„Afi var mjög hvetjandi og uppbyggilegur og stóð með manni“

Deila

- Auglýsing -

Ragnar Bjarnason, Raggi Bjarna, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar fyrr og síðar, lést á líknardeild Kópavogs á þriðjudagskvöld eftir skammvinn veikindi, 85 ára að aldri. En Raggi var ekki einungis vinsæll söngvari, sem snerti hug og hjörtu samstarfsmanna og aðdáenda í áratugi, hann var einnig mikill fjölskyldumaður og lætur hann eftir sig eiginkonu, Helle Birthe Bjarnason, og fjóra ættliði af afkomendum, þrjú börn, Bjarna Ómar, Kristjönu og Henry Lárus, ellefu barnabörn, 15 langafabörn og tvö langalangafabörn.

 

„Hann var afi á sínum forsendum og alveg einstakur og natinn við sína afkomendur,” segir Þorgerður Anna Arnardóttir, barnabarn Ragga, dóttir Kristjönu. „Hann var orðinn afi 38 ára, þannig að hann kveikti kannski ekkert á því hlutverki þannig. Það er svo stutt kynslóðabilið í minni fjölskyldu, enda eru afi og amma mín yngri en tengdamóðir mín, segir Þorgerður og hlær.

Þorgerður Anna Arnardóttir
Mynd / Einkaeign

„Afi var mjög áhugasamur um það sem við vorum að gera og átti bara sinn þráð við hvert og eitt okkar, mjög hvetjandi og uppbyggilegur og stóð með manni. Það var líka gott að leita til hans og hann vissi líka að hann gat leitað til okkar. Afi var líka svolítið mikið prívat og ekkert að flagga fjölskyldunni út á við, en tók alltaf fagnandi á móti manni ef maður var á einhverju djammi,“ segir Þorgerður. „Ísak, eldri sonur minn, var að rifja upp hversu fáránlegt það er að vera nýfermdur og leyninúmerið á árshátíðinni í gaggó er langafi þinn.“

Skírnardagur Þorgerðar. „Held að ég hafi verið skírð í júlí og árið var 1972. Þau eru svo falleg þarna feðginin, mamma og afi með mig litla ljósið. Þarna er afi 38 ára,“ segir Þorgerður.
Mynd / Einkaeign

Fetað í fótspor langafa

Átta árum seinna þegar Einar Örn yngri sonur Þorgerðar var í sama grunnskóla, þá var Raggi fenginn til að vera með innslag í kynningarmyndbandi árshátíðar skólans. „Raggi fylgdi Einari Erni í fyrsta píanótímann hans, en Einar Örn er svona sá eini sem fylgt hefur í fótspor langafa síns. Hann söng og spilaði í Hörpu núna 1. september eftir hlé,“ segir Þorgerður og vísar þar til tónleikanna Raggi Bjarna kveður stóra sviðið, sem haldnir voru í Eldborgarsal.

„Einar Örn spilaði líka á tónleikunum í vor og þá sagði afi: „við þurfum aðeins að æfa þetta með sönginn,“ og þá hlógum við hérna heima, því þarna breyttist afi í pabba sinn, sem hafði víst ekki mikla trú á afa í fyrstu,“ segir Þorgerður og samsinnir blaðamanni með að oft breytumst við í foreldra okkar.

„Afi var ofboðslega stoltur af öllum barna- og barnabörnunum sínum, en Einar Örn er sá eini sem hefur fetað tónlistarbrautina,“ segir Þorgerður. Einar Örn sem er fæddur árið 1999, leggur stund á lögfræði í Háskóla Íslands og lærir á píanó hjá Sunnu Gunnlaugs í Tónlistarskóla Garðabæjar.

„Hann hefur spilað á píanó alveg síðan afi hans fór með hann til Ástvaldar Traustasonar og syngur mikið með. Afi kippti honum með upp á svið á Ingólfstorgi eitt árið, og það má sjá það atriði í heimildamynd. Einar Örn vissi ekki alveg hvað honum átti að finnast um það á sínum tíma, og sagði: „ég er nú bara unglingur.“

Einar Örn, átta ára, ásamt Ragga langafa sínum árið 2007. „Einar Örn hóf sitt píanónám hjá Ástvaldi Traustasyni og afi tók að sér að keyra kappann í tíma. Afi skrapp stundum eftir tíma með piltinn á Jómfrúna eða í annað dekur. Þessi mynd er tekin á fyrstu nemendatónleikunum vorið 2007,“ segir Þorgerður.
Mynd / Einkaeign

Að sögn Þorgerðar eru fleiri langafabörn Ragga farin að læra á hljóðfæri í dag, hjá bróður hennar eru tveir litlir farnir að læra, annar á píanó og hinn á saxófón, og systursonur hennar er farinn að læra sex ára á gítar. „Þannig að kannski verður einhvern tíma hægt að stofna hljómsveit með langafabörnum afa. Tónlistin stekkur aðeins yfir kynslóðir,“ segir Þorgerður, sem sjálf lærði á píanó um tíma. „Svo komu unglingsárin og gelgjan. Ég á gamla píanóið hans afa. Ég reyndi en maður þarf víst að æfa sig og ég var ekki með sömu hæfileika og hann, þannig að það þýddi ekki fyrir mig að gera þetta með hangandi hendi.“

En hvernig var að eiga afa sem allir þekktu?

„Maður þekkti bara ekki annað. En þegar afi kom í heimsókn var hann bara afi og það er fullt af fólki sem á dýrmætar minningar með honum, eins og þegar hann var að syngja við brúðkaup eða slíka viðburði. Hann söng í brúðkaupinu mínu og brúðkaupi sonar míns. Það voru reglulega stofutónleikar hérna heima þegar þau hjónin komu í kaffi eða mat, þá sátu þeir hérna, hann og Einar Örn, og spiluðu og sungu. Maður hóaði reglulega í hann í rjómaveislu, annaðhvort tertu með rjóma eða pönnukökur, hann gat svona stjórnað magninu þar, enda mikill rjómakall.

Undanfarin ár hafa þau hjónin verið hjá okkur á jóladag, svona „ellimannasamkoma“, tengdamamma kemur líka og tengdamamma mágs míns og það hefur bara verið kósí, gömul lög spiluð og sögustundir, maður bara þekkir ekkert annað,“ segir Þorgerður. „Það er dásamlegt að fá að vera samferða fólkinu sínu svona lengi. Það er svo stutt kynslóðabilið í minni fjölskyldu, eins og ég nefndi, og þá fylgir þessi fjársjóður með.“

Ísak tveggja ára, sonur Þorgerðar, ásamt Ragga langafa árið 1993.
Mynd / Einkaeign

- Advertisement -

Athugasemdir