Fimmtudagur 18. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Þeir drepa stéttarfélag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einhver svæsnasta árás síðari tíma á íslenskt stéttarfélag stendur yfir þessa dagana. Stjórnendur Icelandair hafa ekki náð samningum við flugfreyjur sínar og afgreiða þær einfaldlega með því að reka þær allar og setja stéttarfélag þeirra á svartan lista. Í einföldu máli þá lýkur deilunni þannig að annar aðili deilunnar leggur hinn niður. Þeir drepa stéttarfélag. Þetta er óboðlegt í siðuðu samfélagi og einkennist af fantabrögðum sem sjást sjaldan hjá málsmetandi fyrirtækjum. Það má ekki gerast að fyrirtæki þaggi niður verkalýðsfélag í kjaradeilu eða verkalýðsfélag leggi niður fyrirtæki við þær aðstæður.

Stjórnendur Icelandair afgreiða flugfreyjurnar, sem enn starfa hjá félaginu, eins og brotlega einstaklinga. Þeim er gert að skila búningum og vinnutækjum fyrir mánudagsmorgun þegar þeim er gert að yfirgefa vinnustöðvar sínar. Þær eru í raun reknar með skömm þegar Bogi Nils Bogason forstjóri nennir ekki lengur að þrefa við samningaborðið.

Önnur ljót hlið á málinu er sú að samstarfsfólk flugfreyjanna, flugmenn, hafa fallist á að ganga í störf þeirra. Einhvern tímann hefði þetta verið afgreitt sem aumingjaskapur. Venjan er sú að þegar kjaradeilur standa yfir þá standa stéttir og verkalýðsfélög saman. Oft er það með hlutleysi en stundum með samúðarferkfalli. Flugmenn Icelandair velja þá leið að gerast flugfreyjur í aukastarfi og fá til þess nokkra daga í þjálfun. Félag þeirra, FÍA, þegir þunnu hljóði og leyfir hlutunum að gerast svona. Aftakan á flugfreyjunum fer fram í þögn. Stéttarvitundin og samúðin með vinnufélögum í krísu er engin. Þvert á móti. Eins dauði verður annars brauð og þeir svíkja vinnufélaga sína fyrir þá skildinga sem falla af borðum vinnuveitandans. Blóðpeningar, er það sem kemur í hugann.

Andstæðuna við þessa framgöngu mátti sjá þegar undirmenn á ferjunni Herjólfi fóru í verkfall. Útgerð Herjólfs brá á það ráð að taka gamla skipið í notkun og sniðganga þannig undirmennina sem eru í löglega boðuðu verkfalli. Yfirvélstjóra skipsins ofbauð fantaskapurinn og hann neitaði að sigla. Skipstjórnarmennirnir lögðust aftur á móti í duftið og aðstoðuðu vinnuveitandann til að pönkast á undirmönnum. Í báðum þessum tilvikum er um að ræða lægstlaunuðu stéttirnar sem barðar eru niður af fádæma hörku með hjálp vinnufélaganna. Heggur sá er hlífa skyldi.

Erfiðar og sumpart ómögulegar samningaviðræður eru sagðar ástæða þess að Bogi, með fulltingi lífeyrissjóða og annarra eigenda Icelandair, fer þessa leið að leggja niður stéttarfélag. Það kann vel að vera að flugfreyjur hafi verið óbilgjarnar við samningaborðið og jafnvel þvermóðskufullar. Það réttlætir ekki þennan níðingshátt. Nær hefði verið, að öllu öðru fullreyndu, að vísa málum í gerðardóm eða setja beinlínis lög á deiluna. Síðan gætu flugfreyjur gert upp sín mál innbyrðis líkt og Icelandair þarf að gera innan sinna raða.

Sjaldan veldur einn þá tveir deila. Staðan á milli samningsaðila er á ábyrgð beggja. Og svartur á leik. Víðtæk samúð verkalýðshreyfingarinnar innanlands og erlendis, að frátöldum flugmönnum, getur orðið til þess að Icelandair verði lagt niður. Félagið er háð því að almenningur setji í það fjármuni í gegnum ríkissjóð og lífeyrissjóðina. Icelandair þarf umfram allt á því að halda að almenningi þyki vænt um það. Stjórn Icelandair skyldi hafa það hugfast að engum þykir vænt um böðulinn, sem tekur að sér að drepa stéttarfélag.

- Auglýsing -

Aftakan á stéttarfélaginu er slíkur smánarblettur á félaginu að erfitt eða jafnvel ómögulegt verður að breyta þeirri ímynd. Icelandair á afkomu sína og jafnvel líf sitt undir og verður að biðja flugfreyjur afsökunar og finna aðra leið en þá að ráðast á kvennastétt. Engin samtök launafólks eða sjóðir í eigu þeirra geta látið þetta viðgangast.  Allt siðað og hugsandi fólk verður að sýna flugfreyjunum samstöðu. Þetta mál verður að koma til kasta Alþingis.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -