2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Um hænur og aspas, og auðvitað Hatara

Síðast en ekki síst

Eftir / Óttarr Proppé

Risaeðlurnar misstu drottnunarstöðu sína á jörðinni og spendýraöldin hófst. Loks tók maðurinn við. Svo munar um. Heldur betur. Svoleiðis líka að ef ekkert breytist munu afleiðingar drottnunar mannsins stefna öllu lífi á jörðinni í hættu. Sem eru ömurlegar fréttir auðvitað fyrir allt og alla en ekki síst fyrir okkur sjálf.

Í metsölubókinni Sapiens eftir Yuval Noah Harari vitnar höfundurinn í sérfræðinga í útbreiðslu lífvera. Þeir segja að samkvæmt sínum mælistikum hafi maðurinn vissulega borið höfuð og herðar yfir aðra um þúsundir og tugþúsundir ára. En upp úr því að við fluttum úr sveit í borg, og fórum að stunda landbúnað til að fullnægja þörfum umfram lágmarksframfærslu, þá hafi önnur tegund tekið yfir á jörðinni. Sumsé hveitið. Mannkynið er í raun þræll hveitisins og leggur allt í sölurnar til að þóknast drottnara sínum.

Mér finnst þetta mjög hressandi pæling þótt hún tengist ekki snefil mínu lífi. Ég hneigist hvort eð er til ketólífsstíls, reyni að hafna hveiti og flytja undirgefni mína til annarra tegunda. Í dag þjóna ég frekar drottnunum hænu og aspasi. Eða hvað? Það er alltaf gott að staldra við og pæla hvað er að gerast, og hvað maður er, og hvað maður er að gera og hvernig það tengist umheiminum.

AUGLÝSING


Síðasti vetur var heldur leiðinlegur með atvinnuþrefi, eftirvæntingunni eftir örlögum Wow, „uppfyndingum“ Miðflokksins o.s.frv. Það var ansi hreint lýjandi að fylgjast með umræðu þar sem allir görguðu, staðfastir um fullkomleika eigin skoðana og síðan enn hærra af hneykslun á þeim sem dirfðust að vera þeim ekki sammála. Samræður á kaffistofum, samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og á Alþingi lutu höfði til að þóknast drottnurum sínum. Allt var ömurlegt. En síðan kom Evróvisjón og Hatari benti á að Hatrið muni sigra og við lutum höfði, fórum út að grilla og allir eru glaðir og bráðum kemur sumar.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is