„Björn Ingi á Viljanum“ – Skrifar bók um COVID-19

Deila

- Auglýsing -

Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri situr nú við að skrifa bók um COVID-19 kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð íslenska yfirvalda við honum. Stefnir hann að því að bókin komi út fyrri verslunarmannahelgi.

 

Eins og þeir sem fylgdust með daglegum upplýsingafundum Almannavarna var Björn Ingi þaulsetinn á þeim fundum, hann missti af fyrstu fundunum, en lét sig síðan ekki vanta á nærri 70 fundi, og skaut ítrekað fram spurningum með upphafsávarpinu: „Björn Ingi hjá Viljanum.“

„Þetta verður kilja; svokölluð blaðamannabók um mikilsverða atburði; sagt frá því sem gekk á að tjaldabaki í ákvörðunum sem vörðuðu samfélagið allt og atburðum sem settu allt á hliðina hér á landi,“ segir Björn Ingi um bókina í grein á viljinn.is.

„Ég er líklega ágætlega til þess fallinn að skrifa þessa bók eftir að hafa sótt á sjöunda tug upplýsingafunda Almannavarna og skrifað um veiruna undanfarna mánuði,” segir Björn Ingi og segir að honum sé ljóst eftir samtöl við fjölmarga aðila undanfarna daga að mikil saga er enn ósögð um það sem gekk á að tjaldabaki –– innan stjórnkerfisins og í heilbrigðisþjónustunni.

„Þar var gamalkunnug togstreita um völd og ákvarðanir og sitt sýndist hverjum, þótt allt væri slétt og fellt á yfirborðinu og þríeykið sameinaði þjóðina að baki þeim ákvörðunum sem teknar voru.“

Björn Ingi segir dr. Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar hafa stungið hugmyndinni að honum og jafnframt hvatt hann til verksins. Síðan hafi fleiri lýst yfir mikilvægi þess að atburðarásinni væri lýst á einum stað og því hefði Björn Ingi ákveðið að láta slag standa.

„Vonandi verður einhver áhugi á bókinni þegar hún kemur út,“ segir hann, en forpöntun verður á bókinni á viljinn.is.

„Ég verð að minnsta kosti á mínum stað að spyrja spurninga. Góðar ábendingar um spurningar vel þegnar nú sem fyrr. Þær eru ótalmargar og vonandi fást svör við mörgum þeirra áður en 15. júní rennur upp. Ég vil líka hvetja þá sem vilja til að senda mér ábendingar um efni í væntanlega bók; t.d. reynslusögur þeirra sem veiktust illa, urðu fyrir tekjufalli vegna rekstrarstöðvunar eða hafa einhverja merkilega sögu að segja. Skráning samtímaheimilda er alltaf vandasöm, en mikilvæg því undrafljótt fennir yfir sporin og þetta hafa sannarlega verið athyglisverðir tímar.”

- Advertisement -

Athugasemdir