Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Þyngdist um fimm kíló í útgöngubanni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Anna Kristjánsdóttir

Þegar útgöngubannið tók gildi hér í hjáleigum Spánarhrepps fyrir rúmum tíu vikum síðan gat ég ekki hugsað mér að flýja frá Paradís til Íslands og þótt ég ætti bókað flug til heimahaganna fimm dögum síðar, var þegar útséð með að ég kæmist ekki til baka á áætluðum tíma, meðal annars vegna niðurfellingar flugs. Ég velti þessu fyrir mér og niðurstaðan varð sú að fara hvergi og reyna að þrauka útgöngubannið sem átti að vera í tvær vikur og læra af reynslunni. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig en tókst samt.

Það var ekki gaman að horfa á hátalarabíla fara um göturnar og tilkynna öllum að halda sig heima og það var ekki gaman að horfa á hertrukkana fara um göturnar og nánast leita uppi fólk sem reyndi að svíkjast undan svo ekki sé talað um leitina að manninum sem brotnaði andlega og lagðist til sunds og ætlaði að synda til meginlandsins (ég bý uppi á fimmtu hæð við helstu aðalgötu bæjarins þar sem sést vítt til allra átta).

Mér leið eins og gömlum smyglara þegar ég lánaði íslenskri fjölskyldu tóma ferðatösku svo þeim tækist að taka föggur sínar með sér til Íslands í flugi sem var skipulagt af utanríkisráðuneytinu, en leið þó betur er ég fór heim aftur með áfengisbirgðir umræddrar fjölskyldu enda telst slíkt á mínu sérsviði frá þeim árum er ég stundaði innflutning á slíku til Íslands á mínum farmennskuárum.

Ekki gekk alltaf svona vel. Kúbversk vinkona mín ákvað að koma til mín á þeim tíma sem harkan var sem verst í útgöngubanninu, en var gripin af hernum og ég þurfti að leysa hana út með 300 evrum, en fékk hana samt ekki afhenta, heldur var hún send heim aftur í næsta hrepp. Síðar gerði hún aðra tilraun til þess sama, en var gripin öðru sinni og fékk þá 1500 evru sekt og aftur þurfti ég að punga út talsverðum fjármunum svo hún þyrfti ekki að gista dýflissuna. Að öðru leyti gekk allt vel. Ég mátti fara í búðina og í apótekið og taka út úr hraðbankanum fyrir húsaleigunni og sektunum, en sólböðin fengu að bíða betri tíma.

Loks eftir átta vikur fór aðeins að létta til. Heimild kom til að hreyfa sig utandyra tvisvar á dag og veitti ekki af. Ég hafði þyngst um fimm kíló í útgöngubanninu. Tveimur vikum síðar var frelsið aukið enn frekar og fólki gefið frelsi til að fara á ströndina þó með ákveðnum takmörkum, en sundlaugagarðar voru enn lokaðir. Fyrsta daginn sem slíkt var leyft streymdi fólk á ströndina og fólk nýtti sér tækifærið óspart. Klukkan 18.00 voru allir reknir upp úr og dugðu ekki minna en lögregluþyrlur til að reka fólk heim af ströndinni.

- Auglýsing -

Á árum áður heyrði ég oft um útgöngubönn í tengslum við óeirðir og styrjaldir, en aldrei á friðartímum. Nú er ég búin að prófa slíkt á eigin skinni og er reynslunni ríkari. Nú veit ég hvernig þetta er og þakka almættinu fyrir að hafa komist í gegnum þetta ástand með sálarlífið í lagi.

Ég er samt enn náhvít eftir rúmlega tíu vikna útgöngubann á Tenerife.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -