2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Ævisagan mun heita 6,5 ævisaga meðalmanns og Sveppi mun leika mig“

  Halldór Gylfason leikari leikur í sýningunni Gosi sem frumsýnd verður í Borgarleikhúsinu sunnudaginn 23. febrúar. Þar bregður hann sér í hvorki meira né minna en sex hlutverk. Halldór segir leikhússtarfið það sem heilli hann mest og vera bæði fjölbreytt og skemmtilegt.

   

  „Ég er sögumaður, leik pabba Gosa, leik kisuna í tvíeykinu sem rænir Gosa, skólastrák og  krybbuna. Ég er með einhverjar fimm eða sex rullur. Síðan spila ég á fjögur hljóðfæri,“ segir Halldór. „Þetta er ferlega gaman að leika mörg og ólík hlutverk í sömu sýningunni, þar sem maður þarf að búa til raddir, breyta skrokknum og skipta um búning. Ég hef gaman af þessu.“

  Halldór, í einu af mörgum hlutverkum hans í Gosa. Mynd / Grímur Bjarnason

  Halldór leikur á sama tíma í Vanja frænda, verki sem er eins ólíkt Gosa og hugsast getur. Er ekki erfitt að leika tvö svona ólík hlutverk á sama tíma? „Þetta er æðislegt og það skemmtilegasta við leikhúsið, að vera í ólíkum verkefnum. Vanja er svona klassískur tékkneskur gamanharmleikur. Þegar ég er búinn í Gosa fer ég svo að æfa í leikverki sem nefnist Veisla, sem er sketsasýning, þar sem við leikararnir og leikstjóri ætlum að búa til leiksýningu sem fjallar um allar tegundir veislna, svo sem barnaafmæli, skírnarveislur, brúðkaup og útrásarvíkingapartí. Það er af ansi mörgu að taka og við ætlum að búa til skemmtilegt grínleikrit um þetta, sem verður frumsýnt í lok apríl. Þetta verður skemmtileg áskorun.“

  AUGLÝSING


  Halldór leikur einnig í kvikmyndinni Síðasta veiðiferðin, sem verður frumsýnd í byrjun mars. „Ég hef ekki leikið oft í bíómyndum, en svolítið í sjónvarpsverkefnum, bæði leikritum, Skaupinu og gamanseríum. Ég hef leikið í einni og einni bíómynd en þetta er það stærsta sem ég hef leikið í,“ segir Halldór sem útskrifaðist sem leikari fyrir 23 árum og hefur starfað í leikhúsinu síðan. „Leikhússtarfið er það sem heillar mig og er fjölbreytt og skemmtilegt.“

  3) Halldór í hlutverki sínu í Vanja frænda. Mynd / Grímur Bjarnason

  Ákvað ungur að verða leikari

  Hann ákvað ungur að verða leikari þegar hann var í skólaskemmtunum og segist alltaf hafa haft sig svolítið í frammi þar. „Ég fór einnig oft í leikhús með foreldrum mínum og svona 12-13 ára gamall varð ég alveg heillaður af leikhúsinu. Þá fór ég að gæla við að það væri gaman að vera leikari, þó að hand- og fótbolti hafi átt hug mig fyrst. En þegar ég var að byrja í menntaskóla tók ég ákvörðun um að komast í leiklistarskóla og það gekk eftir þó það hafi ekki gerst í fyrstu tilraun.“

  Í Menntaskólanum við Sund fór Halldór að leika í leikritum sem hann segir hafa verið stærri og meiri áskorun. Um tvítugsaldurinn byrjaði hann í hljómsveitum og hefur verið í Geirfuglunum í rúmlega 20 ár. „Við vorum bara að gefa út plötu og vorum að spila á Akureyri um síðustu helgi. Við spiluðum rosalega mikið á tímabili, svo flutti Freyr Eyjólfsson, vinur minn og meðlimur í bandinu, út fyrir sjö árum og síðan höfum við haldið þeirri hefð að spila einu sinni á ári og höfum spilað til dæmis í Flatey á Breiðafirði og á Berufirði. Nú er Freyr fluttur heim og við farnir að spila aðeins meira. Við ætlum nú að hafa útgáfupartí plötunnar svona með hækkandi sól.“

  Sjá einnig: Söngleikurinn Gosi frumsýndur á sunnudaginn

  Við vindum okkur í leikhússpurningar, níu spurningar á níu mínútum.

  Hvaða leikrit hefðir þú viljað skrifa?
  „Ég hefði gjarnan viljað skrifa Titus Andronicus eftir Shakespeare. Það er alveg klikkað leikrit, það er svo flott, en á móti kemur að ég hefði ekki fengið mikil höfundalaun fyrir það, því það er svo sjaldan sýnt.“

  Hvaða leikrit sástu fyrst?
  „Ætli það hafi ekki bara verið Grænjaxlar eftir Pétur Gunnarsson á Kjarvalsstöðum, þegar ég var um það bil sjö ára. Spilverk þjóðanna lék í því. Eða Dýrin í Hálsaskógi þegar ég var 5-6 ára. Ætli það hafi ekki verið þessi tvö.“

  Hvaða leikrit er eftirminnilegast og af hverju?
  „Eftirminnilegasta leikrit sem ég hef séð var 1981 í Þjóðleikhúsinu þegar Bessi Bjarnason lék aðalhlutverkið í Gustur sem byggt var á sögu eftir Leo Tolstoy. Bessi lék hest, en ævi hans er  fylgt eftir frá því hann er lítið tryppi og þar til hann endar ævi sína sem dráttarklár í kolanámu. Og hann upplifir margt á ævi sinni með rússnesku byltinguna sem baksögu. Þetta var svo eftirminnilegt, ég hafði bara séð Bessa í gamanleikritum og sem Mikka ref, en þarna var hann í dramatískri rullu, sem hestur. Samt ekki í neinum hestbúningi og þarna uppgötvaði ég galdur leikhússins að þú þarft ekki að fara í fullan búning til að breytast heldur getur látið áhorfendur samþykkja allan fjandann án þess að breyta einhverju heldur með því að nota sagnagaldurinn. Þarna var ég 11 ára og ég gleymi aldrei þessari sýningu.“

  Hvað mun leikritið um þig heita, hver mun leika þig  og hver mun skrifa handritið?
  „Ég held að Sveppi muni leika mig og ævisaga mín á að heita 6,5 ævisaga meðalmanns og best að láta annan skrifa en mig, vinur minn Hlynur Áskelsson, öðru nafni Ceres 4, mun skrifa handritið.“

  Hvert er uppáhaldsleikritið eða -karakterinn af þeim sem þú hefur leikið?
  „Þetta er orðið ansi mikið og margt. Sjeikspír eins og hann leggur sig, árið 2000 í Iðnó og Loftkastalanum þegar ég, Dóra Geirharðs og Friðrik Friðriksson lékum öll verk Shakespeare á tveimur klukkustundum. Það var líklega það skemmtilegasta sem ég hef gert í leiklistinni. Karakterinn væri hlutverk Þráins í And Björk, of course eftir Þorvald Þorsteinsson heitinn.“

  4) Halldór, Friðrik og Halldóra í hlutverkum sínum í Sjeikspír eins og hann leggur sig.
  Mynd / Skjáskot timarit.is Morgunblaðið 01.03.2000

  Er leikritið alltaf betra en bókin eða kvikmyndin?
  „Nei það er sjaldnast þannig, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Það getur gerst, en bókin er alltaf best í langflestum tilfellum. Það á ekki við um Gosa eða önnur slík klassísk verk, en þegar er verið að leikgera bækur, hvað þá kvikmyndir, þá er hending að leikhúsupplifunin verði betri en kvikmyndin eða bókin.“

  Hvaða hlutverk hefur kennt þér mest?
  „Ætli það sé ekki bara Góðir Íslendingar fyrir nokkrum árum þar sem ég lék karakterinn Pickup 52, sem er svona týpískur Íslendingur. Við vorum að búa til spegil af einhvers konar stemningu í samfélaginu eftir hrunið. Það hlutverk kenndi mér að hlusta og meðtaka og þurfa ekkert endilega að segja sögu af sjálfum mér í kjölfarið.“

  Hvaða leiktilvitnun finnst þér best og af hverju?
  „Það er setning í And Björk, of course, þar sem karakterinn minn sagði: „Það er um að gera að hafa gaman af þessu,“ segir Halldór og játar að sú setning geti átt við um allt, bæði leiklistina og lífið sjálft

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum