2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Stofustress

Sjaldan hafa Íslendingar dvalið eins mikið heima við og veturinn 2020 sem verður lengi í minnum hafður og er nú þegar kominn á spjöld sögunnar. Fólk hefur fundið sér ýmislegt misskemmtilegt til dægrastyttingar en margir hafa ráðist í framkvæmdir á heimilinu, það geta starfsmenn bygginga-, gólfefna-, málningar- og húsgagnaverslana staðfest. Einhverjir hafa eflaust drifið í því sem hafði verið í bígerð í langan tíma og svo eru það hinir sem áttuðu sig á því hversu mikilvægt er að hafa umhverfið sem við dveljum löngum stundum í vistlegt. Ég stóð sjálfa mig að því að fara aftur á fullt að rækta plöntur sem ég hafði að mestu leyti lagt á hilluna, ekki vegna áhugaleysis heldur sökum hins alræmda nútímavandamáls, tímaskorts. Það þarf jú að hugsa vel um plöntur svo þær þorni ekki upp en það gerðist trekk í trekk hjá mér. Núna nostra ég við hverja plöntu og er farin að fá afleggjara aftur hjá vinkonunum sem ég hitti auðvitað bara með tveggja metra millibili, með vel sprittaðar hendur.

Heimili þurfa að vera notaleg og þau þarf að nota. Þegar ég ólst upp var stofan ekki hluti af leiksvæði mínu, hún var spari og við krakkarnir fengum bara að vera þar með sérstöku leyfi og þegar gesti bar að garði. En ég mátti að vísu fara í stofuna til að smella plötu á fóninn ef ég gekk vel um. Í hvert sinn sem ég opnaði glerskápshurðina til að næla mér í Brunaliðið var ég svo hrædd um að óhreinka skápinn að ég tosaði peysuna fram yfir puttana og kom þannig í veg fyrir kámfar. Um leið og tónlistin var komin á fullt gleymdi ég mér við að dansa um fallegu stofuna, það var gaman. Við krakkarnir í götunni sóttum í að vera á þeim heimilum þar sem ýmislegt mátti og það var ekki dauðasynd að tylla sér í stofunni með gospillu í munninum og dást að fallegum hlutum en þessi heimili voru þó í minnihluta. Mér er sérstaklega minnistætt eitt mjög settlegt heimili þar sem við máttum eiginlega ekki einu sinni horfa á stofuna. Vinkona mín sem átti heima þar tautaði í sífellu, með herptar varir og angist í augum, að við mættum ekki snerta þetta og ekki hitt og ekki koma nálægt stofunni, borðstofunni, eldhúsinu eða sjónvarpshorninu, við máttum þakka fyrir að mega fara á klósettið í þessu fína húsi. Ég man að stressið gagnvart heimilisfíneríinu lá einhvern veginn svo sterkt í loftinu að mér fannst ég vera í hálfgerðu fangelsi og ef lagið Frelsið er yndislegt, með hljómsveitinni Nýdönsk, hefði verið komið út hefði ég eflaust sungið það í hvert sinn sem ég yfirgaf þetta hús.

Nýverið dvaldi ég í orlofssumarbústað og þar sem þetta var í lok vetrar var ýmislegt farið að láta á sjá. Ein skápshurð hafði farið á límingunum, sófarnir aðeins að byrja að verða máðir og festingarnar á heita pottinum úr sér gengnar svo fátt eitt sé nefnt. Í fyrstu varð ég svolítið pirruð en fór svo að velta þessu aðeins meira fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að það er eðlilegt að hlutir láti á sjá eftir ákveðinn tíma, það sýnir að þeir eru notaðir og til þess eru þeir einmitt ætlaðir. Ég held að minningarnar sem hafi orðið til í þessum bústað séu æði margar sem er ánægjulegt. Það er eðlilegt að þurfa að dytta að og laga með reglulegu millibili í híbýlum þar sem er líf og fjör og allir standa í ströngu við að búa til góðar og glettnar minningar.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum