Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Tröllið sem stal lýðræðinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Undanfarin fjögur ár hefur Donald Trump,  forseti Bandaríkjanna, borið þess öll merki að hann sé lýðskrumari af versta tagi og alls ekki starfi sínu vaxinn sem leiðtogi öflugasta ríkis heims. Nýjasta rósin í hnappagat forsetans er að hafa hvatt til  innrásar óþjóðalýðs í þinghúsið í Washington þar sem innrásarfólki tókst að rjúfa þingfund.

Hvert hneykslismálið af öðru hefur skekið Hvíta húsið en án honum tókst að standa allt af sér. Trump hefur rekið fólk úr sínum innsta hring ef honum mislíkaði.  Hann hefur reynt með þvingunum að fá leiðtoga annarra ríkja til að beita réttarkerfi sínu gegn pólitískum andstæðingum og koma þeim á hné. Hann hefur reynt að misnota stofnanir lands síns í eigin þágu. Hann reyndi í frægu símtali að fá ráðamenn í Georgíu til að breyta úrslitum í forsetakosningunum. Ótal mál  sem lýsa siðleysi sturlaðs manns er að finna frá ferli Donalds og verða vonandi gerð upp þegar hann fer úr Hvíta  húsinu.

Það átakanlega er að stór hópur af fólki sem á að  teljast með fullum sönsum hefur fylgt honum á feigðarflaninu. Margur hefur stungið höfði sínu í sandinn og látið kjaftavaðal og svívirðingar forsetans yfir sig ganga. Margir muna hvernig Trump talaði til Hillary Clinton þegar þau kepptu um forsetaembættið. Dólgsháttur Donalds var með eindæmum. Hann uppnefndi frambjóðandann og öskraði að hún og maður hennar ættu að vera í fangelsi. Í liðinni kosningabaráttu lét hann eins við Joe Biden og gaf til kynna að hann væri með elliglöp eða eitthvað af þeim toga og réði ekki við embættið. Fúkyrðin voru allsráðandi og málefnaleg umræða víðs fjarri. Enda fór svo að Trump tapaði kosningunum.

Það alvarlega er að nær helmingur bandarískra kjósenda fylgir Trump á braut sem ekki getur talist vera annað en fasismi sem drifinn er áfram af lýðskrumi. Aðdáunin á Trump nær til Íslands. Davíð Oddsson, ritstjóri þess gróna dagblaðs Morgunblaðsins, hefur hvað eftir annað upphafið Trump og rægt Joe Biden, verðandi forseta, Bandaríkjanna. Í leiðara dagsins gefur Davíð til kynna að Joe Biden hafi verið geymdur niðri í kjallara í kosningabaráttunni, ófær um að svara spurningum sjálfur. Davíð er sjálfur fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og nokkur þungi í þeim óhróðri sem  hann lætur frá sér fara í garð erlends þjóðarleiðtoga.  Í leiðaranum segir að Donald Trump sé nú dáðasti maður Bandaríkjanna og hafi verið  lagður í einelti allt kjörtímabilið. Eru þetta skilaboðin sem  Íslendingar vilja senda þeim sem  hvatti til árásar á hjarta lýðveldisins í Bandaríkjunum? Eru þetta skilaboðin sem við viljum senda rasistunum sem ruddust um stræti Washingtonborgar og inn í sjálft þinghúsið undir hvatningarópum fráfarandi forseta sem sagðist elska ofbeldisfólkið. Eigendur og ritstjórn Morgunblaðsins eiga að skammast sín fyrir að upphefja mann sem traðkar á  öllum lýðræðishefðum. Og við hin skulum skammast okkar fyrir Moggann sem heldur fána Trump hátt á lofti og vegur að heiðri verðandi þjóðarleiðtoga, arftaka Trumps.

Að margra mati er Donald Trump einfaldlega sturlaður maður sem þolir ekki að tapa. Hann hefur engin haldbær rök fyrir því kosningasvindli sem hann sakar Demókrata um að hafa viðhaft. Enginn málsmetandi maður eða stofnun hefur fallist á ásakanir sitjandi forseta. Samt heldur hann áfram að ljúga því upp að kosningunum hafi verið stolið. Þjófurinn í sögunni er forsetinn. Trump er tröllið sem stal lýðræðinu en vonandi aðeins um stundarsakir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -