2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Frægir barnungir í fjölmiðlum: Snemma beygist krókurinn

  Það fylgir því að vera þekktur einstaklingur að rata iðulega á síður fjölmiðla, já og nú til dags á vefmiðla. Séð og Heyrt ákvað að fletta sjö þekktum einstaklingum upp á timarit.is og sjá hvenær þeir komu fyrst fram í fjölmiðlum. Eins og sjá má völdu nokkrir þeirra starfsferilinn snemma.

   

  Stefán Eiríksson Mynd / Facebook

  Stefán Eiríksson (49) lögfræðingur

  AUGLÝSING


  Verðandi útvarpsstjóra finnum við fyrst ellefu ára gamlan þar sem hann fór með hlutverk Nonna, eitt stærsta hlutverkið í leikritinu Allt fyrir friðinn, sem sýnt var í Kópavogsleikhúsinu. Stefán sagðist vera „auðvitað dálítið syfjaður á morgnana þegar ég á að fara í skólann,“ enda æfingar um kvöld og helgar.

  Skjáskot timarit.is Dagblaðið 12.11.1981

  Ragnheiður Bjarman Eiríksdóttir
  Mynd / Facebook

  Ragnheiður Bjarman Eiríksdóttir (49), hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi

  Ragnheiður, eða Ragga, var snemma farin að hugsa vel um aðra. Í Morgunblaðinu 18. maí 1980, var hún átta ára gömul ásamt vinkonu sinni þar sem þær höfðu safnað fyrir Rauða kross Íslands. Ragga settist síðan hinum megin við borðið nokkrum áratugum seinna og gerðist blaðamaður og pistlahöfundur.

  Skjáskot timarit.is Morgunblaðið 18.05.1980

  Oddur Eysteinn Friðriksson
  Mynd / Facebook

  Oddur Eysteinn Friðriksson (36) állistamaður

  Oddur Eysteinn gaf út vikublaðið Morgunritarinn tólf ára gamall. Þar myndskreytti hann brandara og hannaði auglýsingar. Oddur er þó löngu hættur að gefa út blöð, en hefur gert garðinn frægan með állistaverkum sínum undir höfundarnafninu Odee, og innan tíðar kemur fatnaður á markað sem hannaður er eftir eldri og nýrri verkum Odds.

  Skjáskot timarit.is DV 15.02.1996

  Semla Björnsdóttir
  Mynd / Facebook

  Selma Björnsdóttir (45), leikstjóri, leik- og söngkona, dansari

  Selma vann einstaklingskeppni 10-12 ára í „freestyle“ í apríl árið 1987, en hún var þá nemandi í Dansneistanum í Garðabæ. Selma tók einmitt þátt í hópkeppninni ásamt tveimur vinkonum og unnu þær líka. Aðspurð um hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, svarar Selma: „Mig langar helst af öllu að verða lögfræðingur. Ég get ímyndað mér að það sé svo gaman að starfa við það.“ Selma botnaði þó með að hún ætlaði örugglega að vera áfram í dansnámi næstu árin. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem nafn Selmu ratar í fjölmiðla því í Morgunblaðinu 24. desember 1985 er sagt frá því að Selma leiki Kamillu í uppsetningu Þjóðleikhússins á Kardimommubænum.

  Skjáskot timarit.is Helgarpósturinn 23.04.1987

  Ingólfur H. Ragnarsson Geirdal Mynd / Ólöf Erla Einarsdóttir Svart

  Ingólfur Ragnarsson Geirdal (51), töfra- og tónlistarmaður

  Ingó varð yngsti töframaður landsins aðeins tíu ára gamall og var farinn að sýna listir sínar í skemmtistaðnum Hollywood, þrátt fyrir að vanta áratug í að mega komast inn á skilríkjum. Í Tímanum 30. júlí 1983 sagði Ingó: „Stefnan er að verða atvinnutöframaður,“ og ljóst er að Ingó stóð við þau orð, enda starfar hann sem töframaður í dag, samhliða því að spila og semja tónlist sem meðlimur sveitarinnar DIMMU.

  Skjáskot timarit.is Tíminn 30.07.1983

  Skjáskot timarit.is Tíminn 30.07.1983

  Jóhanna Guðrún Jónsdóttir
  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Jóhanna Guðrún Jónsdóttir (28) tónlistarkona

  Fyrsta umfjöllun sem við finnum með mynd er í Heimilisblaðinu 12. nóvember 2001, þar sem Jóhanna Guðrún, þá ellefu ára gömul, sagðist taka virkan þátt í heimilisstörfunum þrátt fyrir þéttskipaða dagskrá. „Ég geng alltaf strax frá eftir mig í herberginu mínu,“ sagði barnastjarnan unga, sem hefur fullorðnast og er ein fremsta söngkona landsins.

  Skjáskot timarit.is Heimilisblaðið 12.11.2001

   

  Páll Óskar Hjálmtýsson
  Mynd / Aldís Pálsdóttir

  Páll Óskar Hjálmtýsson (49) tónlistarmaður

  Páll Óskar tók ellefu ára gamall árið 1981 þátt í teiknisamkeppni meðal nemenda í grunnskólum um teikningar sem innlegg í áróður gegn reykingum. Fór svo að Páll Óskar var einn af fjórum verðlaunahöfum í aldurshópnum 10-12 ára (Vikan 17.09.1981). Þrátt fyrir að Páll Óskar hafi ekki verið þekktur fyrir teikningar sínar, þá er hann einn af þekktari söngvurum og „performerum“ þjóðarinnar.

  Skjáskot timarit.is Vikan 17.09.1981

  Skjáskot timarit.is Vikan 17.09.1981

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum