2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Geta allir dansað? – Karlarnir 5

  Önnur þáttaröð Allir geta dansað, hefst í sjónvarpi föstudaginn 29. nóvember. Sú fyrri sló í gegn og má búast við að margir aðdáendur dans og/eða fræga fólksins muni sitja límdir við skjáinn. Það er einvala lið 10 þekktra einstaklinga sem mun keppa með dansfélögum sínum. Öll eru þau þekkt fyrir annað en danstakta en flest þeirra eiga sameiginlegt að hafa keppt áður og farið með sigur af hólmi og því er líklegt að keppnisskapið verði mikið á dansgólfinu.

   

  Mynd / Facebook

  Eyjólfur Kristjánsson (58)

  AUGLÝSING


  Eyfi er alvanur sviðsljósinu. Hann hefur um árabil verið einn ástsælasti söngvari og lagahöfundur þjóðarinnar. Hann hefur rúllað inn lögum í Söngvakeppni sjónvarpsins og einu sinni staðið á stóra sviðinu í keppninni þegar hann flutti vinsælasta íslenska lag keppninnar, Draumur um Nínu, ásamt Stefáni Hilmarssyni á Ítalíu árið 1991. Lagið sigraði ekki Evrópu en hefur síðan þá verið ódauðlegt á mannamótum þjóðarinnar.
  Eyfi hefur brallað margt á ævinni, hann lauk ekki stúdentsprófi enda heillaði tónlistin meira en allt en hann lærði á píanó í tónlistarskóla FÍH. Flugnámið heillaði líka og byrjaði Eyfi að læra en móðir hans sem var hrædd um þetta nám sonarins og þverneitaði að greiða fyrir frekara nám. Eyfi kenndi líka á skíði í mörg ár í Kerlingarfjöllum. Frægðin bankaði upp þegar Bítlavinafélagið varð til fyrir tilviljun árið 1986 og hvert mannsbarn kyrjaði um manninn sem fer í ljós þrisvar í viku. Síðustu árin hefur Eyfi þó ekki farið í ljós, heldur má finna hann dagsdaglega á snyrtistofunni Heilsa og útlit, ásamt konu sinni, Söndru Lárusdóttur. Þar tekur hann á móti viðskiptavinum í tannhvíttun, enda útlærður í faginu.

  Mynd / Facebook

  Hafsteinn Þór Guðjónsson (35)

  Haffi Haff er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum. Hann er menntaður förðunarfræðingur og fatahönnuður en hefur þó vakið mesta athygli fyrir tónlistina. Hann hefur meðal annars tekið þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins nokkrum sinnum þar sem hann vakið athygli fyrir líflega sviðsframkomu og útgeislun. En einnig hefur Haffi unnið sem plötusnúður og útsetjari. Haffi tók þátt í Wipeout Ísland árið 2009, þar sem hann kom flestum á óvart og vann með yfirburðum. En þó að Haffi sé ekki þekktastur fyrir afrek á íþróttasviðinu, þá hefur hann hlaupið maraþon, enda hugsar hann vel um heilsuna. Haffi hefur sagt foreldra sína það mikilvægasta í lífi sínu. Hann fór snemma til sjós með föður sínum, sem er skipstjóri í Alaska, og segir sjómennskuna hafa þroskað sig hratt og þakkar hana getunni til að takast á við ólík og krefjandi verkefni.

  Mynd / Facebook

  Jón Viðar Arnþórsson (36)

  Jón Viðar bardagakappi hefur langa reynslu að baki í hreyfingu, þó ekki þeim töktum sem dansgólfið krefst, þó að hann sé alvanur að dansa í kringum andstæðinga sína í bardaga. Jón Viðar er einn af stofnendum og eigendum ISR Matrix Iceland og Mjölnis, en hefur selt eignarhlut sinn í Mjölni. Hann hefur starfað í lögreglunni og hefur farið í gegnum sérsveitarþjálfun. Í dag starfar hann við að þjálfa fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í neyðarvörn og öryggistökum. Jón Viðar hefur einnig séð um stjórnun slagsmálaatriða og áhættuatriða í íslenskum kvikmyndum og þáttum. Jón Viðar er forfallinn aðdáandi Bruce Lee og varði meiri tíma í menntaskóla að kynna sér hann en námsbækurnar. „Ég veit allavega að Bruce Lee var Cha cha cha-meistarinn í Hong Kong,“ segir Jón Viðar og gaman verður að sjá hvort hann verði jafnoki átrúnaðargoðs síns. Jón Viðar safnar fornritum og þá helst fyrstu prentunum af Íslendingasögum, frá 17. og 18. öld. Hann er einnig félagi í Ásatrúarfélaginu en þó ekki virkur. Jón Viðar er mikill keppnismaður og mun væntanlega mæta með keppnisskap sitt til þátttöku.

  Mynd / Facebook

  Ólafur Örn Ólafsson (50)

  Ólafur Örn framreiðslumeistari er best þekktur fyrir hæfileika sína sem vínþjónn og kokkur. Hann ferðaðist vítt og breitt og heimsótti matreiðslumeistara erlendis í sjónvarpsþáttunum Kokkaflakk, var dómari í Masterchef Ísland,  rak veitingastaðinn Dill, sem seinna hlaut fyrstur íslenskra staða Michelin-stjörnu, ásamt því að hafa rekið fleiri veitingastaði, en sá nýjasti er Hagavagninn í Vesturbænum sem er feikilega vinsæll. Ólafur Örn er ekki bara smekkmaður á mat og vín, heldur líka á fatnað. Hann verslar aðallega í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar og gengur alltaf með bindi. Ólafur Örn situr nú hinum megin við borðið og lætur aðra dæma sig, en hann hefur látið frá sér eftirfarandi: „Ég hef aldrei keppt í neinu, var aldrei í íþróttum og spila sjaldan en það er enginn að fara að vinna þetta nema ég.“

  Mynd / Óli Magg

  Veigar Páll Gunnarsson (39)

  Veigar Páll, þjálfari hjá Stjörnunni og fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu, lék með liðum í Noregi og Frakklandi, áður en hann flutti alfarið heim í draumahúsið í Garðabæ með fjölskylduna. Að sögn Veigars segja foreldrar hans endurtekið söguna af honum þegar leið yfir hann af frekju þegar móðir hans bannaði honum að fara út í fótbolta því að klukkan var orðin of margt. Veigar Páll fær sér allt nema hrátt á pylsuna og segir að titill ævisögu hans verði Ein með öllu. Hann missti bróður sinn fyrir nokkrum árum sem var hans dyggasti stuðningsmaður í boltanum. Veigar Páll sagði í viðtali eftir bróðurmissinn að hann fyndi fyrir nærveru hans á vellinum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum