Frakkar hafa valið framlag sitt til Eurovision í ár. Á laugardag kepptu 12 lög um hylli landa sinna í tveimur umferðum í Eurovision France: C’est Vous Qui Décidez eða Eurovision Frakkland: Það ert þú sem ákveður. Öll lögin voru flutt og síðan haldin símakosning þar sem sjö lög komust áfram. Tíu manna dómnefnd valdi síðan eitt lag til viðbótar með svokölluðum „Euro-ticket.“ Síðan var haldin ný atkvæðagreiðsla og giltu atkvæði dómnefndar og almennings þá jafnt.
Barbara Pravi sigraði bæði símakosninguna og dómnefndarkosninguna með laginu Voilá. Pravi er söngkona og lagahöfundur og er af serbneskum og írönskum ættum. Lagið er eftir Pravi og Igit and Lili Poe. Þar sem Frakkland er eitt af hinum „stóru fimm“ fer Voilá beint í aðalkeppnina sem fer fram 22. maí í Rotterdam í Hollandi.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar er mikill aðdáandi Eurovision og segir hann um lagið: „Frakkar hafa valið lag fyrir júró í ár. Þetta er þrusuflott og mjööög Chanson Française, smekkfullt af tilfinningum, með dass af Piaf og slurk af Jaques Brel. Negla.“
Á meðal dómnefndarmanna voru söngvarinn Amir sem keppti fyrir hönd Frakklands í Stokkhólmi í Svíþjóð 2016 með lagið J’ai Cherché og lenti í sjöttta sæti og fatahönnuðurinn Jean Paul-Gaultier.