Fræg söngvatengsl

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Söngvakeppnin fer nú fram á RÚV, en þar etja kappi keppendur með 10 lög um hylli og innhringingar landsmanna. Tvö lög eru komin áfram í úrslit og fimm eiga eftir að keppa um tvö laus pláss í úrslitum. Líkt og oft gerist í keppnum af þessu tagi eiga flytjendur og lagahöfundar ættartengsl við fyrri keppendur í Söngvakeppninni og/eða við aðra sem þekktir eru fyrir tónlist á öðrum vettvangi. Skoðum nokkur fræg ættarsöngvatengsl keppenda.

 

Mæðgurnar Elísabet og Helga
Mynd /Facebook

Ættmóðir Söngvakeppninnar

Elísabet Ormslev (26) sem flutti eigið lag, Elta þig, á fyrra undanúrslitakvöldinu tilheyrir annarri kynslóð keppninnar. Hún er dóttir Helgu Möller, sem var í hópnum Icy, sem fór fyrstur út fyrir Íslands hönd árið 1986, með Gleðibankann ódauðlega. Helga tók nokkrum sinnum þátt eftir það, dúett sem hún var í varð til dæmis í öðru sæti árið 1991 með lagið Í dag. Elísabet hefur einnig tekið þátt áður, bæði í bakröddum og árið 2016 flutti hún lag Gretu Salóme, Á ný.

Feðgarnir Stefán og Birgir Steinn Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Líf Stefáns Sálarmanns

Birgir Steinn Stefánsson (27) er annar lagahöfunda laganna Dreyma og Klukkan tifar. Stefán Hilmarsson skrifar íslenskan texta seinna lagsins og enska textann ásamt lagahöfundum. Stefán er best þekktur sem söngvari hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns, en titillag sólóplötu hans, Líf, sem kom út árið 1993, fjallaði um soninn Birgi Stein og nýtt hlutverk Stefáns, föðurhlutverkið. Birgir Steinn er einnig önnur kynslóð í keppninni því Stefán fór út fyrir Íslands hönd árið 1988 ásamt Sverri Stormsker með Þú og Þeir (Sókrates) og árið 1991 ásamt Eyfa Kristjáns með Drauminn um Nínu.

Mæðgurnar Rúna og Nína Dagbjört
Mynd /Facebook

Nína nútímans

Nína Dagbjört Helgadóttir (19) heitir sama nafni og eitt vinsælasta lag Söngvakeppninnar, sem áðurnefndur Stefán söng. Hvort hún var skírð í höfuðið á laginu vitum við ekki, en hún tilheyrir líka annarri kynslóð keppenda þar móðir hennar, Rúna G. Stefánsdóttir hefur þrisvar tekið þátt: í bakröddum hjá Selmu Björnsdóttur í laginu All Out Of Luck árið 1999. Árið 2001 söng hún lagið Í villtan dans og endaði í 5. sæti og árið 2006 söng hún lagið 100% og komst í úrslit. Rúna stígur á svið í fjórða sinn í ár, í bakröddum hjá dóttur sinni. Stefán söng bakraddir með Rúnu í All Out Of Luck, en hvort hann er búinn að ráða sig í bakraddir hjá syni sínum í Dreyma vitum við ekki, en það kæmi þá í ljós laugardagskvöldið 15. febrúar.

Systkinin Már og Ísold
Mynd / Facebook

Söngelsk systkini

Ísold Wilberg Antonsdóttir (27) syngur lag feðgana Birgis Steins og Stefáns, og félaga þeirra Ragnars Más Jónssonar, Klukkan tifar. Hálfbróðir hennar er Már Gunnarsson, sem er einnig að gera það gott í tónlist, þótt hann hafi ekki tekið þátt í Söngvakeppninni (ekki enn þá alla vega). Systkinin gerðu sér lítið fyrir og unnu jólalagakeppni Rásar 2 nú í desember með lagið Jólaósk.

Fetar í fótspor föðurins

Hljómsveitin DIMMA komst áfram á fyrra undanúrslitakvöldinu með lagið Almyrkvi. Egill Örn Rafnsson (37) heldur fast um trommukjuðana í bandinu, en hann er sonur trommuleikarans og útgefandans Rafns Ragnars Jónssonar (Rabba), sem lést langt um aldur fram árið 2004. Rabbi spilaði með mörgum hljómsveitum líkt og Egill Örn sonur hans, meðal annars stofnaði hann Bítlavinafélagið og Sálina hans Jóns míns. Einn af stofnendum þeirra beggja ásamt Rabba var Jón Ólafsson, sem á lagið Fellibylur í keppninni í ár. Og títtnefndur Stefán í þessari grein stofnaði með þeim Sálina hans Jóns míns. Svona fara tengslin, vináttan og tónlistin í hring, líka í Söngvakeppninni.

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira