð. Enginn fjölmiðill með snefil af fagmennsku trúir áburðinum. Herferðin er dæmd til að mistakast og skoðast sem klámhögg.

En hverjar eru þær sakir sem reistar voru á Samherja í Kastljósi og innan Seðlabankans. Samherji er sakaður um að selja sjálfum sér fisk á milli landa á undirverði og hlunnfara sjómenn og koma sér undan skattgreiðslum heima á Íslandi. Þessi aðferð er þekkt á meðal eigenda auðlindarinnar sem sumir hverjir svindla á vigt við útflutning og koma sér upp sjóðum erlendis. Þannig er samkomulag á milli seljanda og kaupanda um að bretti af saltfiski til Spánar er sagt vera mun léttara en raun ber vitni. Faldi hlutinn er greiddur inn á leynireikning í skattaskjóli. Þarna er ekki um að ræða Samherja heldur minni spámenn sem braska með erlendum kaupendum. Þetta er sama aðferðin og notuð var af nokkrum bílainnflytjendum sem fengu sinn skerf af kökunni með því að falsa innflutningsskýrslur. 100 bílar á skýrslum voru í raun 70. Nýlegt dæmi er um slíkt þar sem upp kom erfðadeila vegna falinna fjársjóða í skattaskjólum. Tekið skal fram að Samherji hefur ekki verið sakfelldur fyrir neitt slíkt. Enda er galdurinn þar ekki falinn í viðskiptum óskyldra aðila. Samherji situr allt í kringum borðið.

Tökum dæmi af togarafarmi. Samherjaskip kemur að landi á Austfjörðum með fullfermi af karfa sem ætlunin er að flytja ferskan í gámum til Þýskalands. Útgerðin ákveður að fast verð á aflanum til skipta sé 220 kr. á kíló. Þá eiga sjómenn eftir að taka þátt í kostnaði við útflutninginn. Eftir standa innan við 200 kr. á kíló. Fiskverkandi á staðnum, ótengdur Samherja, vill kaupa aflann á 320 kr. kílóið á bryggjunni sem myndi þýða að sjómaðurinn fengi tæplega 50 prósent hærri laun. Skipstjórinn hefur samband við sinn mann hjá Samherja með tilboðið góða. Hann bregst reiður við og segir skipstjóranum að vera ekki að skipta sér af því sem honum komi ekki við. Tilboðinu á Seyðisfirði er því hafnað. Karfinn fer yfir hafið þar sem Samherjafyrirtæki tekur við honum á hinum endanum. Verðmiðinn er 220 krónur á kíló. Þeir eiga og mega. Skipstjórinn, sem elskaði karfann sinn og vildi sem hæst verð fyrir hann, var á villigötum. Samherjamálið hið fyrra snýst um brask af svipuðu tagi en í öðrum útfærslum. Lækkun í hafi. En munum að sekt Samherja er ekki sönnuð fremur en sakleysið.

Hinir og þessir fótgönguliðar hafa stigið fram til varnar og sóknar. Ekki kemur á óvart að Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor telur Samherjamenn saklausa. Fræðimaðurinn hefur fengist við sumt í gegnum tíðina sem gefur vísbendingar um að hann sé ekki dómbær á það hvað er rétt og hvað er rangt. Brynjar Níelsson alþingismaður hefur einnig hjólað í meinta andstæðinga Samherja. Á hinum vængnum hefur Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður stigið fram. Svavar er ómyrkur í máli þegar hann lýsir Samherjamönnum sem illmennum.

„Það á að hræða fjölmiðla, blaða- og fréttamenn frá því að fjalla um myrkraverk Samherja,“ skrifar Svavar. Ekki er víst að Helga Seljan eða RÚV sé mikið gagn af slíkum stóryrðum Svavars sem er eiginmaður Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks og yfirmanns Helga.

Það er mikilvægt að allir haldi ró sinni og láti ekki draga sig á asnaeyrunum út í umræðu sem ætlað er að þrífa mestu óþrifin af æru Þorsteins Más Baldvinssonar og fyrirtæki sem svo sannarlega átti sitt blómaskeið, réttum megin við lög og rétt.

- Auglýsing -

Samherji hefur gert það að stórmáli að karfaskýrsla/skjal/minnispunktar Verðlagsstofu Sjávarútvegsins sem Helgi Seljan byggði umfjöllun á finnist ekki og sé jafnvel ekki til. Mannlíf upplýsir í dag að skjalið er í vörslu Seðlabankans. Kallað verður eftir því með öllum tiltækum ráðum. Svo getum við hætt að ræða um tittlingaskít og snúið okkur að kjarna málsins sem felur í sér meintar mútur Samherja á erlendri grundu og framferði sem gerir þessa menn að þjóðarskömm, ef rétt reynist. Umfram allt er mikilvægt að varpa ljósi á framferði Samherjamanna og láta dómstóla skera úr um sekt eða sýknu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -