2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Geta allir dansað? – Konurnar 5

  Önnur þáttaröð Allir geta dansað, hefst í sjónvarpi föstudaginn 29. nóvember. Sú fyrri sló í gegn og má búast við að margir aðdáendur dans og/eða fræga fólksins muni sitja límdir við skjáinn. Það er einvala lið 10 þekktra einstaklinga sem mun keppa með dansfélögum sínum. Öll eru þau þekkt fyrir annað en danstakta en flest þeirra eiga sameiginlegt að hafa keppt áður og farið með sigur af hólmi og því er líklegt að keppnisskapið verði mikið á dansgólfinu.

   

  Mynd / Aldís Pálsdóttir

  Manuela Ósk Harðardóttir (36)

  AUGLÝSING


  Manuela Ósk hefur verið undir smásjá þjóðarinnar síðan hún var krýnd ungfrú Reykjavík og ungfrú Ísland árið 2002. Eins og frægt varð klæddist hún rauðum kjól sem var gjöf frá hnefaleikakappanum Mike Tyson, sem Manuela Ósk hitti þegar hún var í verslunarferð í Bandaríkjunum. Manuela Ósk bjó lengi í Bandaríkjunum en býr núna á Íslandi. Hún hefur nýtt sér reynsluna úr fegurðarbransanum og er annar eigandi Miss Universe Iceland en keppnin hefur verið haldin fjögur ár í röð við góðan orðstír. Manuela Ósk lauk námi við Fatahönnunardeild LHÍ og hefur mikinn áhuga á tísku og hönnun, sem er lykilatriði í hennar bransa. Manuela Ósk er ein af samfélagsmiðlastjörnum landsins og hefur meðal annars verið ófeimin við að segja fylgjendum sínum á Instagram frá þeim fegrunaraðgerðum sem hún hefur farið í. Hún skellti einnig í leik þar sem slík aðgerð var í verðlaun. Hún stofnaði nýlega ásamt öðrum heilsumiðstöðina Even Labs og langar að verða hundrað ára gömul og líta vel út. Gott útlit getur Manuela Ósk að hluta til þakkað þeirri staðreynd að hún hefur aldrei bragðað áfengi.

  Regína Ósk
  Mynd / Facebook

  Regína Ósk Óskarsdóttir (41)

  Regína Ósk söngkona er ein af Eurovision-stjörnum landsins, hún hefur farið út nokkrum sinnum sem bakraddarsöngkona og einu sinni með vinningslag ásamt Friðriki Ómari, This Is My Life. Ástríða þeirra á keppninni varð kveikjan að Eurobandinu en þau troða reglulega upp og á prógramminu eru aðeins Eurovision-lög sem þau syngja á fjölda tungumála. Regína Ósk er ein af bakraddarsöngkonum landsins, en hún hefur einnig verið ein af ABBA-skvísunum í vinsælum sýningum í Hörpu, auk þess að syngja ein á sviði og gefa út plötur undir eigin nafni. Hún er einnig vinsæll veislustjóri í félagi við Selmu Björns, þar sem þær stöllur stýra veislunni og skella svo í allsherjar sýningu og ball á eftir, enda báðar alvanar að koma fram á sviði.
  Regína lét einu sinni hafa eftir sér í viðtali að hún horfði á The Bachelor og The Biggest Loser, og stæði sig stundum að því að vera með snakk þegar fólkið væri að púla og púla. Fastlega má gera ráð fyrir að sjónvarpsáhorfendur verði með snakk á kósíkvöldi þegar Allir geta dansað verður á skjánum.

  Mynd / Facebook

  Sólveig Eiríksdóttir (59)

  Solla heilsufrömuður er landsþekkt sem Solla á Gló, veitingastaðir sem hún stofnaði og starfrækti þar til í haust þegar hún og eiginmaður hennar seldu eignarhlut sinn og sögðu að kominn væri tími til að njóta og gera aðra hluti. Solla mun þó starfa þar sem ráðgjafi til ársins 2021. Hafa þau látið hafa eftir sér að það standi ekki til að opna fleiri veitingastaði. Stuttu fyrir söluna gifti Solla sig, eftir að hafa verið í sambandi með unnusta sínum, Elíasi Guðmundssyni, í tæpa tvo áratugi. Solla rekur einnig Himneskt ehf. sem framleiðir og selur heilsuvörur og hún hélt upp á 55 ára afmælið með útgáfu bókarinnar Himneskt að njóta, ásamt dóttur sinni. Velgengni Sollu í veitingabransanum byggðist á dugnaði og því að hún lagði hjarta sitt og sál í verkin. Það verður því spennandi að fylgjast með henni á dansgólfinu og einnig að sjá hvað hún tekur sér fyrir hendur þegar hún leggur dansskóna á hilluna.

  Mynd / Facebook

  Valdís Eiríksdóttir (27)

  Vala er dagskrárgerðarkona á útvarpsstöðinni FM957, þar sem hún er með þátt alla virka daga. Vala hefur sagt bransann erfiðan og að þeir sem í honum starfi þurfi að þola allskonar umtal, hún segist ekki hafa fundið fyrir því að vera kona, frekar aldrinum, en Vala var 22 ára þegar hún byrjaði á FM957 en hún hafi hins vegar þroskast heilmikið í bransanum. Vala dundar sér við að semja tónlist í frítímanum. Hún æfir pole fitness af kappi en hún féll fyrir íþróttinni árið 2016 þegar hún var kynnir á Pole Fit Open-móti í Gamla bíói. Segir hún pole fitness vera fallega, krefjandi, sársaukafulla og krefjandi íþrótt. Sömu orð má nota um dansinn sem Vala reynir nú við.

  Vilborg Arna Gissurardóttir (39)

  Vilborg Arna er lærður ferðamálafræðingur, ævintýrakona og pólfari. Hún gekk ein síns liðs á suðurpólinn árið 2012 og tókst það á 60 dögum. Fimm árum seinna komst hún á topp Everest fyrst íslenskra kvenna. Árið 2014 reyndi hún við toppinn en tókst ekki í það sinn en vann við hjálparstörf eftir að mannskæðasta snjóflóð í sögu Evrest skall á 500 metrum fyrir ofan grunnbúðirnar, þar sem hún dvaldi. Vilborg Arna hefur víðtæka reynslu í sölu og markaðsmálum, hefur starfað sem stundakennari og unnið að fjölbreyttum ráðgjafaverkefnum. Hún starfaði meðal annars hjá Saga film sem sölu- og markaðsstjóri en í dag starfar hún hjá Tindar Travel, sem er ævintýraklúbbur útivistarfólksins. Síðasta fjall sem Vilborg kleif er Ama Dablam í Nepal, þar sem hún frumsýndi um leið kærastann á samfélagsmiðlum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum