Davíð Helgason fjárfestir er kominn á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir ríkustu einstaklinga heims. Davíð er í sæti 2.674 á listanum, en Forbes metur auðævi hans á einn milljarð dollara.
Davíð er því annar Íslendingurinn á listanum, en Björgólfur Thor Björgúlfsson hefur verið þar um árabil og er nú í 1.444. sæti listans, en auðæfi hans eru metin á 2,2 milljarða dollara.
Davíð er meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software, sem stofnað var 2004 í Danmörku og á hann tæp 4% í fyrirtækinu, auk þess að sitja í stjórn þess. Margir stærstu tölvuleikjaframleiðenda heims reiða sig á hugbúnað Unity Software, sem skráð var á hlutabréfamarkað í september 2020.
Í fyrra keypti Davíð Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi, sem áður var í eigu Skúla Mogensen, fyrrum forstjóra WOW air.