Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Ungu fólki fórnað – aftur!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Halldóru Mogensen

Síðasti áratugur skilaði þjóðinni gríðarlegum hagvexti. En hagvöxtur er meðaltalsmæling. Aukinn hagvöxtur þarf ekki að þýða bættan hag allra landsmanna. Ungt fólk hefur fengið mun minna í sinn hlut en eldri kynslóðir, ávinningur þeirra af menntun fer minnkandi, húsnæðisverð hækkar og í gegnum námslánakerfið byrjar ungt fólk vegferð sína í mínus. Skyldi engan undra að ungt fólk í dag komi verst út úr rannsóknum á streitu, einmanaleika og óhamingju.

Ungt fólk stofnar einnig nú til dags fjölskyldu mun síðar en kynslóðir síðustu aldar. Þar spilar saman ótryggt atvinnuástand, sérstaklega fyrir ungt fólk, og fasteignaverð sem hækkar langt umfram það sem flestir geta lagt til hliðar í sparnað.

Í stað þess að takast á við alvöruvandann – skort á hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði – hefur ungt fólk verið hvatt til að nota séreignasparnaðinn sinn á útblásnum fasteignamarkaði til að steypa sér í skuldir.

Og ekki skánar ástandið á árinu 2020. Ísland, sem og önnur lönd heims, eru á leið í djúpa kreppu. Atvinnutækifæri þurrkast upp, sérstaklega fyrir námsmenn, og óvissan tekur við. Ríkisstjórnin hefur kynnt afskaplega takmörkuð atvinnutækifæri fyrir námsmenn og alls ekki nógu mörg til að tryggja þeim vinnu í sumar. Þeim er hins vegar heimilt að steypa sér í frekari skuldir með auknum námslánum eða eyða eigin lífeyrissparnaði. Sem sagt, taka lán frá framtíðarsjálfinu.

Ljóst er eftir innihaldslítinn blaðamannafund mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra um aðgerðir fyrir námsmenn að fjöldi námsmanna mun verða atvinnulaus í sumar. Neikvæðar afleiðingar þess eru vel þekktar í kjölfar hrunsins 2008. Kvíði, þunglyndi, lækkað sjálfsmat og brottfall úr námi. Við verðum að tryggja að slíkt hið sama gerist ekki nú og standa vörð um félagslegt og fjárhagslegt öryggi ungs fólks, um heilsu þess og framtíðarhorfur. Gleymum því ekki að menntun er grundvöllur nýsköpunar og nýsköpun er grundvöllur fjölbreytts atvinnulífs framtíðarinnar.

- Auglýsing -

Svarið er einfalt og blasir við, enda hafa forsvarsmenn stúdenta verið einstaklega duglegir við að benda á hið augljósa. Námsmenn verða að fá tækifæri til að sækja sér atvinnuleysisbætur í sumar! Þannig hlífum við þeim að minnsta kosti við fjárhagsáhyggjum til skemmri tíma.

Ef ríkisstjórnin gerir allt það sem hún hefur sagst ætla að gera mun kostnaðaraukinn verða enginn. Sumarstörf, sumarnám og aukning í Nýsköpunarsjóð námsmanna munu veita einhverjum námsmönnum tekjur í sumar. En er það ekki einhvers virði að létta á fjárhagsáhyggjum allra námsmanna strax? Sérstaklega ef fullyrðingar ráðherranna reynast sannar og það kostar ekkert?

Höfundur er þingflokksformaður Pírata.

- Auglýsing -

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -