• Orðrómur

„Þvílík forréttindi að hlakka til hvers dags í starfinu sínu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Höfundur: Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

 

Dýrmætið okkar Vigdís Finnbogadóttir sagði einu sinni; „sjálfri finnst mér sjálfsvirðing vera grundvöllur allra gilda. Sjálfsvirðing og þekking á umgengnisreglum þjóðfélagsins, lýðræðisins, hlýtur að vera besta gjöfin að heiman og úr skólanum”.  Þetta er fallega skrifað hjá okkar konu, djúpvitur og gefandi sem hún er og auðvelt að taka undir hvert orð. Sjálfsvirðing er upphafið að þeirri manneskju sem við höfum að geyma. Allt okkar líf veltur á því hvernig við sjáum okkur sjálf, skiljum okkur og aðra, höfum mörk í samskiptum, berum virðingu fyrir sjálfum okkur, samferðafólki okkar og náttúrunni. Því ígrundaðri sem sjálfsmyndin okkar er, því skýrari sýn fáum við á lífið, finnum innri styrk, aukum vellíðan okkar og verðum farsælli manneskjur.

Allir nemendur ættu að fá þá gjöf í menntun sinni, að auka sjálfsvirðingu sína og verða þannig að heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingum, virkari borgurum, með ríkari forsendur til lýðræðislegrar hugsunar. Eitt af grunngildum okkar er lýðræðið, og það þarf að rækta og næra í gegnum skólakerfið. Lýðræðið er bæði hugsun, hegðun og aðferð sem við byggjum samskipti okkar og samfélag á.

Til þess að ná árangri með manngildismenntun að leiðarljósi má nota ýmsar aðferðir, en alltaf þarf að efla og þjálfa gagnrýna hugsun nemenda. Við erum líklega öll sammála um að aldrei áður hefur verið eins mikilvægt fyrir okkur að vera vopnuð og þjálfuð í gagnrýnni hugsun, hafsjórinn af upplýsingum sem á okkur dynur alla daga og mikið af flóðinu eru ósannindi, rangfærslur og útúrsnúningar. Þannig verður oft ómeðvituð inntaka fólks af allskyns drasli daglegt brauð, sem er óheillavænleg þróun fyrir okkur öll og grefur auk þess undan lýðræðinu. Gagnrýna hugsunin gerir okkur hæfari að taka ígrundaðri og siðlegri ákvarðanir í daglegu lífi auk þess sem við öðlumst réttsýnni viðhorf.

Kennslustofan þarf að vera öruggt rými og lýðræðislegt, þar sem kennari ber umhyggju fyrir nemendum sínum og þau upplifa sig hafa rödd og að á hana sé hlustað. Næmni fyrir fjölbreytileika og mismundandi bakgrunni nemenda er mikilvægt fyrir hvern kennara að hafa í farteskinu til að ná til þeirra og námið skili sér. Að beita gagnrýnni hugsun með opnu samtali, þar sem nemendur viðra skoðanir sínar og rökstyðja þær, er valdeflandi fyrir nemendur. Hugsunin verður skýrari, tengslin við innsæið sterkari og sköpunin meiri.

- Auglýsing -

Menntakerfið gegnir lykilhlutverki í öllum samfélögum. Það ætti að vera forgangsmál stjórnvalda hverju sinni að efla, næra, styðja og vera bakhjarl skólakerfisins og stuðla þannig að vandaðri menntun sem skilar virkum, valdefldum einstaklingum, samfélaginu öllu til heilla.

Mín mesta lukka í lífinu er að hafa orðið kennari – þvílík forréttindi að hlakka til hvers dags í starfinu sínu, fá andlega næringu og geta haft jákvæð áhrif á hjartalag nemenda og hugmyndir þeirra er ómetanleg upplifun og reynsla.

Að starfið mitt sé mín lífsins hugmyndafræði, áhugamál og vettvangur sem þroskar mig og gerir að betri manneskju hvern dag.

- Auglýsing -

Það er bókstaflega mannbætandi að vera kennari.

 

Smelltu hér til að lesa allt um málið í brakandi fesku helgarblaði eða flettu því hér fyrir neðan:

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -