Ásmundur Einar um fangelsin: „Á einhvern hátt það þyngsta í félagslega kerfinu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra, er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Fyrir nokkru síðan varð kúvending í lífi hans þegar hann ákvað að opna á áföll í æsku, sem höfðu legið eins og steinn í maganum á honum í gegnum allt lífið. 

Sjá einnig: Erfið æska Ásmundar Einars: „Algengt að það væri ofbeldi inni á heimilinu“

Í þættinum talar Ásmundur Einar líka um fangelsin í landinu:

„Fangelsin eru á einhvern hátt það þyngsta í félagslega kerfinu. Og þó að það séu einstaklingar þar inni sem eru á einhvern hátt siðblindir, þá er stærsti hlutinn af föngum einfaldlega strákar og stelpur sem er búið að brjóta þannig niður að það er eiginlega ótrúlegt að þau séu enn á lífi. Maður hugsar bara hvernig það hafi mátt gerast að enginn hafi aðstoðað þessa einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Ég hef sest niður með föngum af því að ég vil skilja aðstæður þeirra og ég hef meira að segja farið í ,,Svett” hjá Tolla Morthens með föngum og þar hef ég fundið það svo skýrt að það er enginn munur á mér og þeim. Þegar ég spjallaði við einn þeirra um hans sögu og mína fann ég mjög sterkt að það væri algjörlega tilviljunum háð að ég væri þar sem ég væri og hann væri þar sem hann væri. Þetta hefði alveg getað verið öfugt. Í fangelsunum er oft að sjá ljótasta endann á því þegar samfélagið hefur svikið börnin sín.”

Ásmundur Einar segir að tvennt hafi verið skrýtið fyrst um sinn eftir að hann varð ráðherra:

„Það sem mér fannst erfiðast við að verða ráðherra var aðallega tvennt. Annars vegar að tapa stjórnuninni á eigin tíma og vera allt í einu kominn með ritara sem á að halda utan um dagbókina manns. Mér finnst ég alltaf vera að flýja og fela mig frá ritaranum mínum til að það sé ekki tekin af mér of mikil stjórn. Hitt er svo að vera allt í einu með bílstjóra og mega ekki keyra sjálfur, en ég var fljótur að koma mér út úr því og keyra bara á bílaleigubíl. Það eru reglur um að ráðherrarnir séu með bílstjóra og fólkið í kring vildi ekki að ég væri að keyra sjálfur og alls ekki ráðherrabílinn. Þá bað ég bara um Skoda Octavia eins og túristarnir og það gekk eftir. Mér finnst best að keyra sjálfur, en bílstjórinn keyrir mig oft innanbæjar,“ segir Ásmundur og heldur áfram:

„Það er mikið tækifæri að fá að vera ráðherra í fjögur ár. Á einhverjum punkti áttaði ég mig á því að ég yrði að nota alla mína orku í að reyna að nýta þetta tækifæri sem best. Ég hef lært mikið í stjórnmálum og tekið þátt í alls kyns málefnum, en þetta er sá málaflokkur sem ég brenn fyrir og við erum komin lengra en ég hefði þorað að vona á þeim tíma sem ég hef setið í embætti.“

Í þættinum talar Ásmundur opinskátt um aðstæður sínar í barnæsku. Hann fer líka yfir ástríðuna fyrir málefnum barna og allt það sem samfélagið getur gert til að bæta aðstæður barna og unglinga sem standa höllum fæti.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -