Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Það sem skiptir máli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Ingu Sæland

Aldrei hefði ég trúað því að óreyndu að ég ætti eftir að lifa þá tíma sem nú fara í hönd. Við mætum ósýnilegum óvini sem lagt hefur alla heimsbyggðina á hliðina. Veira sem svífur um á meðal okkar og drepur þau sem eru veikust fyrir. Eina ráðið gegn henni felst í samtakamætti okkar sjálfra. Þessi heimsstyrjöld verður ekki unnin með herkænsku færustu herforingja. Þeir standa jafnráðþrota gagnvart henni og við hin.

Á svona einstæðum tímum er ástæða til að staldra við og hugleiða af einlægni, hvað skiptir okkur öll mestu máli. Nú þurfum við að standa saman öll sem eitt og gæta þess að enginn verði skilinn út undan.

Íslenska ríkisstjórnin hefur ráðist í margar mikilvægar björgunaraðgerðir fyrir fyrirtækin í landinu. Hundruðum milljarða þar sem enginn veit lokatöluna, á að dæla út í lífæðar samfélagsins. Berjast verður gegn algerri botnfrystingu og langtíma efnahagshruni. Spyrna verður við fótum svo við séum tilbúin að keyra okkur upp á ný að loknum sigri á þessari andstyggðar styrjöld við veiruna.

Þetta get ég fallist á. Um leið er ég þó verulega ósammála því hvernig komið er fram við almannatryggingaþega, láglaunafólk og tugi þúsunda fólks sem misst hefur vinnuna og er nú komið á atvinnuleysisbætur. Hugsið ykkur, að á sama tíma og þetta blasir við, þá þykir það sjálfsagt mál að dæla hundruðum milljóna í einkarekna fjölmiðla í eigu auðmanna sem sumir eru beintengdir við stjórnmálaflokka. Það er hins vegar eins og maður sé að taka á þingmeirihlutanum með glóandi töngum, þegar beðið er um hækkun á atvinnuleysisbótum og hækkun á strípuðum greiðslum frá almannatryggingum.

Grátlegt er, að á sama tíma og það þykir sjálfsagt að hækka laun þingmanna og æðstu embættismanna meðan við erum í miðju auga stormsins, þá þykir jafnsjálfsagt að fátækasta fólkið í landinu haldi áfram að lepja dauðann úr skel. Frá áramótum hefur gengi krónunnar gagnvart dollar fallið um 17%. Það þarf engan speking til að sjá á hverjum það bitnar helst. Vitanlega á neytendum og um leið þeim sem áttu ekki fyrir salti í grautinn fyrir COVID-19 faraldurinn og hvað þá nú.

- Auglýsing -

Allt bendir til að verðbólgudraugurinn muni æða af stað með skelfilegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu. Verðtryggð lán þeirra munu þá margfaldast eins og svo margir fengu að reyna í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þar brunnu yfir tólf þúsund heimili á verðbólgubálinu. Fjölskyldurnar voru bornar út á götu.

Fjármálaráðherra og seðlabankastjóri hafa báðir sagt að það sé lítil sem engin hætta á að verðbólgan gjósi upp. En almenningur er löngu hættur að trúa fagurgala stjórnmálamanna. Enda er fólk brennt eftir gjaldborgina sem um það var reist eftir hrun á sama tíma og skjaldborgin var reist um fjármálastofnanir og peningamenn, þá hina sömu sem settu okkur á hausinn.

Það er lágmarksvirðing við fjölskyldurnar og heimilin í landinu að frysta verðtryggingu neytendalána svo að öryggi þeirra sé tryggt. Við verðum að setja belti og axlabönd á fleira en fyrirtæki í landinu. Hér býr líka fólk.

- Auglýsing -

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -