Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Sorrí

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég fór einu sinni á veitingastað í Kaupmannahöfn með nokkrum vinum. Á næsta borði sat hávær hópur heimamanna. Desíbelin jukust með hverjum drukknum bjór og loks stóð einn gestanna upp og rakst nokkuð harkalega í stólbak við okkar borð. Settist svo aftur og hélt áfram neyslu sinni. Frábært, hugsuðum við. Fórum eiginlega að hugsa okkur til hreyfings.

Nokkrum sekúndum síðar, sneri hann sér við, stóð upp, gekk að okkur og sagði: „Sorrí, afsakið þetta!“ Um leið og hann rétti upp höndina eins og bakvörður sem viðurkennir fyrir dómaranum að það hafi verið hann sem þrumaði boltanum út af.

Eftir það hélt veislan áfram, nágrannarnir voru jafnháværir og áður, hlátrasköllin jafnfyrirferðarmikil, drykkjan sú sama. En eitthvað hafði breyst. Þeir virkuðu ekki jafnógnandi og áður. Andrúmsloftið varð allt annað og afslappaðra.

Það er ótrúlegt hvað eitt lítið „sorrí“ getur gert. Eitt lítið „fyrirgefðu“ getur leyst upp eitrað andrúmsloft á sama hátt og uppþvottalögur leysir upp fitu. Miðað við galdramátt þessa orðs er í raun ótrúlegt hvað við eigum það til að nota það sparlega. Eins og við gefum eitthvað eftir með því viðurkenna mistök og biðjast afsökunar. Af hverju? Hefur einhvern tímann verið sagt um nokkurn mann: „Hann var fínn gaur – en sagði fyrirgefðu aðeins of oft?“

Á fundi síðastliðinn þriðjudag samþykkti borgarstjórn nýjar siðareglur borgarfulltrúa. Reglurnar samanstanda af ellefu stuttum setningum sem eru einfaldar, jafnvel barnalegar, gæti einhver sagt. Ein uppáhaldsreglan mín á listanum er regla nr. 10: „Við biðjumst afsökunar á mistökum og hlýðum á afsökunarbeiðnir.“

Það er gaman með fólki sem getur sameinast um að hafa þetta að leiðarljósi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -