Einn hundur og 14 einstaklingar koma til greina sem Austfirðingur ársins

Deila

- Auglýsing -

Val á Austfirðingi ársins stendur nú yfir og geta áhugasamir tekið þátt í valinu á vef Austurfrett.is.

 

Kosning stendur til miðnættis mánudaginn 13. janúar. Alls koma 14 einstaklingar til greina í valinu og einum þeirra fylgir hundur. Einstaklingarnir og afrek þeirra eru eftirfarandi:

Bjartur Aðalbjörnsson: Bjartur, sem er oddviti Samfylkingarinnar í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps, er tilnefndur fyrir vasklega framgöngu í sveitarstjórn við að tryggja að gengið yrði að kröfum starfsmanna hreppsins sem útlit var fyrir að fengju ekki full lífeyrisréttindi vegna áralangra mistaka hjá sveitarfélaginu.

Brynjar Skúlason: Brynjar, sem getið hafði sér gott orð fyrir að koma knattspyrnuliði Hugins Seyðisfirði upp í 1. deild sumarið 2015, söðlaði um og tók við Leikni Fáskrúðsfirði. Liðinu var af flestum spáð falli úr annarri deild en tók sig til, vann deildina og spilar í fyrstu deild næsta sumar.

Bylur og Snjólaug Eyrún Guðmundsdóttir: Vaskleg framganga Byls, fíkniefnahunds lögreglunnar á Austurlandi, varð til þess að ríflega 40 kg af fíkniefnum fundust vandlega falin í bifreið sem kom til landsins með Norrænu í byrjun ágúst. Um er að ræða eitt mesta magn örvandi fíkniefna sem lögreglan hefur náð hérlendis. Snjólaug starfar í lögreglunni og sér alfarið um Byl.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir: Dagmar Ýr lýsti því yfir í byrjun nýliðins árs að hún ætlaði ekki að kaupa neinn óþarfa allt árið. Dagmar er öðrum fyrirmynd á tímum neyslusamfélagsins sem gengur nærri auðlindum Jarðar.

Eyþór Hannesson: Eyþór er talinn meðal forvígismanna plokks á Íslandi, að fara út að hlaupa og safna rusli í leiðinni. Hann hefur gert það árum saman, flokkað sorpið, komið því til skila og vakið athygli á umgengni okkar við landið. Eyþór hefur frá sumrinu 2018 gengist undir erfiða krabbameinsmeðferð en ávallt haldið í jákvæðni og áfram safnað rusli þegar hann hefur farið út til að hreyfa sig.

Gillian Haworth: Gillian hefur verið áberandi í tónlistarlífi Austurlands um áraraðir. Hún er skólastjóri Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, stýrir kór Reyðarfjarðarkirkju auk þess sem hún er þar organisti og meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Austurlands sem stofnuð var 2018. Gillian hefur lagt mikið til austfirsks samfélag með einstakri jákvæðni og dugnaði.

Helgi Snær Ómarsson: Áhrifavaldurinn Helgi Ómarsson frá Seyðisfirði er með um 13.000 fylgjendur á Instagram. Hann fékk þá til liðs við sig fyrir jólin til styrktar UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og á einum sólarhring söfnuðust 1,1 milljón fyrir börn og fólk í neyð.

Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir: Þrátt fyrir að vera aðeins 13 ára gömul hefur Ísold Fönn skipað sér í hóp bestu skautadansara landsins. Hún er frá Möðrudal á Fjöllum þar sem hún hefur nýtt öll tækifæri til að æfa sig á frosnum tjörnum en hluta ársins býr hún í Bratislava í Slóvakíu þar sem hún æfir og hefur sett stefnuna á vetrarólympíuleikana 2022.

Jódís Skúladóttir: Jódís fór fyrir undirbúningshópi að stofnun samtaka Hinsegin fólks á Austurlandi sem voru formlega stofnuð skömmu fyrir áramót. Samtökunum er ætlað að styðja við hinsegin fólk og gera það sýnlegra í austfirsku samfélagi.

Jóhann Sveinbjörnsson: Hinn 86 ára gamli Jóhann var að snúast á golfvellinum á Seyðisfirði að kvöldi snemma í ágúst þegar honum fannst hann heyra kallað úr fjallinu ofan við völlinn. Jóhann gerði viðvart sem varð til þess að lífi svissneskrar konu, sem hrapað hafði í fjallinu, var bjargað. Hún hafði af veikum mætti reynt að hrópa á hjálp yfir daginn og ná athygli fólks sem hún sá fara um svæðið en náði loks eyrum Jóhanns.

Óskar Þór Guðmundsson: Rannsóknarlögreglumaðurinn varð fimmtugur á árinu og í ágúst lagði hann af stað hjólandi frá Fáskrúðsfirði yfir hálendið til Reykjavíkur. Ferðin tók hann ellefu daga og tók á enda erfitt að fara yfir fjöllin í miklum mótvindi og rigningu. Óskar hljóp síðan 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þegar hann var kominn á áfangastað. Ferðina fór hann til að safna áheitum til styrktar Samhjálpar til að aðstoða fíkla í vanda.

Sigríður Dóra Sverrisdóttir: Eftir trúnaðarmannanámskeið hjá AFLi starfsgreinafélagi haustið 2016 uppgötvaði Sigríður Dóra að í rúman áratug hefðu verið gerð mistök við útreikning lífeyrissjóðsgreiðslna starfsmanna Vopnafjarðarhrepps. Sigríður Dóra fór síðan fyrir baráttu fyrir að hreppurinn tryggði að starfsmennirnir yrðu ekki fyrir neinum skerðingum á lífeyrisréttindum vegna þessa. Í maí tilkynnti hreppsnefnd að hún ætlaði aðeins að greiða hluta en eftir áframhaldandi baráttu var ákvörðuninni breytt í nóvember á þann hátt að sveitarfélagið tryggir réttindin.

Unnar Erlingsson: Unnar hefur frá árinu 2016 barist við erfið veikindi sem hafa gert hann óvinnufæran. Hann hefur deilt hugleiðingum sínum og hvatningarorðum með öðrum undir myllumerkinu #ekkigefastupp og ávallt sýnt af sér jákvæðni og stuðning við samferðafólk sitt og samfélag.

- Advertisement -

Athugasemdir