Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Þið munið hann Ástþór

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir liggur að óbreyttu að þjóðin gengur til forsetakosninga 27. júní. Valið stendur á milli núverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar og athafnamannsins Guðmundar Franklíns Jónssonar. Nokkuð hefur borið á reiði vegna þess að efnt sé til kosninga á milli vinsæls forseta og umdeilds einstaklings sem ekki eigi minnstu möguleika á því að ná kjöri. Það er skiljanlegt sjónarmið ef litið er til þess að kosningarnar munu kosta að minnsta kosti 300 milljónir króna og virðast snúast um að svala metnaðargirnd manns sem lítil eftirspurn er eftir. Vandinn er hins vegar sá að lýðræði verður aldrei metið til fjár. Þjóðin verður að stíga þennan dans og axla þá ábyrgð sem felst í því að halda úti lýðræði.

Kosningar eru sjálfsagðar á meðan einhverjir eru í kjöri. Kröfur til frambjóðenda eru samkvæmt stjórnarskrá að 1.500 manns skrifi upp á sem meðmælendur. Þessi tala er allt of lág og býður upp á að lukkuriddarar fari í framboð án þess að hafa til þess innistæðu. Eðlilegra væri að frambjóðandi til embættis forseta Íslands skilaði að minnsta kosti 15 þúsund meðmælendum. Sá hópur myndi gefa til kynna hvort viðkomandi eigi erindi í framboð og traust til að gegna virðulegasta embætti þjóðarinnar. Þetta er stóri gallinn sem gerir fólki kleift að stíga á stóra sviðið án þess að áhorfendur hafi minnsta áhuga.

Það hefur gerst á síðari tímum að fólk sem ekki á erindi á Bessastaði hefur boðið sig fram í fullkominni blindu á getu sína eða erindi í æðsta embætti þjóðarinnar. Sumir lukkuriddaranna hafa ítrekað tranað sér fram til að komast í kastljósið. Þið munið hann Ástþór. Aðrir hafa komið sér í fjölmiðla með örfylgi og enga raunhæfa von um að ná kjöri. Þeir þrá umfram allt athygli og fá hana vegna galla í kosningalöggjöfinni. Auðvitað eru dæmi um frambærilegt fólk sem tekið hefur slaginn og haft til þess nauðsynlega verðleika og boðlega fortíð. Niðurstaðan úr síðustu forsetakosningum réðst eftir að málsmetandi fólk með breiðan stuðning bauð sig fram og niðurstaða fékkst. Flestir úr þeim hópi höfðu burði til þess að gegna því embætti að vera samnefnari þjóðarinnar.

Kosningarnar í ár verða fremur sirkus en barátta. Himinn og haf skilur að forsetaefnin tvö. Annar er sitjandi forseti með flekklausa fortíð sem fræðimaður og rithöfundur. Forsetinn hefur reynst vel í embætti og verið heiðarlegur. Þannig hefur hann viðurkennt að hafa gert ákveðin mistök þegar barnaníðingur fékk uppreist æru. Það er virðingarvert af forsetanum að viðurkenna undanbragðalaust mistök sín. Hinn er umdeildur viðskiptamaður sem valdið hefur sumum skaða. Hann hefur ítrekað reynt fyrir sér í stjórnmálum en verið hafnað af kjósendum. Smáflokkur hans, Hægri grænir náði ekki manni á þing. Bakland hans er rakið til þess bergmálshellis sem Útvarp Saga heldur úti.

Íslendingar hafa verið heppnir með forseta sína. Sú hætta er þó alltaf fyrir hendi að kjósendur falli fyrir fagurgalanum og kosinn verði einstaklingur sem fæstir vilja sem fyrirmynd og getur alls ekki verið samnefnari. Þar nægir að líta til Bandaríkjanna. Þjóðin situr uppi með forseta sem gerir út á lægstu hvatir fólks. Þar komst viðskiptamaður til valda á vængjum popúlismans. Í komandi kosningum verða kjósendur að hafa það hugfast að ekkert er sjálfgefið. Almenningur verður að nýta kosningarétt sinn og tryggja að embætti forseta Íslands verði skipað af einstaklingi sem sómi er að. Kjósendur mega ekki sofa á vaktinni og eiga þann eina möguleika að greiða atkvæði og láta þannig í ljós vilja sinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -